140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um fjársýsluskatt. Þessi nýi skattur hefur verið þó nokkuð mikið til umræðu og er sagður eiga fyrirmynd í Danmörku, jafnvel Frakklandi, og hefur verið bent á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi hvatt til upptöku skatts af þessu tagi.

Skatturinn eins og hann hljóðar í frumvarpinu átti að skila ríkissjóði um 4,5 milljörðum. Hann átti að byggjast þannig upp að 10,5% mundu leggjast á laun starfsmanna í fjármálastarfsemi og var sagður vera til kominn vegna þess að ekki væri innheimtur virðisaukaskattur á fjármálastarfsemi.

Ef litið er til Danmerkur og fyrirmyndin skoðuð ber þess að geta að fyrir nokkuð mörgum árum var innleiddur nýr skattur þar á alla starfsemi sem ekki ber virðisaukaskatt. Var sá skattur lagður á laun. Um leið og skatturinn var lagður á var launaskattur svipaður og tíðkast hérna afnuminn. Brúttó hefur þessi skattur á fjármálastarfsemi í Danmörku verið í kringum 9% ofan á laun.

Ef við skoðum fyrirkomulagið á Íslandi er launaskattur hér 8,65%, þ.e. tryggingagjald vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs. Með því að bæta 10,5% við værum við komin upp í skatt sem næmi 19,15%. Það er því ljóst að strax og maður ber saman skattprósenturnar annars vegar á Íslandi og hins vegar í Danmörku miðað við það sem er lagt til í frumvarpinu kemur fram mikið ósamræmi. Skatturinn er helmingi lægri í Danmörku. Hvað þýðir þetta? Þetta gerir það einfaldlega að verkum að samkeppnisstaða íslenskrar fjármálastarfsemi miðað við þá dönsku skekkist og mun ódýrara verður að reka fjármálafyrirtæki í Danmörku. Við vitum að fjármálastarfsemi er mannaflsfrek. Hér á landi vinna nú í kringum 4.500 manns við fjármálastarfsemi.

Þá spyr maður sig: Er kannski verið að koma á jafnræði milli greina eins og í Danmörku og Frakklandi, þ.e. greina sem borga virðisaukaskatt og greina sem ekki borga virðisaukaskatt? Svo er ekki vegna þess að á Íslandi er eingöngu verið að leggja þetta á starfsemi í fjármálageiranum. Þannig að öfugt við Danmörku þar sem allir geirar voru undir er það bara fjármálastarfsemi hér.

Í Danmörku er skatturinn eingöngu lagður á þá starfsemi fjármálafyrirtækis sem er undanþegin virðisaukaskatti. Hér á landi á að leggja þetta á blandaða starfsemi, t.d. ráðgjöf og annað slíkt. Það eru heldur engin stærðartakmörk á þeim fjármálafyrirtækjum sem á að leggja skattinn á. Þetta mundi t.d. skekkja mjög samkeppnisstöðu ráðgjafa í fjármálageiranum, en eins og við vitum flest ber ráðgjöf í fjármálageiranum virðisaukaskatt, því að um tvöfalda skattlagningu væri að ræða eða meira.

Ef þetta verður að lögum verða um það bil 18 milljarðar kr. óbeinir, óafkomutengdir skattar lagðir á fjármálafyrirtæki. Hvað skyldu fjármálafyrirtækin gera til að reyna að ná til baka þessum kostnaði sem er ótengdur afkomu og því hvernig gengur í raun og veru? Jú, fjármálafyrirtæki yrðu að velta þessum kostnaði einhvern veginn út í vaxtamuninn. Talið var að þetta gæti leitt til allt að 1/3 hækkunar á vaxtamun, að vaxtamunurinn færi úr 3% í 4%. Sumir hafa verið hógværir í mati og talað um ¾ úr prósenti, en það er sama hver hefur metið þessi áhrif, þau eru öll í sömu áttina, vextir munu hækka á Íslandi. Ef matið er rétt, að þetta séu ¾ úr prósenti til 1%, verður vaxtahækkun vegna þessara óbeinu gjalda svo mikil.

Það sem við þurfum síst á að halda núna eru hærri vextir. Við þurfum lægri vexti vegna þess að við þurfum meiri fjárfestingu. Við þurfum lægri vexti vegna þess að heimilin í landinu búa við mjög skertar ráðstöfunartekjur eftir þau áföll sem dunið hafa yfir undanfarin ár og eftir meðferð ríkisstjórnarinnar á heimilunum eins og með skattlagningu, með því að hefta með öllum ráðum atvinnustarfsemi og uppbyggingu o.s.frv. Það sem við þurfum síst á að halda er að auka vaxtabyrðina enn meira.

Í upphaflega frumvarpinu var þessi skattur, fjársýsluskattur, lagður á lífeyrissjóðina líka og laun þeirra sem starfa í lífeyrissjóðunum. Áhrifin af því yrðu bein skerðing á réttindum sjóðfélaga. Skatturinn, þótt göfugur væri að mati þeirra sem hann settu fram, hefði verið bein skattlagning á réttindi lífeyrisþega eða eigendur réttinda í lífeyrissjóðunum. Sem betur fer hvarf ríkisstjórnin frá villu síns vegar, eða réttara sagt blandaði efnahags- og skattanefnd sér í málið og leiðrétti þetta, þannig að lífeyrissjóðir verða undanþegnir fjársýsluskattinum.

Það er ljóst að fjársýsluskatturinn, eins og hann var hugsaður í frumvarpinu, hefði verið gríðarlega erfiður fyrir minni fjármálafyrirtæki og fyrir sparisjóðakerfið. Skatturinn hefði leitt til þess að kostnaður við rekstur sparisjóða hefði hækkað mikið og rekstrargrunninum hefði verið kippt undan sparisjóðunum. Jafnframt hefði skatturinn leitt til þess að viðskiptabankar hefðu leitað allra leiða til hagræðingar til að ná kostnaðinum til baka. Þeir hleypa væntanlega ekki öllum kostnaði út í vaxtamuninn því að sem betur fer ríkir einhver samkeppni hér á fjármálamarkaði þó svo að hún sé ekki mikil um þessar stundir. En augljósustu fórnarlömbin hefðu verið útibú og sérstaklega útibúin út um hinar dreifðu byggðir.

Niðurstaðan af skattinum eins og hann var upphaflega hugsaður hefði að öllum líkindum orðið sú að minni fjármálafyrirtæki, sparisjóðir og útibú viðskiptabankanna, hefðu misst rekstrargrundvöllinn. Það hefði leitt til þess að fjöldi starfa hefði tapast. Hverjir eru það sem vinna í sparisjóðunum að stærstum hluta? Hverjir eru það sem vinna í útibúunum út um hinar dreifðu byggðir? Jú, það eru konur. Hin kynjaða hagstjórn ríkisstjórnarinnar hefði því leitt til þess að konur hefðu umvörpum misst vinnuna.

Í efnahags- og skattanefnd varð mjög snemma ljóst að ekki gekk að setja skattinn á eins og fjármálaráðherra hafði lagt til. Efnahags- og skattanefnd er þeim kostum búin að nefndarmenn velta fyrir sér því sem kemur frá fjármálaráðherra og reyna að lappa upp á það eins mikið og hægt er. Þar voru gerðar veigamiklar breytingar á málinu.

Í fyrsta lagi var launaskatturinn á fjármálafyrirtæki lækkaður niður í 5,45%. Það er vel. Skatturinn var lækkaður um næstum því helming.

Í öðru lagi var sagt að til að bæta okkur upp þetta tekjutap yrði lagður skattur á svokallaðan umframhagnað í fjármálafyrirtækjum. Umframhagnaður í fjármálafyrirtækjum var skilgreindur sem 1 milljarður. Þau fjármálafyrirtæki þar sem hagnaður fer yfir 1 milljarð á næsta ári munu borga 6% umframskatt af þeim hagnaði sem er umfram 1 milljarð.

Síðan hefur heyrst og m.a. verið talað um það í nefnd að til að bæta fjármálafyrirtækjum upp þennan skatt verði komið til móts við fyrirtækin með því að lækka hjá þeim tryggingaframlögin, þ.e. framlögin í Tryggingarsjóð innstæðueigenda, um 1,2 milljarða minnir mig frekar en 1,4. Þetta er ráðstöfun sem kemur ekki niður á ríkissjóði vegna þess að tryggingarinnstæðusjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem stendur utan ríkissjóðs og þar af leiðandi kemur þetta ekki fram í ríkisreikningi. Aftur á móti leiðir þetta til þess að fjármálafyrirtækin verða ekki jafn vel tryggð og þau væru ef gjaldið rynni allt í sjóðinn. En hvað um það. Þarna er raunverulega verið að auka á vantryggingu í fjármálakerfinu, þ.e. innstæðutryggingarkerfisins, til að ríkissjóður geti hrifsað til sín meiri skatta.

Skatturinn á umframhagnaðinn, sem á að verða 2,2 milljarðar að mig minnir, reiknast á áætlaðan hagnað sem verður á næsta ári og fyrirtækin eiga að borga hann út á næsta ári. Hvaða áhrif hefur það? Það hefur þau áhrif að hagnaðarskattur eins og þessi, sem er jafnan borgaður árið eftir að hagnaðurinn verður og fjármálafyrirtækin hefðu með réttu átt að greiða út árið 2013 í stað 2012, mun í ríkisbókhaldi virka á greiðslugrunni eins og skattinnheimta á árinu en á rekstrargrunni, sem er sú aðferð sem við notum til að gera upp hið opinbera, mun hann mynda skuld hjá ríkissjóði við fjármálafyrirtækin upp á 2,2 milljarða og hallinn á næsta ári verður þá 2,2 milljörðum meiri en ella.

Síðan munu þeir sem taka við stjórnartaumunum árið 2013, og við skulum vona að Sjálfstæðisflokkurinn verði þar í fararbroddi, missa tekjur sem nemur 2,2 milljörðum vegna þessa úrræðis. Þetta er ekki einsdæmi hjá núverandi ríkisstjórn. Hún samdi við stóriðjufyrirtækin um að borga fyrir fram árið 2010, 2011 og 2012 1.200 milljónir á ári sem gerir samtals 3,6 milljarða. Það virkar sem auknar tekjur fyrir ríkissjóð í áðurgreindum greiðslugrunni en á rekstrargrunni myndast skuld. Þessir 3,6 milljarðar koma til frádráttar sköttum á árunum þar á eftir þannig að fyrir þá ríkisstjórn sem tekur við detta út úr ríkissjóði 3,6 milljarðar vegna þessa. Við höfum 2,2 milljarða árið 2013 vegna fjársýsluskattsins og 3,6 milljarða vegna fyrir fram greidda tekjuskattsins af stóriðjunni. Til að toppa það er núna verið að gera samkomulag milli lífeyrissjóðanna og fjármálaráðuneytisins um að almennu lífeyrissjóðunum verði bætt upp sú skattlagning sem þeir verða fyrir vegna sérstöku vaxtabótanna sem verið er að leggja á núna í sérstöku frumvarpi. Hvað er það mikið? Á næstu tveimur árum eru það 1.200 milljónir hvort ár, þ.e. 2,4 milljarðar. Þannig að við getum bætt því við þá tölu sem ég nefndi áðan.

Með einfaldri samlagningu sem ég skal bara gera hér í ræðustól kemur í ljós að 8,2 milljarðar af framtíðartekjum hafa verið færðir inn í ríkissjóð núna sem mun þýða að sú ríkisstjórn sem tekur við mun þurfa að glíma við að afla þeirra tekna vegna þess að núverandi ríkisstjórn er búin að taka þá skatta fyrir fram til að nota núna — til að stoppa upp í halla, segir hæstv. fjármálaráðherra og hreykir sér af því að búið sé að snúa við stöðu ríkissjóðs. Það má vel vera að staðan líti betur út á blaði, sé þokkalegri, en skatttekjur framtíðar hafa verið teknar og færðar til dagsins í dag, búið er að taka þær frá ríkissjóði næstu árin.

Þau stjórnvöld sem verða við völd hér eftir næstu kosningar munu þurfa að glíma við að stoppa upp í þetta gat, 8,2 milljarða. Ofan á það bætist að þeir skattar sem lagðir hafa verið á tímabundið, eins og auðlegðarskatturinn sem er 7 milljarðar og aðrir skattar sem nema ef til vill 6–7 milljörðum í viðbót, gera það að verkum að allt að 25 milljarða gat mun myndast í framtíðinni vegna ráðstafana núverandi ríkisstjórnar. Það verður gat að stoppa í.

Eins og ég sagði áðan mun Sjálfstæðisflokkurinn að öllum líkindum taka við eftir næstu kosningar og sjálfstæðismenn munu glaðir takast á við það verkefni að leiðrétta þetta fals í ríkisbókhaldi Íslands sem má nú kenna við grískt (Forseti hringir.) bókhald.