140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mér fannst birtast í henni það sem fram hefur komið á undanförnum dögum að Sjálfstæðisflokkurinn neitar einhvern veginn að horfast í augu við veruleikann eins og hann blasir við þjóðinni. Það er eins og hér hafi ekki orðið hrun í ríkisfjármálum og að ekki þurfi að bregðast við versnandi stöðu sem upp kom haustið 2008.

Forsenda þess að hægt sé að ná viðspyrnu í þjóðfélaginu, hvort sem er hjá heimilum eða fyrirtækjum, er betri staða ríkissjóðs. Við stöndum alltaf frammi fyrir því vandamáli að einhvers staðar þurfum við að sækja fjármuni til að standa skil á þeim útgjöldum sem ríkið vill ráðast í. Annaðhvort er um að ræða skatta eða útgjöld, tekjur eða útgjöld, og það er ríkisstjórnarflokkanna að takast á við vandamálið, ná halla ríkissjóðs niður og þar hefur reyndar náðst undraverður árangur á undanförnum árum.

Mig langar að rifja upp fyrir þingmanninum að samkvæmt alþjóðlegum skýrslum, til dæmis í skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem kom út í júní 2010, bera fjármálafyrirtæki hlutfallslega minni skatta en aðrar atvinnugreinar, meðal annars vegna undanþágu þeirra frá álagningu virðisaukaskatts. Ef við horfum aukinheldur á þá staðreynd að við höfum þurft að taka umtalsverða fjármuni úr sameiginlegum sjóðum okkar til að styðja við bakið á fjármálafyrirtækjunum að loknu hruni, hljótum við að horfa til þess að kannski sé eðlilegt að þessi fyrirtæki, í gegnum beina og óbeina skatta, aðstoði við endurreisn ríkissjóðs og aðstoði við það verkefni sem við þurfum að vinna, að viðhalda velferðarkerfi í landinu. Þann veruleika verða stjórnmálamenn allra flokka að horfast í augu við.