140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Sameiginlegur sjóður landsmanna er í erfiðri stöðu. Þrátt fyrir mikla vinnu stjórnarliða horfum við samt fram á 20 milljarða halla á ríkissjóði, en hann er þó kominn úr 216 milljörðum. Mikilvægt er að ná niður hallanum og hefur t.d. tekist að minnka vaxtakostnað ríkisins um 17 milljarða kr. Auðlegðarskattur sem hér hefur verið fjallað um gefur 7 milljarða kr. á næsta ári og gefur okkur að skera þarf minna niður en ella.

Flótti fólks er heldur orðum aukinn, enda hefur það komið fram í nefnd að á undanförnum tveimur árum hafa einungis 60 manns af þeim 4.500 sem greiða auðlegðarskatt flutt af landi brott. (Gripið fram í.) Á undanförnum tveimur árum, hv. þingmenn, hafa 60 manns af 4.500 (Gripið fram í.) flutt af landi brott og það eru óverulegar tekjur sem ríkissjóður verður af. Ég ítreka 7 milljarðar kr. í auðlegðarskatt á næsta ári.

Þá vil ég sömuleiðis ítreka að tímasetning þessa skatts hefur breyst, en hann hangir nú saman við gjaldeyrishöft og gildir þess vegna út árið 2013.