140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er verulegt áhyggjuefni ef til slíkra uppsagna mun koma vegna þess að í Fjallabyggð gegnir Sparisjóður Siglufjarðar umfangsmiklu hlutverki, bæði við að styðja við félagasamtök og menningarlíf sem hefur aukist og er með miklum blóma í sveitarfélaginu. Ef til uppsagna kæmi á þeim vinnustað sem er einn sá stærsti í sveitarfélaginu væri það mikið áhyggjuefni og við vonum að sjálfsögðu að til þess komi ekki þrátt fyrir þessa ríkisstjórn.

En ég ætla að benda á annað sem ágætt væri að fá viðbrögð hv. þingmanni við. Við ræddum í fyrradag og í gær allar þær breytingar sem ríkið er að gera á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Rætt er um lækkun á frádrætti iðgjalda vegna séreignarlífeyrissparnaðarins úr 4% í 2%. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa bent á að með þessu geri ríkisstjórnin aðför að séreignarlífeyrissparnaði í landinu. Á umræddum vinnustað vinna tugir einstaklinga við að skrá og færa starfsemi séreignarlífeyrissjóða. Það er því verulegt áhyggjuefni ef menn ætla að vega að þessu sparnaðarformi. En það er líka áhyggjuefni ef menn ætla að vega að sparnaði almennt í samfélaginu. Ég spyr hv. þingmann hvað honum finnist um þessa tillögu ríkisstjórnarinnar í skattamálum, annars vegar hvað sparnaðarformið sjálft ræðir, séreignarlífeyrissparnaðinn, og hins vegar um almennan sparnað í samfélaginu.