140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um fjársýsluskatt og þrjú nefndarálit, frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og 1. og 2. minni hluta um þennan nýja skatt sem leggja átti á laun í fjármálafyrirtækjum.

Þetta hefur verið rætt mikið hér og í nefndarálitunum, sérstaklega frá minni hlutunum, er ítarlega farið í gegnum það hvaða afleiðingar þessi skattur hefur. Svo virðist sem ríkisstjórnin sleppi því að athuga hvaða afleiðingar skattahækkanir og skattbreytingar sem hún gerir hafi á skattstofninn. Það er eins og vinstri menn trúi því enn þá að skattstofninn breytist ekki við breytingar á skattprósentu eða álögum á skattstofninn. Það er löngu vitað að skattstofninn bregst mjög fljótt við öllum breytingum á skattprósentu og yfirleitt alltaf í öfuga átt, þ.e. það verður til þess að skatttekjur verða ekki eins miklar og menn reikna með með flötum stærðfræðilegum aðferðum heldur gefur skattstofninn eftir og útkoman getur jafnvel orðið tap fyrir ríkissjóð, þ.e. tekjur ríkissjóðs geta minnkað. Nokkur dæmi eru um það í síðustu tíð á Íslandi. En það er líka þekkt að þegar skattar eru lækkaðir geta tekjur ríkissjóðs hækkað. Þegar menn lækkuðu til dæmis tekjuskattinn þegar Sjálfstæðisflokkurinn var einn við völd í 18 ár stækkaði skattstofninn mjög mikið, tekjur einstaklinga hækkuðu mjög mikið í kjölfarið.

Bent hefur verið á ýmsar afleiðingar af þessum skatti og 1. minni hluti telur upp hvorki meira né minna en níu atriði. Ég ætla reyndar ekki að rekja þau en það sem maður veltir kannski mest fyrir sér í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans er aukinn skattur á laun. Aukinn skattur á laun gerir starfsfólkið dýrara. Það þýðir að verið er að skattleggja atvinnu vegna þess að stjórnendur fyrirtækjanna fara strax að hugleiða hvernig þeir geti minnkað þennan kostnað í bókhaldi fyrirtækisins. Allir góðir framkvæmdastjórar, bankastjórar, lífeyrissjóðsstjórar og aðrir eru uppteknir af því að halda kostnaði niðri og þegar launakostnaður vex svona fara menn að velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að segja upp einhverju af fólkinu. Það er einmitt það sem gerist, til viðbótar við þá 2 þúsund starfsmenn sem þegar hefur verið sagt upp í fjármálageiranum. Þær uppsagnir voru kannski nauðsynlegar vegna þess að sá geiri var orðinn allt of stór en það er viðbúið fækkun á starfsfólki þar verði enn meiri.

Það sem kannski er hættulegast í þessu er ákveðin tæknileg þróun. Ég hef ekki farið í bankaútibú í sennilega þrjú eða fjögur ár. Af hverju ekki? Vegna þess að ég sinni öllum mínum bankaviðskiptum á netinu. Þetta er ákveðin þróun sem á sér stað og sem yngra fólk sérstaklega, ég er kannski ekki í þeim hópi, hefur tileinkað sér, að vinna allt sitt á netinu og bankaútibúin verða alltaf minni og minni. Fólkið sem þar vinnur horfir náttúrlega á þessa þróun með ákveðnum ugg. Þetta frumvarp mun væntanlega flýta þeirri þróun vegna þess að bankarnir munu væntanlega loka fleiri útibúum og reyna að flytja vinnsluna yfir til kúnnans því að þegar ég vinn í netbankanum mínum er ég kominn í sjálfboðavinnu hjá bankanum, ég fæ engin laun fyrir að færa inn á reikning minn, millifæra o.s.frv. Þetta er ákveðin þróun sem getur verið mjög skaðleg fyrir útibú úti á landi en þau eru enn til vegna þess að viðskiptavinirnir eru íhaldssamir og mæta í sitt útibú. Ef útibúin loka eru það einkum konur sem missa vinnuna, það hefur sýnt sig. Það er það sem menn óttast mest, að við þessar aðgerðir missi einkum konur vinnuna. Í umræðunni hefur verið bent á að þetta sé í rauninni mjög kynjuð hagstjórn sem hér á sér stað, þ.e. afleiðingarnar verði uppsagnir á störfum kvenna.

Einnig hefur verið bent á að þetta hefur áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja, til dæmis varðandi séreignarsparnað. Nú er verið að minnka sparnaðarprósentuna úr 4% í 2% sem hefur áhrif á fyrirtæki sem hafa haslað sér völl á sviði séreignarsparnaðar. Við skulum ekki gleyma því að markaðssetning hefur heilmikil áhrif á það hvort fólk sparar eða ekki. Ég hygg að sá mikli vöxtur á séreignarsparnaði sem hefur orðið síðustu tíu ár eða síðan hann var tekinn upp sé að þakka markaðsátaki fyrirtækjanna sem starfa í þeirri grein. Hér hafa komið inn erlendir aðilar og haslað sér völl á sviði séreignarsparnaðar, svo sem lífeyrissjóðir og bankar. Þetta frumvarp, líka eftir breytinguna á því, skekkir stöðu þeirra aðila sem starfa í þessum geira vegna þess að erlendu aðilarnir borga ekki launaskatt starfsmanns sem vinnur úti í heimi við að fjárfesta og gera allt sem gera þarf varðandi sparnaðinn, svo sem að færa bókhald og annað slíkt. Hann lendir ekki í þessum skatti. Sömuleiðis er hagnaður þessara fyrirtækja ekki skattaður. Þannig að erlendir aðilar sem vinna með séreignarsparnað munu sleppa við þetta, ég held að fullu, nema kannski þeir starfsmenn sem vinna hérna, mér hefur ekki gefist tími til að kanna það nákvæmlega. Hins vegar munu innlendir aðilar þurfa að borga og til viðbótar að mæta því að viðskiptin dragast saman um helming þar sem frádráttur fer úr 4% niður í 2%. Þarna er hoggið tvisvar í þann knérunn.

Svo er viðbúið að ýmislegt sem menn geta útvistað, bókhald og margt fleira, verði útvistað. Ég nefni til dæmis þrif á bankastofnunum því að þessi skattur leggst náttúrlega líka á laun þess fólks sem þrífur bankastofnanir. Viðbúið er að enn meiri vöxtur verði í útvistun á ýmislegri starfsemi banka og fjármálafyrirtækja og þá sleppur hún undan skattinum. Og þegar menn byrja á þeim leik að kanna hvar ódýrast er að útvista er ekkert sem hindrar menn í að fara til útlanda með viðkomandi starfsemi. Í dag er hægt að vinna ótrúlega marga þætti í starfsemi fyrirtækja út um allan heim. Til dæmis vinna nokkrir verkfræðingar á Íslandi að verkefnum sem snerta Ísland á engan hátt, þeir eru bara að vinna á einhverri verkfræðistofu í Kína eða annars staðar. Þetta gerist öfugt líka þannig að þegar svona skattur er lagður á laun á Íslandi getur vel verið að háu launin í útlöndum verði samkeppnisfær og menn fari þá að útvista starfsemi þangað og þá hverfur skattstofninn. Þannig að afleiðingarnar eru margar sem menn þurfa að hafa í huga.

Svo er annað, frú forseti, sem ég benti á í umræðum í gær um bandorminn, að við hv. þingmenn vinnum innan ákveðinnar spennitreyju. Fjárlög hafa verið samþykkt, ákveðnar tekjur eiga að koma af ákveðnum skattstofni og þegar í ljós kemur að skattstofninn er mjög slæmur, eins og skatturinn á laun í fjármálageiranum var, verður meiri hluti nefndarinnar eða alþingismenn yfirleitt að finna einhvern nýjan skatt til að halda tekjunum. Þess vegna datt mönnum í hug að hækka skatta á hagnað bankanna um 6% og færa hann úr 20% í 26%. Menn urðu að fara þá leið af því að við erum í þeirri úlfakreppu að við getum í rauninni ekki fellt niður tekjustofna. Það gengur eiginlega ekki upp, að menn verði að finna bara eitthvað til að skattleggja og helst í sama geira þannig að ekki verði mikil breyting á þeim sem borgar og nýsamþykkt fjárlög haldi.

Ég má til með að koma inn á eitt, frú forseti, sem hefur verið töluvert mikið í umræðunni og er að mínu mati mikill misskilningur. Það er ofurhagnaður bankanna. Nú hef ég svo sem enga sérstaka samúð með eigendum bankanna og skilanefndirnar eiga bankana beint eða óbeint. En þeir aðilar njóta eignarréttar nákvæmlega eins og við njótum eignarréttar, hér heima og í útlöndum. Við viljum njóta eignarréttar í útlöndum, til dæmis þegar við ferðumst til útlanda viljum við helst ekki að einhver geti hirt töskuna okkar og sagt að eignarrétturinn gildi ekki Við viljum halda eignarrétti hvar sem er í heiminum. Ef við lítum á Ísland utan frá sem kröfuhafi, sem er mjög sjaldan gert, til dæmis þýskur banki sem fjárfesti hér fyrir sparifé Þjóðverja, þýskra heimila, sem þeir höfðu nurlað saman með því að fresta ferðalögum, bílakaupum og öðru slíku með sparsemi og ráðdeild, þá kemur í ljós að helmingurinn af þeim fjárfestingum sem þýskir bankar lánuðu til Íslands hefur tapast. Það eru 8 þúsund milljarðar sem er gífurlega há tala. Ég reikna með að þýskum bönkum þyki það ekki skemmtilegt.

Þegar menn stóðu frammi fyrir því, stuttu eftir hrun, að mynda nýja banka til að bjarga verðmætum voru allir hlynntir því, í raun kröfuhafarnir líka. Þeir voru hlynntir því að reksturinn gæti haldið áfram í staðinn fyrir að allt færi í bál og brand á Íslandi og hér mundi bresta á hungursneyð af því að greiðslukerfið mundi hrynja. Ég veit ekki, frú forseti, hvort menn hafi áttað sig á því hvað það þýðir. Ég hugsa að fæstir geti ímyndað sér hvað það þýðir ef menn geta ekki borgað í verslunum. Fyrst borga menn með úrinu sínu o.s.frv. og öðru lauslegu fyrir mjólk og slíkt en þegar bóndinn fær ekki lengur greitt hættir hann að framleiða mjólk. Innan mjög skamms tíma, ef greiðslukerfið hrynur, er komin upp skelfileg staða. Til að bjarga greiðslukerfinu voru sett neyðarlög, og það held ég að hafi verið kraftaverk neyðarlaganna, það mun sýna sig í framtíðinni, það tókst að halda greiðslukerfinu gangandi með því að stofna nýja banka og ég held að allir hafi verið sammála um að gera það. En þá var spurningin: Hversu mikið fé átti að fylgja þeim kröfum eða innlánum sem voru í bönkunum? Hve digrir afskriftasjóðir áttu að fylgja með? Kröfuhafarnir vildu að sjálfsögðu hafa þá eins litla og hægt var. En ef bankarnir hefðu verið með magra afskriftasjóði hefðu þeir verið mjög veikir. Þá duttu menn niður á það, og ég átti þátt í að koma þeirri hugmynd að, að láta kröfuhafana eignast nýju bankana, þ.e. í Kaupþingi og Glitni. Það gekk ekki í Landsbankanum því þar voru kröfuhafarnir breska fjármálaráðuneytið og það hollenska og þau höfðu engan áhuga á því að eignast banka á Íslandi.

Með þeirri leið var hægt að hafa afskriftasjóðina mjög digra af því að bankarnir áttu þá hvort sem er og engin hætta var á því að menn mundu rífast um það í áratugamálaferlum hversu digrir eða magrir afskriftasjóðirnir hefðu átt að vera eða hve miklar eignir hefðu átt að fylgja skuldbindingunum af innlánunum. Þess vegna sömdu menn um að hafa bankana mjög sterka með því að hafa mjög safaríka afskriftasjóði sem mundu skila sér í mjög góðum hagnaði. Það var vitað. Það var innbyggt í kerfið að mjög mikill hagnaður yrði af bönkunum því að hann rennur til eigendanna sem eru skilanefndirnar og gömlu bankanna sem kröfuhafarnir eiga. Þannig að kröfuhafarnir eiga í rauninni þennan hagnað. Þess vegna geta menn ekki sagt aftur og aftur: Nú skulum við góma þennan hagnað, það er óheyrilegt að hafa þennan gífurlega hagnað, þetta er ofurhagnaður o.s.frv. Þetta var sett svona upp eingöngu til að hindra að hér yrðu áratugamálaferli, í gegnum Hæstarétt allt til Mannréttindadómstóls Evrópu, til að komast að niðurstöðu um hversu lítill afskriftasjóðurinn gæti verið til að bankarnir yrðu starfhæfir. Ef íslenska ríkið hefði átt bankana hefði í fyrsta lagi þurft að leggja heilmikið fé með þeim en það þurfti ekki því þeir voru mjög sterkir með þessa safaríku afskriftasjóði og íslenska ríkið slapp við að leggja fram marga tugi eða hundruð milljarða í nýju bankana og við losnuðum við málaferli. Þess vegna geta menn ekki sagt enn og aftur: Við ætlum að ná í þennan hagnað. Hann er inni í dæminu, hann er í uppsetningunni á þessu módeli.

Ég ætla að koma því að, svona til að hafa sagt það, að við þurfum að gæta að því að ef við skattleggjum með óeðlilegum hætti eignir erlendra kröfuhafa sem hafa tapað á Íslandi helmingnum af 12 þúsund milljörðum, er náttúrlega hugsanlegt að þeir segi að íslenska ríkið sem hefur þetta í hendi sér, sé að hirða af þeim eignirnar eftir á. Það gæti endað í málaferlum og íslenska ríkið gæti orðið skaðabótaskylt á grundvelli eignarréttarins vegna þess að hann gildir fyrir útlendingana líka. Þeir munu vísa til þess að þeir hafa tapað 6 eða 7 þúsund milljörðum hvort sem er og ekki sé ástæða til að þeir tapi meiru. Og þetta eru gífurlegar tölur, þetta er margföld þjóðarframleiðslu, fimm- eða sexföld þjóðarframleiðslu Íslands því að lánveitingarnar voru galnar á sínum tíma. Auðvitað geta þeir sjálfum sér um kennt, ég kallaði þá einu sinni vitleysingja sem lánuðu vitleysingjum. Þeir áttu að passa miklu betur upp á að bókhaldið væri rétt fært. Íslensku bankarnir sýndu gífurlegan hagnað, gífurlegt eigið fé, en svo kom í ljós að þetta var allt saman „feik“ og endurskoðendur og ársreikningar sýndu þetta ekki. Ég vildi rétt koma inn á þetta vegna þess að hér er verið að seilast í þetta fé með þeim rökum að hagnaður bankanna sé svo mikill og sjálfsagt að skatta hann. Ég hugsa að þessi skattlagning sé kannski ekki svo þungbær en þegar skattprósentan er komin upp í 26% af hagnaði getur þó verið að menn segi: Við náum ekki til baka eigninni okkar sem átti að fylgja með sparifénu vegna þess að skatturinn er svo mikill, þegar við gerðum samkomulagið var skattað um 10% en nú er prósentan komin í 26%. Í staðinn fyrir að sjá 90% hagnað til skilanefndanna sjáum við núna 74% af hagnaðinum. Þess vegna þurfa menn dálítið að gæta sín hvað þeir ganga langt í þessari skattlagningu. Það er ekki þannig að menn geti lagt 100% skatt á hagnaðinn.

Ég vara við þessu frumvarpi vegna þess að með því er verið að skattleggja laun. Ég óttast að netvæðingin verði miklu hraðari í kjölfarið, ýmsum útibúum verði lokað og fólk missi vinnuna og fari af launaskrá hjá bönkunum og útibúum yfir á launaskrá hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, svo maður tali nú ekki um þann harmleik sem gerist þegar menn missa vinnuna. Það er ekki skemmtilegt hlutskipti og sérstaklega ekki þegar það gerist í kjölfar vanhugsaðra aðgerða frá hæstv. ríkisstjórn eins og þessi skattur er.