140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[16:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, því miður er það yfirleitt raunin að svona skattlagning endar á viðskiptavininum sem er almenningur — þetta er ágætlega rakið í nefndarálitum 1. og 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar — vegna þess að þetta birtist meðal annars í auknum vaxtamun. Í því liggur gríðarlega mikill kostnaður fyrir íslensk heimili. Svo er spurningin um skilanefndirnar. Það er mjög áhugaverð spurning hvers vegna þær koma ekki við sögu hér. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið rætt í nefndinni. Það væri áhugavert að heyra af því hér í umræðunni frá nefndarmönnum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson bendir á eru greidd himinhá laun í þessum nefndum, miklu hærri en víðast hvar annars staðar í samfélaginu. Þar miða menn ekki við þetta forsætisráðherrahámark sem aðrir þurfa að sætta sig víða annars staðar eins og í heilbrigðisgeiranum. Þetta er oft og tíðum og yfirleitt hugsa ég í formi verktakagreiðslna sem eru ekki skattlagðar á sama hátt. En þetta er bara enn eitt dæmið um það að menn hafa ekki skoðað þetta mál í heild sinni eins og svo margir umsagnaraðilar bentu á. Að þetta mál hefði ekki fengið almennilega umfjöllun, það hafi skort allt samráð, það hefði vantað mikið upp á að áhrif þess væru metin. Þetta er bara enn ein áminning um mikilvægi þess að fara betur yfir málið áður en þetta er leitt í lög.