140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[16:53]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um fjársýsluskatt sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur til meðferðar og er í rauninni hluti af því verki að stilla af lagafrumvörp við það fjárlagafrumvarp sem samþykkt var fyrir rúmri viku síðan. Lagasetningin við þá gjörð, þ.e. fjárlagagerðin og lögfesting frumvarpsins, lifði sem sagt ekki af nema nokkra daga þar til farið var að gera á henni breytingar. Við umræðu um fjárlögin var á það bent að tekjugrein þeirra væri lítt og illa rýnd og til marks um það var nefnt að fram til þessa hefur verið viðtekin venja að efnahags- og skattanefnd þáverandi, nú efnahags- og viðskiptanefnd, gæfi umsögn sína til þingsins um tekjugrein fjárlaga. Þetta er allt umsnúið og komið í annan búning en áður var. Í sjálfu sér er ekki nauðsyn á að gera stórar athugasemdir við það að öðru leyti en því að þetta nýja verklag ber ekki vott um mikil gæði, því miður. Eðlilegra hefði verið í þessari vinnu að skattáformin, breytingar á skattkerfi hvort sem þær eru til hækkunar eða lækkunar, einföldunar eða til að auka flækjustigið, væru komin fram, þess vegna komin í gegnum þingið og orðin að lögum áður en fjárlagafrumvarpinu væri að endingu lokað og það væri þá lagað að þeim áformum sem fram kæmu í vinnu ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Sú er ekki raunin og því sitjum við uppi með að á síðustu dögum fyrir jól er verið að prjóna til áformin sem birtust í fjárlagafrumvarpinu og hafa verið staðfest í fjárlögum. Nú er farið að snikka þetta til með þeim hætti að í framhaldinu þarf væntanlega með fjáraukalögum að gera breytingar á fjárlögum.

Þetta er sá veruleiki sem við horfum upp á, um vikugömul lög eru þegar farin að taka breytingum og þær tillögur sem hér liggja fyrir bera þess vott að nauðsynlegt verði að gera nokkrar breytingar á því sem afgreitt var fyrir viku. Þetta er mjög miður. Menn hafa kennt því um að við höfum tekið í gagnið ný þingsköp og það taki tíma að koma þeim til fullrar virkni. Það er engin afsökun fyrir því hvernig við vinnum þetta. Það má til dæmis nefna að í þessu máli um fjársýsluskattinn sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur til umfjöllunar er lögskipað — það eru beinlínis fyrirmæli um það í þingsköpum Alþingis — að áður en frumvarpið kemur frá nefndinni til þingsins á að liggja fyrir umsögn og álit fjárlaganefndar Alþingis. En það liggur ekki fyrir. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki kallað eftir því áliti. Engin tilraun hefur heldur verið gerð til þess í fjárlaganefnd að efna í slíkt álit þannig að Alþingi er hér að ræða frumvarp sem ekki er fellt inn í lögskipaðan farveg sem Alþingi sjálft ákvað að skyldi viðhafður þegar mál sem þetta kæmi inn. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð, þetta er ekki í samræmi við þær miklu kröfur sem gerðar hafa verið til vinnulags, ekki bara á þinginu heldur úti um allt þjóðfélag. Það er raunar með ólíkindum að menn þurfi alltaf að vinna þessa hluti með hendurnar fyrir aftan bak, svo maður taki ekki sterkar til orða.

Við sjáum það líka í þeim álitum sem liggja fyrir að frumvarpið sem ríkisstjórnin gekk frá til þingsins hefur verið óvandað að flestri gerð. Það er alveg ljóst af þeim nefndarálitum sem hér liggja fyrir frá meiri hluta efnahagsnefndar, 1. minni hluta nefndarinnar og 2. minni hluta að í umsögnum gesta sem komu á fund nefndarinnar og tjáðu sig um innihald frumvarpsins og í umsögnum sem nefndinni bárust annars staðar frá eru athugasemdir flestar á einn veg. Þetta er ekki í samræmi við það sem upp er lagt í frumvarpinu sjálfu heldur gengur þvert á móti markmiðum þess. Meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er því nokkur vorkunn þegar hann reynir að laga atriði í frumvarpinu sem nefndin hefur fengið til meðferðar með þeim tillögum sem henni er ætlað að gera og þær bera þess vott að stjórnarmeirihlutinn í nefndinni er að reyna að draga úr þeim ágöllum sem frumvarp ríkisstjórnarinnar bar með sér og það er gott. En þar sem tími er knappur til vinnu í ljósi þeirra aðstæðna sem ég nefndi áðan kann að vera að þær breytingartillögur sem stjórnarmeirihlutinn í nefndinni hefur reynt að gera séu ekki heldur nægilega vandaðar.

Þegar maður les lýsingu á efni frumvarpsins sem nefndin fékk til meðferðar er sagt að markmiðið með því sé í fyrsta lagi að reyna að skapa meira skattalegt jafnræði á milli annars vegar fjármálaþjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti og hins vegar annarra atvinnugreina sem eru virðisaukaskattsskyldar og í öðru lagi er markmiðið að reyna að draga úr óæskilegri áhættusækni innan fjármálageirans. Síðan eru tilteknir fleiri þættir sem frumvarpinu er beint að. En ef við skoðum sérstaklega þá tvo þætti sem ég nefndi, jafnræði innan fjármálaþjónustunnar og á milli hennar og annarra atvinnugreina og það markmið að halda aftur af óæskilegri áhættusækni, er viðurkennt í bæði tillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og í umsögnum sem liggja fyrir frá minni hlutanum að ekki virðist vera nokkur vegur að fá þetta til að ganga upp.

Þess ber þó að geta að öllum þremur nefndarálitunum ber saman um að því hafi ekki verið nægilega sinnt að meta áhrif þess að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir. Það eru ekki neinar smákanónur sem tjá sig í þá veru. Það er í fyrsta lagi margumrædd Bankasýsla ríkisins. Hún telur að fara þurfi yfir frumvarpið af mikilli kostgæfni og athuga hvaða áhrif sú skattlagning sem þar er gerð tillaga um muni hafa á afkomu fjármálafyrirtækja. Bankasýslan bendir einnig á að skatturinn muni leggjast þungt á sparisjóði og muni að öllu óbreyttu hafa óhjákvæmilega mikil áhrif á framtíðarrekstrarhæfi þeirra. Í öðru lagi bendir Fjármálaeftirlitið sömuleiðis á það í athugasemdum sínum að engin tilraun hafi verið gerð til að leggja mat á möguleg áhrif skattsins á fjármálamarkaði né heldur á neytendur á fjármálamarkaði, þ.e. þá sem eiga viðskipti við fjármálastofnanir af ýmsum toga. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins, eftir yfirferð á frumvarpinu, er einfaldlega sú að skattlagningin sem þar er lögð til sé varasöm. Það er niðurstaða FME.

Sumir kunna að segja að þessar tvær stofnanir, Bankasýslan og Fjármálaeftirlitið, séu ekki endilega dómbærastar á þetta þar sem þær lifi og hrærist á þessum markaði. Fjármálaeftirlitið á uppruna sinn, tekjur sínar og störf frá skattlagningu á þennan atvinnurekstur. En vitna má líka til orða ríkisskattstjóra sem er ekki heldur á þeim buxunum að blessa þetta frumvarp heldur er hann þvert á móti lítt hrifinn og telur nauðsynlegt að samráð við þá aðila sem frumvarpið tekur til þurfi að eiga sér stað. Það eitt og sér vekur mann til umhugsunar um þær starfsreglur sem settar hafa verið. Vilji er einnig til þess að leggja mat á þau lagafrumvörp sem koma frá ríkisstjórninni fyrir þingið. Upp á lagt er og reglur kveða á um að öllum frumvörpum fylgi mat í þeim anda sem hér hefur verið lýst og þessar þrjár ríkisstofnanir sem ég gat um hafa kallað eftir því, en því er ekkert sinnt. Það er þannig á ýmsum sviðum sem vinnubrögð við þetta mál eru síst of góð.

Það er raunar komist þannig að orði í áliti 2. minni hluta að hér sé á ferðinni hreinræktað afkvæmi hinnar norrænu velferðarstjórnar sem sé byggt á misskilningi og mistökum. Ég vil ekki taka endilega svo djúpt í árinni heldur harma ég fremur að verklagið sem hér er viðhaft ber vott um óvönduð vinnubrögð, ekki endilega illan vilja heldur trassaskap við vinnu, hér er kastað til höndunum og það þykir mér mjög miður.

Ég vil nefna að þegar við ræðum um annað af þeim tveimur markmiðum sem sett eru fram fyrir réttlætingu á þeim skatti sem hér um ræðir, aukið jafnræði, er langur vegur frá að það gangi eftir ef menn horfa til þess í hvaða átt tillögur meiri hlutans liggja. Strax eru dregin til baka þau áform sem uppi voru um að leggja hátt í 200 millj. kr. skatt á lífeyriseign landsmanna sem geymd er í því sem kallaðir eru lífeyrissjóðir. Í umræðunni ber oft og á því að menn telji lífeyrissjóðinn vera eitthvert fyrirbæri sem hægt sé að ráðskast með. Þessi áform um sérstaka skattlagningu í fjársýsluskattinum eru sem betur fer dregin til baka í tillögum meiri hlutans en um leið hefur það þau áhrif að þetta svokallaða og æskilega jafnræði raskast þó ekki væri nema í því sem tekur til íbúðalána. Lífeyrissjóðir eru með um 15% af þeim markaði, bankarnir um 27% og síðan er Íbúðalánasjóðurinn með það sem út af stendur. Samkvæmt tillögum meiri hlutans eiga bankar og sparisjóðir eiga að greiða skatt en lífeyrissjóðirnir verða undanþegnir honum. Þetta hlýtur að raska því æskilega, að mati ríkisstjórnarinnar, jafnræði sem markmið hafa verið sett um.

Annað sem lýtur að markmiðum þessa frumvarps af hálfu ríkisstjórnar er að halda aftur af óæskilegri áhættusækni. Það geta flestir tekið undir það að áhættusæknin á þessum markaði var gríðarleg á árum áður og enginn vill sjálfsagt upplifa það aftur en að flestra mati hefur dregið verulega úr þessu sem betur fer. Við getum þess vegna spurt okkur að hverjum þetta beinist. Ef áhættusæknin felst í því að menn taki stöðu á ýmsum sviðum og eyði um efni fram o.s.frv., getur maður líka með sama hætti spurt sig hvort þessi skattlagning sem verður að sjálfsögðu velt yfir á fólk og fyrirtæki og lendir fyrir rest á herðum þeirra sem nýta sér þjónustu á fjármálamarkaði, sé ekki enn ein fjölin í þann vegg sem reistur er til að reyna að draga úr því að fólk og fyrirtæki hafi það svigrúm sem nauðsynlegt er til að skapa og byggja upp starfsemi sem getur leitt til meiri verðmætasköpunar í landinu en raun ber vitni. Spyr sá sem ekki veit. Ég hef oft og tíðum undrast mjög tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og oftar en ekki fara orð ekki saman við efndir. Ég held að við getum fullyrt það.

Ég vil undir lok ræðu minnar nefna sérstaklega það atriði sem lýtur að sparisjóðum landsins og þeim áhrifum sem frumvarpið mun hafa að mati Sambands íslenskra sparisjóða. Sparisjóðirnir eru og hafa verið taldir hornsteinar í hverri byggð og nauðsyn á fjármálaþjónustu er þar mikil. Eins og þetta frumvarp liggur fyrir er mat Sambands íslenskra sparisjóða að það vegi svo harkalega að rótum þess kerfis að það muni leiða til mikilla uppsagna í kerfinu. Það er þó kannski ekki stærsta athugasemdin heldur efasemdir forsvarsmanna sparisjóðanna um að litlu sparisjóðirnir muni lifa þetta af. Ef það gengur eftir munu væntanlega eftir lifa þrjár stórar bankastofnanir á fjármálamarkaði, eins konar risar, og ég hefði talið að það væri ekki sá veruleiki sem við flest vildum sjá. Við höfum þvert á móti reynt að tala fyrir því … (Utanrrh.: … um sparisjóðina.) Að sjálfsögðu og eigum þá að standa með þeim, en þá hljótum við að taka undir athugasemdir Sambands íslenskra sparisjóða og reyna að mæta þeim ef við viljum standa vörð um sparisjóðina eins og hæstv. utanríkisráðherra kallaði fram í. Ég deili skoðunum með hæstv. ráðherra í þeim efnum.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa verið uppi fögur og góð áform um endurreisn sparisjóðakerfisins og markmið frumvarpsins er að mati þessa sama kerfis þess eðlis að það gangi gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Í því sambandi mætti segja að frumvarpið, eins og það kemur út, sé samið með svipuðum hætti og þegar sá illi les hina góðu bók. (Utanrrh.: Nefndu hann.) Hæstv. ráðherra gargar út í salinn fram hjá mínum eyrum um nöfn en ég ætla í þessari umræðu að forðast að nefna þau.

Það er svo margt í þessu frumvarpi sem gengur gegn þeim markmiðum sem því er beint að, að ég kalla eftir og skora á allar góðar vættir að ganga til þess verks að snúa og sníða af því þá agnúa sem hér hafa verið raktir, ekki endilega af mér heldur í þeim ágætu nefndarálitum sem liggja fyrir bæði frá meiri hluta og minni hluta í nefndinni. Ég kýs að túlka þau álit sem ég hef lesið að mikill vilji sé meðal allra fulltrúa í efnahags- og viðskiptanefnd (Gripið fram í: Og utanríkisráðherra.) og hæstv. utanríkisráðherra að breyta þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ég lít svo á að stjórnarmeirihlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd þurfi meiri stuðning en hann hefur fengið til að breyta þeim áformum sem ríkisstjórnin setur fram í frumvarpi sínu.