140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir til hv. þingmanns fyrir þetta yfirlit. Ég áttaði mig samt ekki alveg á skoðunum hv. þingmanns á þessu frumvarpi. Hann las mest upp tillögur og skoðanir annarra.

Fyrst um athugasemdirnar við vinnubrögð. Nú eru reyndir þingmenn í salnum og geta þá kannski leiðrétt mig ef þetta er misskilningur hjá mér en það er eins og mig minni að þetta verklag hafi oft verið viðhaft áður. Menn samþykkja fjárlög og síðan í framhaldi koma nokkurs konar viðbætur við þau til að laga sig að þeim forsendum. Ég held að það sé örugglega þannig.

Mig langar hins vegar að vita hvort hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni finnist óeðlilegt að bankastofnanir og fjármálafyrirtæki leggi eitthvað af mörkum í því ástandi sem er núna. Það kom fram hjá honum að þessi fyrirtæki eru undanþegin virðisaukaskatti og þetta er leið til að fá þau til að leggja í púkkið. Ég skil auðvitað áhyggjur hans af tilvist sparisjóðanna en það er auðvitað líka á ábyrgð þeirra í hvaða stöðu þeir eru. Ég held reyndar að það álit hans að engin hætta sé á áhættusækni þessara fyrirtækja í náinni framtíð sé ekki rétt, ég held að allt of skammur tími sé til að ætla það. Mér finnst einmitt ýmislegt benda til að þessi fyrirtæki séu aftur farin að verða áhættusækin þannig að ég held að það borgi sig að hafa varann á.

Fyrst og fremst langar mig að vita hvort hv. þingmanni finnst óeðlilegt að fyrirtækin komi með í þetta verkefni og þá með hvaða hætti.