140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þar sem hann nefndi, að ég hefði mestan part lesið upp úr álitum nefndarinnar, þá vill nú svo til að við skiptum með okkur verkum í þinginu og skoðanir mínar í þeim efnum sem rakin eru í þessum þremur nefndarálitum fara einfaldlega saman við áherslur nefndarinnar. Ég sé ekkert óeðlilegt við að menn nýti sér þá vinnu sem unnin er á vettvangi þingsins. Til þess erum við með nefndirnar, til að hægt sé að sérhæfa sig og fara í gegnum þau flóknu mál sem þar eru undir og þetta er eitt þeirra.

Ég deili skoðunum ekki bara með minni hlutanum í þessu efni heldur líka, þegar maður er búinn að rúlla í gegnum þetta, með stjórnarmeirihlutanum í nefndinni. Hann er að mínu mati í þeirri stöðu að hann nær ekki að breyta frumvarpi ríkisstjórnarinnar um fjársýsluskattinn jafnmikið og hann vill, það les ég út úr áliti hans. Með öðrum orðum, frumvarpið er meingallað að mínu áliti og ég finn rökstuðning fyrir því í nefndarálitunum þremur.

Hv. þingmaður spyr hvort ég sjái eitthvað því til fyrirstöðu að fjármálafyrirtækin taki þátt í að greiða úr þeim vanda sem við er að glíma. Ég vil minna hv. þingmann á að þau gera það með sérstökum skatti á fjármálafyrirtækin, gjaldi í tryggingasjóð, umboðsmanni skuldara, Fjármálaeftirlitinu. Þetta er milljarður á milljarð ofan, hvar ætla menn að stoppa? Að mati ríkisstjórnarinnar er endalaust hægt að ganga í þennan sama sjóði en ég held að flestir séu orðnir sammála um að þetta sé að verða fullgott. (Forseti hringir.) Það skal bent á að þetta eru ekki ótæmandi sjóðir. Það eru aðrir sem greiða þetta og það eru viðskiptavinirnir.