140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:43]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um fjársýsluskatt. Ég ætla ekki að endurtaka hina ágætu yfirferð hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar í framsöguræðu hans um nefndarálit meiri hluta nefndarinnar en ég vil þó vekja sérstaka athygli á þeirri breytingu sem nefndin gerir, að fara með skatthlutfall fjársýsluskattsins sem frumvarpið byggir á úr 10,5% í 5,45%, og ná þeim tekjum til baka sem ríkissjóður verður af við þá breytingu með sérstökum 6% skatti á hagnað fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð kr. Ég tel að þetta sé afar mikilvæg breyting. Hún er gerð til að koma til móts við þau sjónarmið sem komu frá fjármálafyrirtækjunum, ekki síst þeim sem hafa minna umleikis, að þarna væri verið að fara út í aðgerð sem gæti haft neikvæð áhrif fyrir atvinnustig í bönkum og fjármálafyrirtækjum, sérstaklega minni fjármálafyrirtækjum vítt og breitt um landið.

Þetta eru sjónarmið sem við hljótum að taka alvarlega í því efnahagsástandi sem hér ríkir eftir fjármálahrunið þegar mjög miklu skiptir að reyna að standa vörð um atvinnustigið í landinu.

Ég vil segja að fyrir minn hatt tel ég að við eigum að skoða sérstaklega það sem sumir hafa kallað ofurhagnað hjá fjármálafyrirtækjum og stíga jafnvel stærri skref þar á komandi árum. Það eru ákveðnar takmarkanir á að geta gert það í þessum umgangi þar sem fjárlög hafa þegar verið samþykkt. Við höfum séð verulegar hagnaðartölur í bönkunum á undanförnum árum. Niðurstöðutalan árið 2009 var 58 milljarða hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi, 84 milljarðar 2010 og síðan 44 milljarðar á fyrri hluta þessa árs.

Ég vil síðan vekja athygli á því að ég tel að meginforsenda þessa frumvarps, að skattleggja sérstaklega fjármálafyrirtæki í því ljósi að þau eru undanþegin virðisaukaskatti, gefi okkur tilefni til að fara vel í gegnum fyrirkomulag virðisaukaskattsins í landinu og skoða sérstaklega þær greinar sem núna eru undanþegnar þeim skatti. Ég mundi vilja sjá tilteknar greinar sem núna njóta undanþágu koma inn í virðisaukaskattskerfið, en það verði gert með þeim formerkjum að virðisaukaskattshlutfallið lækki samsvarandi.