140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í meðförum nefndarinnar hefur skattprósenta launaskattsins lækkað úr 10,5% í 5,45% sem í rauninni útleggst sem 6,71% ef um hagnað er að ræða hjá fyrirtækjum. Það er vegna þess að hér er verið að fara þá leið að búa til flækjustig þannig að menn geti ekki dregið þetta gjald frá rekstrarkostnaði eins og ef um tryggingagjald væri að ræða og eins og gert er með launaskattinn í Danmörku. Ofurhagnaður fyrirtækjanna er fyrst og fremst til kominn vegna þess að í viðskiptabönkunum er verið að endurmeta eignir. Stóra einstaka málið fram til þessa hefur náttúrlega verið að þær leiðréttingar hafa ekki skilað sér jafn vel og maður hefði viljað en það er lykillinn að því að hlutirnir fari af stað.

Það er alveg sama um hvaða atvinnustarfsemi er að ræða; ef settir eru of háir launaskattar þýðir það uppsagnir á fólki. Það þýðir að þessir launaskattar verða ekki innheimtir. Við vitum að þetta mun líklega hafa þau áhrif að bankastarfsmönnum verður sagt upp. Til að einfalda hlutina skulum við segja að bankastarfsmenn séu þúsund talsins núna og þeir verði 800 eftir uppsagnir í kjölfar þessa frumvarps. Þá er ekki lengur tekinn launaskattur af þúsund manns heldur bara 800. Ef við ætlum að hækka launaskattana enn meira til að ná því sem skattur af þúsund manns hefði náð, mun fólkinu fækka úr 800 í 600. Þessi skattaleið gengur ekki upp. Það er ekki hægt að skattleggja okkur út úr þessum vanda.

Aðrar þjóðir sem lentu í sambærilegum hlutum hafa lækkað skatta til að koma hlutunum af stað og ýtt undir fjárfestingu. Stóra einstaka vandamálið við þessa ríkisstjórn er að hún fer ekki þá leið. Þetta frumvarp er bara enn ein birtingarmynd þess.