140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[16:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við enn eina skattahækkunarhugmynd ríkisstjórnarinnar. Ég ekki kominn með nýjustu tölur um hversu oft skattar hafa verið hækkaðir og þeim breytt í tíð þessarar ríkisstjórnar en talan var komin í 142. Hundrað fjörutíu og tvisvar sinnum hafa verið gerðar breytingar á skattkerfinu, yfirleitt til hækkunar að sjálfsögðu, en nú er verið að innleiða fjöldann allan af sköttum, skattahækkunum og gjaldskrárhækkunum sem mér skilst að geti farið með þessa tölu hátt í 200. Einn af þessum sköttum er hinn svokallaði fjársýsluskattur sem við ræðum hér. Í tilviki fjársýsluskattsins, eins og annarra skatta, hafa menn gleymt að huga að heildaráhrifunum. Þeir reikna með því að hægt sé að leggja nýja og töluvert háa skatta á fyrirliggjandi skattstofn og það hafi engin önnur áhrif en að skapa tekjur, það verði ekki til neinn kostnaður á móti annars staðar hvað þá að skattstofninn dragist saman. Þó ætti ríkisstjórnin að vera farin að læra af reynslunni því að það hefur einmitt gerst aftur og aftur, það hefur orðið afleiðing skattstefnu ríkisstjórnarinnar öll undanfarin ár, en menn læra ekki af reynslunni og finna stöðugt upp nýja skatta.

Hugmyndin var víst að ná 4,5 milljörðum kr. í ríkissjóð með þessum nýja fjársýsluskatti. Hann er algjörlega ótengdur eða átti að vera ótengdur afkomu fjármálafyrirtækja en leggjast þess í stað á laun, það átti að hækka skatta á laun starfsmanna fyrirtækjanna í stað þess að líta til þess hver hagnaðurinn væri. Þetta er ákaflega óheppileg skattlagning og ekki hvað síst á þessu sviði þar sem gríðarleg fækkun hefur orðið á starfsfólki nú þegar og mikil hætta á að verulegum fjölda fólks verði sagt upp til viðbótar vegna þess hversu mikið banka- og fjármálakerfið hafði vaxið. Enn er það töluvert stórt að umfangi, starfsmenn margir miðað við fólksfjölda í landinu og því jákvætt að svo margt fólk skuli hafa haldið vinnunni fram að þessu. Með þessum skattlagningarhugmyndum er ríkisstjórnin beinlínis að senda þau skilaboð til banka og fjármálafyrirtækja, tryggingafyrirtæki þar meðtalin og lífeyrissjóðir, að þau eigi að fækka starfsmönnum, segja upp fólki. Með því — til viðbótar við tryggingagjaldið sem hefur að sjálfsögðu verið hækkað aftur og aftur og er sérstakur skattur á laun, mannaráðningar — er verið að leggja þennan nýja skatt á laun starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Frá því að stóru bankarnir féllu árið 2008 hafa hátt í 2.000 manns misst vinnuna í íslenskum fjármálafyrirtækjum. 70–80% af þeim eru konur. Verði þessar skattlagningarhugmyndir að veruleika er því miður hætta á því að enn missi fleiri konur sem starfa í fjármálafyrirtækjum vinnuna einfaldlega vegna þess hversu stór hluti af starfsmönnum þær eru. Yfir þetta allt hefur verið farið í efnahags- og viðskiptanefnd og bent á að óhjákvæmilega yrði hlutfall kvenna sem missa vinnuna áfram hátt einfaldlega vegna þess hversu stór hluti starfsmannanna þær eru. Þetta er því sérkennilegt innlegg í hina svokölluðu kynjuðu hagstjórn ríkisstjórnarinnar sem hefur nú fyrst og fremst reynst kynleg hagstjórn.

Í nefndaráliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, sem myndar í þessu máli 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, segir að með frumvarpinu sé í raun verið að hengja bakara fyrir smið. Ætlunin sé sú að refsa þeim fjármálastofnunum sem nú eru starfandi fyrir það sem bankarnir hafi gert í fortíðinni — aðrir bankar, önnur fyrirtæki — og það sé óneitanlega sérkennileg nálgun. Verst er þó, eins og bent er á í nefndarálitinu, að þessi skattur bitnar fyrst og fremst á litlum fyrirtækjum, sparisjóðunum, nýjum fjármálafyrirtækjum, sem eru að reyna að hasla sér völl og mynda samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði og það veitir svo sannarlega ekki af því, og skapi þannig mikið ójafnvægi og styrki samkeppnisstöðu risanna, þeirra stóru, gagnvart þeim litlu sem í raun megi alls ekki við þessum skatti. Þetta skapi beinlínis hættu á því að sparisjóðakerfið leggist af, að sparisjóðirnir komist í þrot vegna þess að þeim sé gert ókleift að hafa fólk í vinnu og reka samkeppnishæf fyrirtæki. Allt vinnur þetta gegn markmiðum sem maður taldi að væri almenn samstaða um, og er auðvitað sérstaklega bagalegt ef drepa á öll ný fyrirtæki og koma í veg fyrir að til verði samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.

Það er sérstaklega áhugavert að lesa í nefndaráliti bæði 1. og 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að fjölmargir aðilar sem komu og veittu nefndinni álit sitt á þessu frumvarpi vöruðu sérstaklega við frumvarpinu. Hverjir voru það? Það voru meðal annars margumrædd Bankasýsla ríkisins, sem telur að skoða þurfi af kostgæfni hvaða áhrif fyrirhuguð skattlagning hefur á afkomu fjármálafyrirtækja og bendir einnig á að skatturinn mun leggjast þungt á sparisjóðina og mögulega framtíðarrekstrarhæfi þeirra. Þarna er Bankasýsla ríkisins, stofnun á vegum fjármálaráðuneytisins, að benda á að það þurfi skoða betur hver verði áhrifin af fyrirhugaðri skattlagningu. Því miður er það tilfellið í þessu máli eins og svo mörgum skattamálum sem frá ríkisstjórninni koma að menn hafa ekki einu sinni haft fyrir því að leggja mat á hin raunverulegu áhrif. Kastað er fram einhverri tölu, 4,5 milljörðum í þessu tilviki, og ekkert haft fyrir því að leggja mat á hvaða áhrif hinn nýi skattur og lagabreytingarnar hafi.

Það voru fleiri en Bankasýslan sem vöruðu við þessu, Fjármálaeftirlitið benti á að engin tilraun hefði verið gerð til að leggja mat á möguleg áhrif skattsins á fjármálamarkaði. Aftur er þarna varað við því að menn leggi á nýjan skatt og breyti lögum án þess að hafa lagt mat á hverjar afleiðingarnar af því verði. Jafnframt er ítrekað að ekki hafi verið hugað að því hvaða áhrif þetta hafi á neytendur. Fjármálaeftirlitið telur skattlagninguna varasama. Fjármálaeftirlitið beinir því til Alþingis að sú skattlagning sem við ræðum hér sé varasöm.

Hverjir fleiri? Það má nefna sjálfan ríkisskattstjóra. Hér er verið að ræða það sem sjálfur ríkisskattstjóri varar við. Í áliti frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, segir, með leyfi forseta:

„Ríkisskattstjóri er heldur ekki hrifinn af þessu framtaki og segir að nauðsynlegt sé að hafa samráð við aðila sem frumvarpið tekur til.“

Samráð, já, það er orð sem ríkisstjórnin hefur mikið notað, sérstaklega á fyrri stigum, en þó að hún hafi notað orðið mikið hefur hún ekki gert mikið með það sem orðið stendur fyrir. Það hefur verið ósköp lítið um samráð um þetta mál og önnur og kannski þess vegna meðal annars er afleiðingin sú að fjölmargir aðilar vara við því að lagt sé fram frumvarp sem ekki sé búið að meta hvaða áhrif hafi, enda hefur vantað allt samráð.

Ég gríp, með leyfi forseta, aftur niður í nefndarálit 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þar segir:

„Mikill kostnaðarauki vegna óafkomutengdra skatta leiðir til þess að vaxtamunur eykst, starfsfólki fækkar og tekjur ríkissjóðs minnka þegar til langs tíma er litið. Skatturinn mun fyrst og fremst bitna á viðskiptavinum í formi hærri vaxta og þjónustugjalda auk þess mun útvistun verkefna aukast og í kjölfarið uppsagnir starfsfólks. Talið er líklegt að starfsfólki fjármálafyrirtækja muni fækka um allt að 10% en nú þegar hafa tæplega 2.000 manns misst vinnuna hjá fjármálafyrirtækjum frá árinu 2008 …“

Virðulegur forseti. Þarna er verið að benda á að þessar skattlagningarhugmyndir hafi í raun öfug áhrif miðað við það sem til er ætlast. 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur upp nokkur atriði til viðbótar, varar við fjölmörgum fyrirsjáanlegum afleiðingum þessarar skattlagningar. Þeir byrja þó á því að vara við því sem umsagnaraðilarnir, sem ég nefndi hér áðan, hafa bent á, að ekki hafi einu sinni verið haft fyrir því að leggja mat á áhrifin af skattlagningunni. Svo er farið yfir það að þetta muni knýja á um fækkun starfa, það sé óhjákvæmilegt, verið sé að senda þau skilaboð til fjármálafyrirtækjanna að þau eigi að fækka verulega hjá sér starfsfólki og það geti kostað mörg hundruð manns vinnuna.

Þeir benda líka á það, 1. minni hluti efnahags- og skattanefndar, eins og ég nefndi áðan að konur séu stór hluti þeirra sem muni þá missa vinnuna. Svo vekja þeir athygli á áhugaverðu atriði — sem er eitt af þeim atriðum sem þeir sem leggja fram þetta frumvarp virðast ekki hafa leitt hugann að — að þetta stuðlar að því að starfsemi og rekstur þessara fyrirtækja flytjist í auknum mæli til útlanda. Með öðrum orðum, svo ég vitni beint í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Er þar um að ræða hina innbyggðu hvata til útvistunar verkefna og færslu starfa út fyrir landsteinana.“

Það er ekki bara það að fólki verði sagt upp og starfsmönnum fyrirtækjanna fækkað, heldur muni menn í auknum mæli sjá sér hag í því að láta starfsfólk erlendis vinna vinnuna.

Svo er varað við því, sem ég talaði mikið um áðan, að þetta bitni fyrst og fremst á sparisjóðum og smærri fjármálafyrirtækjum og, eins ég nefndi líka, að verið sé að skekkja samkeppnisstöðuna.

Síðan vil ég vekja sérstaka athygli á sjöunda atriðinu sem 1. minni hluti efnahags- og skattanefndar vekur athygli á og leyfa mér að vitna beint í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Í sjöunda lagi gæti frumvarpið truflað verulega starfsemi þeirra sem eru með blandaða starfsemi og reka sig ekki á vaxtamun eins og viðskiptabankarnir. Algengt er að smærri aðilar á fjármálamarkaði byggi reksturinn á ráðgjafarstarfsemi sem er nú þegar virðisaukaskattsskyld. Viðbótarskattinn sem lagður er til með frumvarpinu ætti því eingöngu að leggja á þann hluta fjármálastarfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld.“

Þarna verðum við enn og aftur vör við það að verið sé að koma inn tví- og jafnvel þrísköttun. Þetta er auðvitað mjög bagalegt og mjög órökrétt að ég tali nú ekki um ósanngjarnt að leggja sífellt til skattkerfisbreytingar sem fela í sér margsköttun á sömu upphæðunum. Menn hafa víðast hvar reynt að útrýma slíku úr skattkerfum landa en hér virðist stefnan nánast vera sú að innleiða tvísköttun sem annars staðar er beinlínis talin galli á skattkerfi og stórskaðleg.

Í áttunda lagi bendir 1. minni hluti á að þeir aðilar sem ekki eru eftirlitsskyldir fái hér ákveðið forskot á eftirlitsskylda aðila.

Svo er komið inn á mál sem hefur reyndar verið svolítið til umræðu í tengslum við þennan skatt. Bent er á að ekki sé rétt sem haldið hefur verið fram að hann samræmist skattlagningu annars staðar — Danmörk hefur sérstaklega verið nefnd í því sambandi — þvert á móti gangi þetta gegn þeim reglum sem menn eru að innleiða á alþjóðavettvangi og forsendur séu allt aðrar fyrir þessum skatti en þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í Danmörku.

Og það er rakið ágætlega að þetta muni minnka sveigjanleika fyrirtækja til skuldaleiðréttingar. Þetta er auðvitað atriði sem er mér mjög hugleikið, því að í stað þess að þrýsta á um það að fjármálafyrirtækin, bankarnir og önnur fyrirtæki sem hafa lánað heimilunum, ráðist í nauðsynlega leiðréttingu skulda er með þessum lögum verið að gera þeim erfiðara fyrir. Ég hef bent á að ein af þeim leiðum sem megi nota til að ná einhverri sátt við þessi fyrirtæki um að ráðast í almennar aðgerðir sé að veita einhvern stöðugleika hvað varðar skattumhverfið á móti. Það er eðlilegt að hluti af samkomulagi um leiðréttingu lána, almenna skuldaleiðréttingu, sé að þessi fyrirtæki búi við ákveðinn stöðugleika af hálfu ríkisins og geti lagt mat á það hversu mikið svigrúm er til staðar. Með þessu er verið að gera það erfiðara án þess að leiða til lykta álitamálin um skuldaleiðréttingu. Í ofanálag er þetta svo til þess fallið að auka vaxtamun og auka þannig enn kostnað heimilanna.

Bent er á að þetta skapi ákveðna óvissu varðandi réttindi sjóðfélaga í almennum lífeyrissjóðum sem eru auðvitað skattlagðir með þessum hætti. Hvernig á að fjármagna það? Væntanlega með því að skerða lífeyrisréttindin sem nemur skattlagningunni eða að segja upp starfsfólki, eða það sem líklegast er; blöndu af þessu tvennu. Nú veit ég ekki hversu mikið svigrúm lífeyrissjóðirnir hafa til að segja upp starfsfólki en það er varla svo mikið að menn komist hjá því að skerða að einhverju leyti lífeyrisréttindi ef af þessari skattlagningu verður.

Nú ætla ég að leyfa mér að vitna aftur beint í álit 1. minni hluta þar sem segir og komið er inn á þær breytingartillögur sem fyrirhugaðar eru:

„Með breytingartillögum meiri hlutans eru settar hindranir í götu skattlagningaráætlunar fjármálaráðherra með því að taka lífeyrissjóðina út fyrir sviga“ — hér er verið að lýsa þeim endurbótum sem menn eru að reyna að gera á frumvarpinu — „í þessu máli svo ekki verði bein áhrif á almennu lífeyrissjóðina eða framkallað misvægi milli þeirra og hinna opinberu lífeyrissjóða. Þá er lagt til að glórulaust skatthlutfall fjársýsluskattsins verði lækkað úr 10,5% í 5,45% …“

Þetta er sem sé það sem menn ætla að reyna að gera til að laga málið, Svo er bent á það að í rauninni verði hlutfallið ekki 5,45% heldur 6,71% — skatthlutfall sem bætist ofan á aðra launaskatta. Ég mun lesa hér stutta klausu sem útskýrir ástæðu þess, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti bendir á að við umfjöllun nefndarinnar kom fram að raunveruleg áhrif fjársýsluskattsins verði 6,71% þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki sem rekin eru með hagnaði. Þá verður fjársýsluskatturinn ekki dreginn frá kostnaði, líkt og gildir um tryggingagjaldið o.fl.“

Með öðrum orðum, enn og aftur erum við að upplifa þessa tvísköttun sem eins og ég nefndi er reynt að eyða annars staðar en hér er nánast rekið sem stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

Svo er farið ágætlega yfir það sem ég kom inn á áðan sem er hættan á því að starfsemin flytjist í auknum mæli til útlanda og verði skattlögð þar.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar menn leggja fram svona frumvarp að fjölmargir aðilar vari við frumvarpinu, bendi á nauðsyn þess að leggja mat á áhrif þess áður en lengra er haldið og vari sérstaklega við frumvarpinu, m.a. Bankasýsla ríkisins, Fjármálaeftirlitið og ríkisskattstjóri. Þetta ætti að nægja til þess að menn stöldruðu við og gæfu sér að minnsta kosti tíma til að reikna út hver áhrifin af þessu frumvarpi kynnu að verða. Því miður er því ekki að heilsa eða hefur ekki verið að heilsa í þessu tilviki eins og svo mörgum öðrum skattlagningaráformum ríkisstjórnarinnar. Einhverju er kastað fram, það er leitt í lög og svo sjá menn bara til hvaða áhrif það hefur. Með þessum hætti á ekki að reka ríki.