140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn meiri skatta, skatta sem ég veit ekki númer hvað eru í röðinni, hvort það er 186 eða 197 eða hvað það er. (Gripið fram í: Það er ekki búið að samþykkja þetta.) Það er reyndar rétt hjá hv. þingmanni að ekki er búið að samþykkja þetta. Einhvers staðar hlýtur þetta að fá númer samt í þeirri halarófu sem búið er að samþykkja hér af skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.

Við þingmenn erum stundum spurðir hvort við höfum yfirsýn yfir allar þær skattbreytingar sem er verið að gera og ég verð að viðurkenna að það er mjög erfitt að hafa kontról á því öllu saman þegar skattasérfræðingarnir úti í bæ, eins og sagt er, spyrja mann þessarar spurningar.

Nú ræðum við fjársýsluskatt. Fjársýsluskattur er nýr skattur sem fjármálaráðherra vill leggja á til að auka tekjur ríkissjóðs. Gert hefur verið ráð fyrir að um 4,5 milljarðar komi í ríkiskassann. Þessi skattur er algjörlega ótengdur afkomu fjármálafyrirtækjanna ef miðað er við þær hugmyndir sem uppi hafa verið, hann leggst í raun á heildarlaunagreiðslur. Það má alltaf ræða hvaða aðferðir eru bestar til setja á skatta þegar menn vilja fara í þá vegferð. Samtök fjármálafyrirtækja komu á fund hjá þingflokki framsóknarmanna og fóru yfir sína hlið á þessu máli. Auðvitað verða menn að túlka svolítið það sem kemur fram á slíkum fundum og ég gat ekki túlkað orð þeirra á annan hátt en að þeir skildu að þeir yrðu að taka á sig einhverja skatta en þetta væri ekki rétta leiðin.

Horft hefur verið til þess hvort ekki sé rétt að skattleggja frekar þann hagnað sem er hjá fjármálastofnunum í stað þess að leggja skatt á launagreiðslur. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að fjármálastofnanir, hvort sem það eru bankar, tryggingafélög, sparisjóðir eða einhverjir aðrir sjóðir, eru mismunandi að burðum, með mismunandi þjónustustig, umhverfi og annað slíkt.

Það verður að segjast strax í upphafi, frú forseti, að þetta mál er mun betra en þegar það kom fyrst fram. Fram hefur komið að ætlunin sé að hlífa litlu stofnununum, þ.e. sparisjóðunum, að einhverju leyti í það minnsta. Ef sú verður raunin fögnum við því að sjálfsögðu því það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa val í fjármálageiranum.

Þessu tengdu vil ég lýsa því að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þróun sparisjóðakerfisins verður. Nú höfum við þingmenn kallað eftir því frá kosningum að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin upplýsi hvernig þau hyggjast standa við stóru orðin sem voru látin falla, að menn stæðu vörð um sparisjóðakerfið, og í það minnsta ef ekki er hægt að standa vörð um það í þeirri mynd sem það var að endurreisa það þá með einhverjum hætti. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess að sjá ekki hvernig á að gera það.

Nú hefur t.d. einn af stóru viðskiptabönkunum, Arion banki, sent stofnfjáreigendum í AFL-sparisjóði kauptilboð og ýtir fast á að að því verði gengið og að þeir sem eiga stofnbréf í sparisjóðnum þarna fyrir norðan láti bréf sín af hendi. Sá er hér stendur á líklega 10.000 kr. í þessum sparisjóði og mun ekki láta það af hendi, ekki selja það til Arion banka.

Ég held hins vegar að raunin verði sú að viðskiptabankarnir fari hringinn í kringum landið og leysi til sín sparisjóðina. Þá hlýtur að skapast grundvöllur fyrir því að einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög taki sig saman og stofni eða endurreisi sparisjóði með einhverjum hætti og verði þar af leiðandi í samkeppni við viðskiptabankana. Þetta segi ég ekki af því að viðskiptabankarnir séu slæmir heldur vegna þess að það er mikilvægt að hafa valkosti, hafa samkeppni. Víða úti á landi hafa sparisjóðirnir skipt mun meira máli en svo að þeir séu eingöngu lánastofnun eða bankastofnun. Þeir hafa spilað mjög mikilvægt og stórt hlutverk í samfélögum fyrir innviði viðskiptasvæðis síns, látið töluvert fé af hendi rakna til góðgerðarmála, til íþrótta- og æskulýðsstarfs, menningar og lista. Það yrði því ekki bara slæmt fyrir fjölda starfa eða efnahag samfélaganna að þessar stofnanir legðust af heldur líka fyrir alla samfélagsgerðina.

Það er mjög mikilvægt að við fáum sem allra fyrst vissu um það hvernig fjármálakerfið og þá sparisjóðirnir verða starfræktir í framtíðinni. Svo er hitt, ef við færum okkur í þéttbýli höfuðborgarsvæðisins og á suðvesturhornið þá vilja vitanlega mjög margir þar eiga viðskipti við sparisjóðina út frá þeirri grundvallarhugsun sem í þeim felst.

Sú hugsjón sem sparisjóðakerfið byggir á er að mínu viti mjög göfug. Ég held að það hafi verið rangt að breyta þessum stofnunum í hefðbundin fjármálafyrirtæki, enda kom það á daginn. Ég vil þar af leiðandi ítreka það sem ég sagði áðan að leiðir til að viðhalda sparisjóðakerfinu verði að koma fram. Mér þykir stjórnvöld hafa verið allt of værukær í því að koma fram með tillögur eða leggja áherslu á hvernig það yrði gert. Mér sýnist á öllu miðað við að stóru viðskiptabankarnir eru farnir að seilast í stofnfé sparisjóðanna að ekki hafi verið rétt staðið að samningum við þá þegar þeir voru stofnaðir og uppgjörið var gert. Ekki nóg með að ekki var gætt að hagsmunum heimilanna sem skulduðu þessum fyrirtækjum, þ.e. sá afsláttur sem varð til þegar eignasöfnin voru flutt á milli rataði ekki til fólksins, til heimilanna, heldur finnst mér margt benda til þess að ekki hafi verið hugað að litlu einingunum, sparisjóðunum, þegar bankakerfið var endurreist. Því horfum við upp á viðskiptabankana reyna að ná þessum stofnunum til sín.

Sparisjóðirnir eru eins og ég nefndi gríðarlega mikilvægir í allri samfélagsgerðinni en hugmyndafræðina sem þeir standa fyrir vil ég einnig leggja áherslu á, frú forseti.

Í ágætu nefndaráliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar er einmitt minnst á sparisjóðina þar sem fyrirhugaður skattur mun lenda mjög harkalega á þeim. Því er ánægjulegt að heyra að það eigi að leita leiða til að hlífa þeim. Það er fagnaðarefni.

Hér er einnig minnst á Bankasýsluna sem fræg er orðin eins og allir vita. Bankasýslan hefur að vísu lítið verið í fréttum undanfarið. Hún er að sjálfsögðu hluti af fjármálakerfinu þar sem hún fer með hlut ríkisins í fjármálastofnunum. Yfirmaður Bankasýslunnar er hæstv. fjármálaráðherra. Það verður að teljast mjög undarlegt að í allri þeirri orrahríð sem varð nú fyrir skömmu út af ráðningu framkvæmdastjóra þeirrar stofnunar að hæstv. fjármálaráðherra þyrfti aldrei að svara fyrir það mál þótt hann bæri ábyrgð á því sem yfirmaður þeirrar stofnunar og héldi utan um þau bréf sem stofnunin á að sinna.

Í nefndaráliti hv. þingmanns eru leiddar líkur að því að sá kostnaðarauki sem verður af þessari skattlagningu á fjármálafyrirtæki leiði til þess að þjónustugjöld á viðskiptavini muni hækka, vextir hækki og þess háttar. Einnig er á það bent að líklegt sé að stærstur hluti þeirra sem þetta mun snerta, þ.e. ef gripið verður til fækkunar starfsfólks í fjármálageiranum vegna þessa skatts, verði konur vegna þess hvernig samsetning starfshópsins í þessum geira er.

Þetta stangast enn og aftur á við öll þau fögru fyrirheit og allar yfirlýsingarnar sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa haldið á lofti í þingsölum og annars staðar um að vernda eigi réttindi hinna og þessara, þar á meðal að standa vörð um réttindi kvenna. Farið var af stað með slagorðið kynjuð hagstjórn og gert mikið úr því. Síðan sjáum við í raun hvernig framkvæmdin hefur verið á þeim hugmyndum; eins þann blóðuga niðurskurð sem hefur verið ráðist í á heilbrigðisstofnunum þar sem konur hafa í miklum meiri hluta misst vinnuna.

Stefnan er fáránleg og mikill blekkingaleikur í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar að telja fólki trú um að hún gæti hagsmuna þeirra sem minna mega sín, öryrkja og aldraðra, og kvenna en vegi þvert á móti að þessum hópum.

Síðan er bent á í nefndaráliti hv. þingmanns að fyrirmyndin sé sögð vera sótt til Danmerkur. Eitthvað hefur það misskilist því að frumvarpið virðist vera í grundvallaratriðum ólíkt hinni dönsku fyrirmynd, m.a. höfum við tryggingagjald á Íslandi sem er lagt á fyrirtæki hér en ekki í Danmörku.

Í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar er sömuleiðis farið gagnrýnum augum yfir frumvarpið. Þar eru vinnubrögðin við gerð fjárlaga og skattbreytinga í fyrsta lagi gagnrýnd, sem við þingmenn þekkjum vel og höfum mikið gagnrýnt, og það að ekki hefur nægilega verið metið hver áhrifin kunna að verða á fyrirtækin. Það er einfalt að horfa á efnahagsreikninga eða ársreikninga þessara fyrirtækja og segja að þau græði svo mikið að þau geti alveg tekið þetta á sig. Áhrifin geta hins vegar orðið þau að fyrirtækjunum, sérstaklega viðskiptabönkunum af því að kröfuhafar eiga þá að stærstu leyti og gera kröfu um að þeir fái það fé til sín sem verður afgangs, verði skipað svo fyrir að hagræða til að kröfuhafar missi ekki spón úr aski sínum og þar af leiðandi verði starfsfólki fækkað, dregið úr þjónustu o.s.frv. Þessi áhrif hafa ekki verið metin. Það er ámælisvert að setja slíkt fram án þess að gera sér nokkra grein fyrir afleiðingunum.

Það er ekkert nýtt að núverandi ríkisstjórn gangi fram með fyrrgreindum hætti, frú forseti. Við sjáum það t.d. af endurreisn bankanna og Icesave-málinu svokallaða sem er enn og aftur komið til okkar. Fjármálakerfið er nátengt því ólukkans máli og hvernig á því var haldið. Það er sérstakt að verða svo var við það hér, frú forseti, að þeir sem voru þar fremstir í flokki reyna að breyta sögunni þegar þeir koma í ræðustól og tala um að alltaf hafi verið gert ráð fyrir að þetta yrði svona og svona þegar hér var borinn á borð stórvarasamur, beinlínis þjóðhættulegur samningur sem var sem betur fer hafnað. Það þarf ekki að spyrja að því hvað hefði þurft að hækka skatta mikið á fjármálafyrirtæki ef þau hefðu átt að standa undir þeim samningi.

Það er mjög mikilvægt úr því að ég er farinn að tala um Icesave-málið, frú forseti, að við tryggjum það á Alþingi, sendum þau skilaboð til framkvæmdarvaldsins, að við líðum ekki neitt hálfkák meir. Við munum standa saman að því að halda málinu í þeim farvegi sem það hefur verið undanfarið. Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur haldið mjög vel á því máli eftir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu þegar málið fluttist til hans. Ég tel að mikill meiri hluti sé í þinginu fyrir því að svo verði áfram. Það kann hins vegar að vera að einhver lögformlegur ferill segi að málið eigi að vera undir hatti utanríkisráðuneytisins. Gott og vel, en það er mikilvægt að hin eiginlega vinna fari fram á þeim stað þar sem hún hefur verið unnin hingað til þótt fleiri kunni ugglaust að vera kallaðir til. Stjórnarandstaðan þarf að koma að því máli ásamt því að fá að tilnefna til þess fulltrúa þannig að áfram ríki sátt og traust um ferlið allt.

Það er mjög óheppilegt ef einhver hætta er á því að þetta mál blandist saman við önnur utanríkismál eða aðrar deilur við erlend ríki, hvort sem það eru ríkin sem koma að þessu Icesave-bixi öllu saman eða önnur ríki Evrópusambandsins. Við þurfum að varast að blanda Icesave-málinu saman við t.d. deilur um aðild að Evrópusambandinu eða að þau mál tvinnist saman. Þá á ég við hagsmuni sem kunna að vera af því að leysa eða leysa ekki Icesave-málið, en einnig hagsmuni sem kunna að vera af öðrum utanríkisdeilum. Ég legg áherslu á það í þessu sambandi því að málin tengjast að sjálfsögðu.

Í áliti 1. minni hluta er líka minnst á konurnar, sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi í nefndaráliti sínu. Síðan er hér fjallað um erlenda og innlenda aðila, hverjum sé hyglað með þessu og hverjum ekki. Minnst er á sparisjóðina sem við höfum flest miklar áhyggjur af. Þá er einnig bent á að skattlagning kunni að skarast á við þær hugmyndir sem uppi eru varðandi alþjóðafjármálageirann. Það er nokkuð sem hlýtur að vera til viðmiðunar því að það er varasamt að vera með reglur sem setja Ísland mögulega út af borðinu í einhvers konar samanburði, mögulega samkeppni, við erlendar fjármálastofnanir. Hvað sem okkur finnst um fjármálastofnanir á Íslandi og hvernig þeim tókst til þá á vitanlega það sama við um flestar fjármálastofnanir í flestöllum öðrum löndum.

Svo virðist vera sem einhver lönd hafi nánast sloppið við hið svokallaða efnahagshrun, má þar nefna Kanada sem hefur staðið mjög vel fram að þessu. Við vonum að sjálfsögðu að vinir okkar þar standi þetta allt af sér. Kanadamenn hafa sýnt mikla fyrirhyggju í sínum málum, verið með stranga löggjöf um fjármálakerfið og haldið vel á spöðunum. Við ættum að læra af þeim og taka mögulega upp eitthvert samstarf við Kanada í fleiru en nú er, enda eiga þjóðirnar margra sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að norðrinu, eins og sagt er, og líkt efnahagslíf að mörgu leyti.

Í lokaorðum nefndarálits hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar er farið yfir gagnrýni á ríkisstjórnina og minnst á að þær breytingar sem hér er lagt upp með séu nauðalíkar fyrri breytingum sem ríkisstjórnin hefur ungað út og komið með í þingið og hafa því miður flestar — ég ætla ekki að segja allar, það er einum of — verið samfélaginu til óþurftar.

Það er mjög mikilvægt að leggja til hliðar áformaðar skattahækkanir og niðurskurð. Skattbreytingarnar nálgast, eins og einhver benti á í dag, 200 þegar búið er að samþykkja allt sem hér er á ferðinni. Það hefur algjörlega mistekist af hálfu stjórnvalda að búa til þannig umhverfi fyrir fyrirtæki, hvort sem þau eru fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki á öðrum vettvangi sem vilja fjárfesta í nýsköpun eða öðru, að trúnaður og traust ríki og er það t.d. vegna óvissu um skattamál — þetta er nýjasta dæmi um það — og óvissu um stefnu stjórnvalda varðandi fjárfestingar, varðandi fyrirtæki, óvissu um það hvort þeir sem koma hingað og fjárfesta, útlendir aðilar eða innlendir, verði beittir eignaupptöku séu stjórnvöld ósátt við viðkomandi o.s.frv.

Þetta er ekki staða sem við getum nýtt til að byggja samfélag okkar upp. Skattar á fjármálafyrirtæki sem leggjast mjög þungt á konur og eina starfsstétt væntanlega leiða ekki til neins góðs. Málið er skárra en það var í upphafi en ekki þannig að hægt sé að una við það eða samþykkja það eins og það er.