140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:50]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þess efnis að við þá breytingu sem nú verður gerð tímabundið í þrjú ár, að draga skuli að hámarki 2% af iðgjaldsstofni þeirra sem greiða í séreignarlífeyrissjóði, verði fyrirkomulagið með þeim hætti að ekki þurfi að breyta þúsundum samninga með tilheyrandi vinnu, fyrirhöfn og vandræðum fyrir þá sem þar eiga hlut að máli, heldur verði um sjálfvirka breytingu að ræða. Þessi aðgerð er líka afar mikilvæg til að tryggja að eingöngu verði um tímabundnar afleiðingar að ræða í ljósi þess að við þurfum á því að halda að byggja upp tekjustofna ríkisins. Að loknu þessu tímabili, eftir árið 2014, mun fyrirkomulagið aftur hverfa til fyrra horfs. Það er afar mikilvægt til að tryggja að þetta sparnaðarform haldist til framtíðar.