140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það þannig að ég hef enga trú á að fjármálafyrirtækin eða eigendur þeirra skulum við segja, og þá vil ég helst nefna viðskiptabankana sem eru að stærstum hluta í eigu erlendra kröfuhafa — það eru litlar líkur á að þeir aðilar séu tilbúnir til að gefa eitthvað eftir af hagnaði sínum eða þeim gróða sem þessar stofnanir eru að skaffa þeim í dag.

Ég velti fyrir mér hvort það séu þá ekki líkur á að — ef ekki duga uppsagnir, ef farin verður önnur leið — kostnaðinum við þetta verði velt með einhverjum hætti á viðskiptavini, og að fyrirtækin og einstaklingarnir sem skipta við þessar stofnanir muni á endanum borga þennan kostnað, þ.e. ef ekki verður farið í þær aðgerðir að segja upp fólki eða fara í verktakasamninga eða eitthvað slíkt. Ég hef enga trú á að fjármálastofnanir muni sitja með hendur í skauti og láti aukinn kostnað fara af mögulegum hagnaði sínum.

Ef við viljum að fjármálageirinn borgi meira til samfélagsins — reyndar er ég þeirrar skoðunar að það hefði verið nær að taka eignasöfnin þegar nýju bankarnir voru stofnaðir, og sem skapa þeim mikinn gróða, og veita því til samfélagsins og lækka lán heimilanna — þá má spyrja hvort það sé betri leið að skattleggja meira mögulegan hagnað þessara fyrirtækja en launahlutann eins og nú er — hvort tveggja er reyndar ekki gert, virðist vera, þ.e. að sleppa alveg launahlutanum og fara bara í hagnaðinn.