140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er alltaf ánægjulegt að ná árangri. Nú höfum við náð þeim árangri að ekkert verður af þeirri hugmynd sem hæstv. fjármálaráðherra varpaði fram, að setja sérstakan kolefnisskatt á iðnað í landinu, sem hefði valdið því að mörg hundruð störf töpuðust, járnblendið á Grundartanga hefði til að mynda þurft að hætta starfsemi sinni og fyrirhugaðar kísilverksmiðjur á Bakka við Húsavík eða á Suðurnesjum — þau verkefni hefðu farið í algjört uppnám. Nú höfum við náð því fram eftir mjög markvissan málflutning, bæði á þingi og í nefndum þingsins, að ekkert verður af þeirri skattlagningu sem hæstv. fjármálaráðherra vildi að lögð yrði á þessa atvinnugrein þannig að við höfum komið í veg fyrir aukið atvinnuleysi hér á landi.

Það er mikið gleðiefni að geta sagt já við sumum breytingartillögum við þetta frumvarp. Það er með mikilli gleði sem við framsóknarmenn erum á græna takkanum í þessu máli.