140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um fjársýsluskatt sem hefur verið í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á þessu hausti. Sitt sýnist hverjum um þennan skatt sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir og leggja á á fjármálafyrirtækin í landinu.

Í fyrsta lagi virðist málið hafa verið frá upphafi byggt á ákveðnum misskilningi. Þegar málið var kynnt hér og í þingnefndinni var sagt að verið væri að fara hina svokölluðu dönsku leið, skatturinn væri að danskri fyrirmynd. Síðan hefur komið í ljós að sú reifun var byggð á misskilningi því að umhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi er einfaldlega allt annað en í Danmörku og ekki hægt að bera þennan nýja skatt, með tilliti til þátta í umhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi, saman við danska fyrirmynd. Þetta var strax slegið út af borðinu í umræðunni og við erum þess vegna að ræða um hreinræktað afkvæmi hinnar norrænu velferðarstjórnar í skattamálum, þ.e. útgáfu af fjársýsluskatti sem hvergi á sér hliðstæðu í heiminum vegna þess að umhverfið er öðruvísi þar.

Það kom glögglega fram af hálfu fjármálafyrirtækjanna og starfsfólks þeirra að ef þessi skattur sem er 10,5% á laun starfsmanna fjármálafyrirtækja yrði að veruleika mundi starfsmönnum að öllum líkindum fækka um 400–500 manns og af því að þessi skattur er launatengdur þá mundu trúlega einingar sem eru kannski ekki hvað arðbærastar innan fjármálafyrirtækjanna leggjast fyrst af. Þá horfðu menn til þess að fjármálastofnanir eða útibú banka vítt og breitt um landið mundu leggjast af. Þar á ég við mikilvægar starfsstöðvar vítt og breitt um landið þar sem langflestir starfsmenn eru kvenkyns. Það er ljóst að þetta hefði haft í för með sér gríðarlegar uppsagnir í bankastofnunum um allt land og bitnað sérstaklega á konum þar sem konur eru 70–75% af starfsmönnum fjármálafyrirtækja.

Eins og við höfum rætt í efnahags- og viðskiptanefnd á þessu hausti hafa margvíslegar álögur verið lagðar á fjármálafyrirtækin. Þar má nefna að embætti umboðsmanns skuldara er orðið miklu stærra en áætlanir gerðu ráð fyrir og bankarnir standa straum af þeirri starfsemi, einnig að starfsemi Fjármálaeftirlitsins hefur vaxið svo um munar og bankarnir standa undir því. Fleiri álögur mætti nefna, svo sem innstæðutryggingarsjóð þar sem fjármálafyrirtæki þurfa að setja fjármuni inn til að standa straum af uppbyggingu sjóðs ef það kæmi annað bankahrun. Reyndar er enn unnið að því á Alþingi, í Evrópu og um allan heim að finna út hvernig hægt verður að byggja slíkan sjóð upp og hverjir eigi á endanum að bera ábyrgðina á fjármálakerfinu.

Það er margt óljóst í þessu en ég held því ekki fram að ekki megi leggja auknar álögur á starfsemi fjármálafyrirtækjanna. Að sjálfsögðu þurfa þau í kjölfar efnahagshrunsins frá árinu 2008 að taka þátt í endurreisnarstarfinu og skila samfélaginu fjármunum þannig að við getum byggt velferðarkerfið aftur upp. Velferðarkerfinu hefur því miður hnignað í kjölfar hrunsins og með óbreyttri stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum er ég hræddur um að við eigum langt í land með að snúa vörn í sókn.

Þessi breyting og það sem hér er lagt til er enn eitt dæmið um hringlandahátt í skattbreytingum ríkisstjórnarinnar. Þetta frumvarp eins og það var fyrst lagt fram var harðlega gagnrýnt af helstu hagsmunaaðilum, starfsfólki fjármálafyrirtækja og nefna mætti fleiri. Þess vegna hefur verið ákveðið að hverfa frá þessum skatti að stóru leyti, þ.e. að 10,5% launaskatturinn verði 5,45% launaskattur og síðan verði lagður sérstakur tekjuskattur á hagnað fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð kr. Það mun væntanlega leiða til þess að það verða einkum stóru bankarnir þrír sem munu greiða sérstakan tekjuskatt verði umframhagnaður meira en milljarður kr.

Maður veltir því fyrir sér hvaða hugsun lá að baki hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra þegar þetta frumvarp var lagt fram vegna þess að þegar við skoðuðum í haust álögur á sparisjóðakerfið í landinu kom í ljós að opinberar fastar álögur á starfsemi sparisjóðanna í landinu, ef öll skattstefna ríkisstjórnarinnar hefði náð fram að ganga, væru um 450 millj. kr. á ári. Má í því samhengi nefna, virðulegi forseti, að starfsmenn sparisjóðanna í landinu eru 150. Það er því verið að leggja 3 millj. kr. opinberar álögur á hvert einasta starf í sparisjóðunum í landinu.

Við skulum hafa hugfast að margir sparisjóðanna hafa staðið af sér hrunið. Þeir sparisjóðir, eins og til dæmis Sparisjóður Suður-Þingeyinga, hafa ekki fengið lánasöfn eða einhverja skiptingu á milli gömlu og nýju bankanna líkt og stóru bankarnir þrír, þeir fengu lánasöfn á 50% afslætti þegar þau voru flutt úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þessar litlu fjármálastofnanir hafa því einfaldlega staðið hrunið af sér á meðan þær nýju, stóru bankarnir þrír, hafa fengið verulegar afskriftir í kjölfar hrunsins. Með þessu frumvarpi átti enn að auka álögur á sparisjóðakerfið í landinu þrátt fyrir að í orðu kveðnu á Alþingi hafi stjórnmálamenn úr öllum flokkum sagt að styðja ætti við sparisjóðakerfið í landinu.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir fjölbreytni á fjármálamarkaði en ekki fábreytni. Sú framtíðarsýn að í landinu eigi einungis að vera þrjár stórar bankastofnanir er ekki framtíðarsýn að skapi okkar í Framsóknarflokknum. Það er þess vegna fagnaðarefni að við skyldum hafa náð þeim árangri í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins að breyta hugmyndum um sérstakan fjársýsluskatt, sem hefði bitnað sérstaklega á smáum fjármálastofnunum líkt og sparisjóðirnir eru, í rétta átt og lækka hann úr 10,5% í 5,45%. Ég dreg í efa að sparisjóðirnir muni á næstu árum skila hagnaði sem er umfram 1 milljarður kr. þannig að með þessum breytingum er verið að hlífa smáum fjármálafyrirtækjum og það er fagnaðarefni í sjálfu sér. Hins vegar gafst ekki tími til þess í störfum nefndarinnar að fara ítarlegar yfir hvort við gætum með einhverjum öðrum hætti breytt skattumhverfi fjármálafyrirtækjanna. Ég er ekki alls kostar sáttur við þennan skatt því að hann er þó enn 5,45% skattur á öll fjármálafyrirtæki, þ.e. á launagreiðslur þeirra, og það mun hafa áhrif á starfsemi fjármálafyrirtækja í landinu. Þau munu því fækka starfsfólki og það er eðlilegt að draga þá ályktun að með 5,45% skatti verði starfsfólki fækkað um 5,45%. Það eru um 240–250 manns ofan á þær hagræðingarkröfur sem bankarnir gera nú þegar í dag og 70% af þeim starfsmönnum eru konur. Í starfi nefndarinnar hefur komið fram að hlutfallslega gæti þetta orðið mjög erfitt á landsbyggðinni.

Það er því ástæða til að rifja upp stefnumið ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um svokallaða kynjaða hagstjórn. Í henni felst víst, ég hef ekki alveg skilið hvað þetta orð felur í sér í ljósi þeirra frumvarpa sem við ræðum hér og kannski sérstaklega þess sem ég ræði núna, að gera eigi úttekt á þeim frumvörpum sem lögð eru fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og taka sérstakt tillit til þess hvaða áhrif þau hafa á einstakar starfsstéttir og sérstaklega á kynin. Hér er verið að gera atlögu að kvennastétt, leggja álögur á starfsstétt þar sem 70% starfsmanna eru konur. Það er því erfitt að ná einhverjum jafnréttisvinkli á þetta eða sjá þetta í ljósi kynjaðrar hagstjórnar sem ríkisstjórnin talar um á tyllidögum. Það er greinilega ekki alltaf að marka það sem stendur í stjórnarsáttmála eða í stefnum stjórnmálaflokkanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eða Samfylkingarinnar.

Þetta mál er enn eitt dæmið um þann hringlandahátt sem ríkisstjórnin ástundar þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu. Hugmyndum er kastað fram, oft illa ígrunduðum og án alls samráðs. Þegar þetta frumvarp var lagt fram kom í ljós að ekkert samráð var haft við helstu hagsmunaaðila. Það er eins og með svo margar aðrar breytingar á skattumhverfi atvinnulífsins sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram að staðreynd málsins er sú að við höfum ekki náð að fjölga störfum í samfélaginu heldur hefur þeim fækkað á undanförnum árum. 6 þúsund manns hafa flutt úr landi og 11–12 þúsund manns eru án atvinnu. Margir hafa farið til frekara náms sem er jákvætt í sjálfu sér, en það er ljóst að við erum ekki að ná þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg er.

Virðulegi forseti. Í þessu máli er alveg ljóst að við erum á rangri braut þegar kemur að því hvernig við högum störfum okkar á Alþingi og kannski sérstaklega í ráðuneytunum, og ákvarðanatöku um atvinnusköpun í landinu. Við náðum þeim áfangasigri að helminga þennan skatt þannig að trúlega verður færra fólki, færri konum á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu, sagt upp en ef hið upphaflega frumvarp ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefði náð fram að ganga. Það er áfangasigur út af fyrir sig. En við höfum hins vegar ekki náð að breyta þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur haldið sig við undanfarin tvö og hálft ár sem felst í að stórauka álögur á heimilin og atvinnulífið og skera stórkostlega niður í málefnum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Og enn skal haldið áfram. Vegið er að undirstöðugreinum velferðarkerfisins. Við höfum horft upp á mjög sársaukafullan niðurskurð til að mynda gagnvart heilbrigðisstofnunum í landinu og þetta hnígur allt í sömu átt. Fólk veltir fyrir sér hvernig standi á þessu. Staðreyndin er einföld. Atvinnustefnan er ómarkviss og hringlandaháttur í skattamálum atvinnulífsins hefur verið með eindæmum. Gerðar hafa verið meira en 140 breytingar á rekstrarumhverfi atvinnulífsins sem hafa leitt það af sér að færri störf hafa orðið til í íslensku samfélagi. Þess vegna horfum við upp á að sjö manns flytja úr landi á degi hverjum. Reyndar finnst hæstv. forsætisráðherra það ekki tiltökumál, gerir í raun og veru lítið úr því að tvær fjölskyldur á degi hverjum flytji til Noregs vegna þess að hér er ekki atvinnu að fá. Hæstv. forsætisráðherra finnst það ekkert tiltökumál. Þegar sagt er að 6 þúsund manns hafi farið af landi brott er þar ekki átt við alla þá hundruð eða jafnvel þúsundir Íslendinga sem fara nú út tímabundið, einkum til Noregs og vinna þar í einn, tvo, þrjá mánuði, koma síðan heim í tiltekinn tíma og fara síðan aftur út án þess að flytja lögheimili sitt. Þetta fólk er ekki á atvinnuleysisbótum þannig að færa má fyrir því sterk og gild rök að við höfum misst yfir 20 þúsund störf á undangengnum þremur árum. Því er ekki að undra að ríkissjóður greiði til Atvinnuleysistryggingasjóðs yfir 20 milljarða kr. á ári hverju sem gætu farið í eitthvað annað eins og að efla heilbrigðiskerfið, efla menntakerfið eða bæta kjör þeirra sem lægstu launin hafa líkt og aldraðra eða öryrkja.

Þessi forgangsröðun og glíman við þá stöðu sem hér er uppi hefur leitt af sér að tekjur ríkissjóðs hafa farið minnkandi. Þetta er að verða spírall þar sem hlutirnir fara hratt niður á við, þ.e. tekjurnar fara hlutfallslega minnkandi, þær gætu verið miklu meiri. Þess vegna þarf að minnka útgjöldin og þá skal skorið niður, skorið niður til samgöngumála, menntamála og heilbrigðismála. Þessi sveltistefna leiðir af sér að við náum ekki að snúa vörn í sókn í efnahags- og atvinnumálum eins og við framsóknarmenn höfum ítrekað lagt til að gert verði í tillögum okkar á Alþingi Íslendinga á undangengnum árum.

Þriðja leiðin er nefnilega til. Þriðja leiðin er að hætta þessum hringlandahætti og gerbreyta ekki rekstrarumhverfi atvinnulífsins, standa ekki að tilviljanakenndum skattbreytingum sem eru lítt eða ekkert ígrundaðar og verða til án samráðs við þá aðila sem hvað best þekkja til málsins, hagsmunaaðilana, heldur ákveður hæstv. fjármálaráðherra að henda tillögunum fram og prófa hvaða áhrif þær hafa og athuga hvaða viðtökur þær fá. Þetta leiðir til þess að orðspor Íslands, meðal annars sem lands þar sem æskilegt er að fjárfesta og hefja atvinnustarfsemi, laskast. Nú er það orðið svo að við erum aðhlátursefni víða um heim vegna þess hvernig við stöndum að því að gera umhverfi atvinnulífsins meira aðlaðandi og hvernig ríkisstjórnin tekur á móti þeim sem vilja þó fjárfesta hér á landi og vilja hefja atvinnustarfsemi. Við getum tekið sem dæmi starfsemi í ferðaþjónustu á norðausturhorni landsins. Það var ekki einu sinni rætt við þann aðila sem vildi fjárfesta fyrir milljarða króna og skapa hundruð nýrra starfa í umhverfisvænni ferðaþjónustu. Hann var ekki virtur viðlits. Ríkisstjórnin berst nú innbyrðis þar sem einn vill ekkert með þessa uppbyggingu hafa en annar vill skoða málin betur og reyna að leiða þau til lykta. Hringlandahátturinn er með ólíkindum þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í landinu og stefnuleysið heldur áfram.

Í rúm tvö ár hafa menn í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum, glímt við að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér í rekstrarumhverfi greinarinnar. Það þýðir að forsvarsmenn sjávarútvegsins hafa haldið að sér höndum við fjárfestingar í þessari mikilvægu atvinnugrein, lítil sem engin fjárfesting hefur átt sér stað. Þar á ég við kaup á húsnæði eða lagfæringu á húsnæði, kaup á tækjum, tólum eða skipum — skipaflotinn er orðinn mjög gamall — en vegna þess að ríkisstjórnin getur ekki ákveðið hvernig umhverfi sjávarútvegsins eigi að vera til framtíðar litið stendur allt í stað. Fjárfestingin er nær engin og þeir sem þjónusta sjávarútveginn hafa því mun færri verkefni en ella.

Sama er hægt að segja um orkuauðlindir þjóðarinnar. Þar eru vannýtt tækifæri en ljóst er að lítill vilji er hjá stjórnvöldum til að hleypa af stað atvinnuskapandi verkefnum þar sem nýttar eru umhverfisvænar náttúruauðlindir þjóðarinnar. Það er einfaldlega mjög takmarkaður vilji til þess. Allt þetta leiðir af sér þá staðreynd að fjárfesting á Íslandi í dag er 13% af landsframleiðslu en meðaltalsfjárfesting síðustu áratugi hefur verið 21%. Það vantar, virðulegi forseti, heil 8% upp á að fjárfesting sé í meðallagi hér á landi, 8% af landsframleiðslu sem þýðir ríflega 1.800 milljarða. Ef fjárfesting væri í meðallagi á næsta ári mundu fjárfestingar í samfélaginu aukast um 140 milljarða kr. Það mundi leiða af sér að ríkissjóður fengi meira í tekjuskatt, fengi miklar tekjur af virðisaukaskatti, sveitarfélögin fengju greitt aukið útsvar, fleiri störf yrðu til samhliða þessum fjárfestingum þannig að tekjur heimilanna mundu hækka, atvinnulausu fólki mundi fækka og þá værum við kannski ekki að greiða, virðulegi forseti, meira en 20 milljarða kr. á ári í atvinnuleysisbætur. Meiri umsvif mundu auka svigrúmið og þá þyrfti kannski ekki að standa í öllum þessum blóðuga niðurskurði sem virðist vera forgangsmál þessarar norrænu velferðarstjórnar. Af því að hæstv. innanríkisráðherra er kominn í salinn held ég að hæstv. ráðherra hefði verið ánægður ef efnahagsstefnan hefði verið þannig að hann hefði úr meiri fjármunum að spila til að mynda við gerð samgönguáætlunar. Ég fletti samgönguáætlun í gær og það er ágætt að sjá að nokkrir þingmenn Norðausturkjördæmis eru í salnum, því það var með ólíkindum að sjá þann litla texta sem er í áætluninni um vegabætur í Norðausturkjördæmi og þá fátækt sem einkennir þær og reyndar á landinu öllu á næstu árum þegar við þurfum að auka umsvifin og standa vörð um íslenskt atvinnulíf.

Þessi sveltistefna og þessi efnahags- og atvinnustefna er þannig að hún er farin að stórskaða samfélagið. (Gripið fram í: Þú þarft að fá þér gleraugu.) Hæstv. ráðherra bendir mér á að ég eigi að fá mér í gleraugu. Ég fór í augnaðgerð fyrir þremur árum þannig að ég þarf blessunarlega ekki á gleraugum að halda. En ég held að það væri ágætt fyrir hæstv. ráðherra að pússa eigin gleraugu og horfa á ástandið sem einkennir íslenskt samfélag í dag. Hæstv. forsætisráðherra sagði að það væri ekkert mál þó að sjö manns færu til Noregs á hverjum degi, tvær fjölskyldur á dag, það væri ekkert tiltökumál. Það var reyndar leiðrétt í fréttum Stöðvar 2 í gær og staðfest að fólksflutningar frá landinu eru í sögulegu hámarki. En það er alveg sama hvaða staðreyndum er hér haldið fram. Ríkisstjórnin er í algerri afneitun gagnvart stöðunni eins og hún er og gagnvart þeirri stefnu sem hún hefur viðhaldið í tvö og hálft ár.

Ég ætla að láta þessari ræðu minni lokið um fjársýsluskattinn og umhverfi atvinnulífsins í dag. Sá hringlandaháttur sem einkennir störf og stefnu ríkisstjórnarinnar er fyrir löngu farinn að hafa stórskaðleg áhrif á íslenskt samfélag. Við þurfum að breyta þessu. Það þarf að breyta um stefnu, breyta um ríkisstjórn. Vonandi mun nýtt ár leiða það af sér að einhverjir aðrir taki við störfum fyrir hönd þjóðarinnar þannig að við förum að sjá alvöruverðmætasköpun í samfélaginu sem mun hafa góð áhrif á hag heimilanna, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og kannski ekki hvað síst fyrir mjög skuldugan íslenskan ríkissjóð.