140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veltir upp eru margir fletir á þessu máli. Ég held hins vegar að niðurstaðan sé sú, eins og hv. þingmaður kom aðeins inn á í andsvarinu, að ef ekki er farin sú leið að segja upp starfsfólki vegna áhrifa skattsins þá mun, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, þetta gerast með þeim hætti, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að annað hvort muni draga úr vaxtamuninum á innlánunum frá bankastofnuninni, fjármálastofnuninni, og seðlabankainnstæðunnar, það sem maður borgar til viðkomandi einstaklinga eða lífeyrissjóða.

Í öðru lagi, ef viðskiptabankinn gerir þetta ekki með þeim hætti sem hv. þingmaður er að spyrja mig um, mun hann jú auka álagið á vextina þegar hann lánar út annaðhvort til fyrirtækja eða einstaklinga. Og það sjá allir að ef þú eykur álagið — vextir hafa nú aldrei verið lágir á Íslandi, alla vega ekki í mjög, mjög langan tíma — og lánin verða dýrari þá dregur það úr getu aðila að fara í stofnun og rekstur á fyrirtækjum þegar einmitt þarf að byggja upp atvinnulífið, skapa störf og auka fjárfestingu. Það kemur auðvitað þá í hinn endann og dregur úr því að sköpuð verði störf, þannig að þetta snýr allt að því.

Síðan geta menn rætt endalaust, og ég kom aðeins inn á það í ræðu minni, hvort æskilegt hefði verið að menn skoðuðu það betur, af því að nú er þessi pólitíska yfirlýsing, þó að hún sé ekki formlega samþykkt í lögum á þinginu, um að það sé ríkisábyrgð á innstæðunum. Ég hefði talið miklu gáfulegra að menn hefðu þá rætt um einhvers konar ábyrgðargjald vegna þess að þá væri það á innstæðunum hjá þeim aðilum sem ættu þær, og þá þyrftu þeir að borga það. Ef einstaklingur ætti 200 milljónir í banka og þyrfti að borga fyrir það ábyrgðargjald væri það á inneigninni og eigninni sem hann á, en ekki einhver veltuskattur, fjármálaskattur á atvinnu fólks sem vinnur í bankanum. Ég hefði talið að það hefði átt að skoða mun frekar.