140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þessar tillögur eru áframhald á þeim vítahring sem ríkissjóður er í og hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki komast út úr. Þetta eru skattahækkanirnar sem komu í kjölfarið á niðurskurðinum í fjárlagafrumvarpinu. Það er einfaldlega kominn tími til að menn átti sig á að ríkissjóður og ríkið kemst ekki út úr þessum vítahring með sífelldum skattahækkunum og niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarmálum.

Það þarf að nálgast þessi mál öðruvísi en gert er. Það er enn verið að hækka skatta á almenning í landinu. Gjaldskrár- og skattahækkanir í þessu frumvarpi einar saman munu meðal annars leiða til þess í gegnum verðtryggingarkerfið að skuldir heimilanna munu hækka um nærri 5 milljarða kr. Ástæðurnar fyrir gjaldskrárhækkununum eru að þær hafa ekki fylgt verðlagshækkunum undanfarið. Það er dapurlegt að menn skuli ekki löngu búnir að sjá þann vítahring sem þeir eru að halda áfram með ár eftir ár.