140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir prýðilega ræðu sem gaf góða innsýn í afleiðingar af fjársýsluskattinum og hann fór vel yfir afleiðingar af skattstefnu ríkisstjórnarinnar í heild sinni. Eins og þingmaðurinn benti á hefur skattkerfinu verið breytt 142 sinnum á þessu kjörtímabili. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin hefur verið við völd í rétt rúmlega 940 daga sem gerir eina skattkerfisbreytingu á viku. En núna, eftir þær skattkerfisbreytingar sem voru til umræðu hér til kl. tvö í nótt í þessu frumvarpi um fjársýsluskatt og finna má einnig í frumvarpi um lífeyrissjóði fara breytingarnar sennilega þó nokkuð yfir 200 á næstu tveimur til þremur dögum. Það gerir þá 1,2–1,3 breytingar í viku að meðaltali yfir kjörtímabilið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að einu vegna þess að hann er frá Siglufirði, því mæta plássi. Þar er mikil bakvinnsla fyrir frjálsu lífeyrissjóðina sem eru í Arion banka og fyrir Arion banka. Þar vinna 40–50 manns. Með þessu frumvarpi er boðað að leggja 5,45% launaskatt á þetta fólk sem þýðir að segja þarf upp fólki (Forseti hringir.) á Siglufirði. Hvað finnst þingmanninum um það?