140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir andsvar hans. Hann er skyndilega orðinn helsti talsmaður Samfylkingarinnar fyrir hækkun skatta og það hefur verið mjög áberandi í umræðunni undanfarna daga. Hann hefði hins vegar kannski ekki átt að segja að það sé eins og við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lítum ekki á veruleikann eins og hann blasir við almenningi. Ég held að sá sem gengur lengst í að horfast ekki í augu við veruleikann sé hæstv. forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Síðustu ummæli hæstv. forsætisráðherra um brottflutning fólks eru gott dæmi um það.

Hv. þingmaður segir: Þú gleymir því að hér varð bankahrun. Enginn hefur gleymt því. Og menn hafa alls ekki gleymt hverju var lofað af þeim flokkum sem nú eru í ríkisstjórn fyrir kosningarnar í kjölfar bankahrunsins. Öllum er að verða ljóst að það stendur ekki til að standa við eitt eða neitt af þeim loforðum. Annaðhvort hafa menn aldrei ætlað sér að efna þau eða menn vissu ekkert út í hvað þeir voru að fara.

Stóra einstaka málið er þetta: Það verður að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það verður að leiðrétta skuldir, bæði hjá fyrirtækjum og almenningi. Við eigum sömuleiðis að lækka vexti. Við munum aldrei geta skattlagt okkur út úr kreppunni, það er bara ekki hægt, það er fullkomlega útilokað. Menn standa hér alltaf og ræða þetta vegna þess að hjólin hafa ekki komist af stað. Hv. þm. Magnús Orri Schram veit það betur en flestir aðrir hver hefur komið í veg fyrir að hér skapist skilyrði fyrir nýsköpun og störfum í landinu. Það er ríkisstjórnin. Menn munu aldrei ná árangri, virðulegi forseti, með því að reyna að skattleggja þá atvinnustarfsemi sem fyrir er, sama hver hún er, aðeins meira. Menn verða að koma hjólum atvinnulífsins af stað.