140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður þurfi svo sem ekki að spyrja sérstaklega um það hvernig vinnustaðir sparisjóðirnir eru, ég held að hv. þingmaður þekki það ágætlega, en fyrst hann spyr … (TÞH: Þetta er fyrir þingtíðindin.) Þetta er fyrir þingtíðindin, segir hv. þingmaður. Sparisjóðirnir gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í mörgum samfélögum vítt og breitt um landið. Þessar fjármálastofnanir hafa skorað hvað hæst í gegnum tíðina ár eftir ár í mælingum á ánægju viðskiptavina með fjármálaþjónustu í landinu. Þar hafa sparisjóðirnir ítrekað skorað hvað hæst og það er ekki af neinni tilviljun. Starfsemi þessara sparisjóða er mjög persónuleg, öðruvísi en hjá stóru bönkunum þremur, auk þess sem sparisjóðirnir hafa í miklu meira mæli lagt fram fjármuni til að efla menningu, listalíf og íþróttafélög á starfssvæðum sínum. Það hafa því margir fundið fyrir því að samdráttur hefur orðið í rekstri sparisjóðanna. Með því stefnumiði ríkisstjórnarinnar að leggja á sérstakan launaskatt er starfsemi sparisjóðanna gerð enn erfiðari en hún er í dag.

Ég minntist á það í ræðu minni að margir af þessum sparisjóðum hafa ekki fengið neina leiðréttingu á eignasafni sínu eins og stóru bankarnir þrír í kjölfar hrunsins. Sparisjóðirnir hafa reynt að draga fram lífið en þá kemur hin norræna velferðarstjórn og leggur sérstakan launaskatt á starfsemi þeirra. (TÞH: Hina köldu skattahönd.) Hin kalda skattahönd, segir hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson. Ég vil minna þingheim á að þessi sama ríkisstjórn hefur talað fyrir því að efla sparisjóðakerfið. En við erum því miður að tala um frumvarp sem hefur þveröfug áhrif.