140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef lengst af haldið að stjórnmál snerust ekki endilega um markmiðin heldur miklu frekar um leiðirnar, við værum almennt öll sammála um að það sem fyrir okkur vakti væri að skapa betra mannlíf í landinu, bæta lífskjörin, fjölga störfum, búa þannig um hnútana að betra yrði að búa á Íslandi en verra. Hér gætu fleiri fengið störf við sitt hæfi, hér gætum við reynt að vinna að því að bæta lífskjörin þó að við værum ósammála um það hvernig við ættum að fara að því.

Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á minni ríkisafskipti, lægri skatta. Vinstri menn hafa viljað fara aðrar leiðir. Hér hafa verið fluttar miklar og lærðar ræður um að hægt sé að sýna fram á að það sé miklu betri leið, til dæmis við þær aðstæður sem við búum við núna, að hækka skatta og nota fjármuni frá ríkinu til að drífa upp atvinnustarfsemi sem ríkið hefði með einhverjum hætti atbeina að eða gæti beint kröftum sínum að. Mig rekur til dæmis minni til að í greinargerð með einhverri af 200 skattatillögum ríkisstjórnarinnar sem litið hafa dagsins ljós á þessu kjörtímabili hafi verið flutt mjög mikil og sannfærandi rök fyrir þá sem vilja trúa slíku að það sé einmitt betra að hækka skatta til að ná því markmiði að bæta umhverfið í landinu, ekki bara til að jafna lífskjörin heldur líka til að búa til störf og bæta þannig lífskjörin. Þess vegna hef ég alltaf trúað því að átökin í stjórnmálum snerust ekki um markmiðin sem væru þau að bæta lífskjör og fjölga störfum svo dæmi sé tekið heldur snerist þetta um hvort við værum sammála eða ósammála um leiðirnar sem fara skyldi.

Nú liggur hins vegar fyrir merkilegt frumvarp, frumvarp til laga um fjársýsluskatt, þar sem segja má að farið sé miklu opinskár í þessa hluti. Hér er ekkert verið að skafa utan af því. Hér er ekki verið að halda því fram að með þessu sé verið að reyna að búa til störf eða bæta lífskjör, alls ekki. Þvert á móti er greint frá því í athugasemdum við frumvarpið að bókstaflega sé verið að stefna að því að gera lífskjörin verri eða fækka störfum. Ég ætla að lesa aðeins upp úr þessari greinargerð, með leyfi virðulegs forseta. Þar segir:

„Loks er viðbúið að fjársýsluskattur hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum. Fjársýsluskattur mun því draga úr líkum á óæskilegri þenslu innan greinarinnar.“

Þetta getur ekki verið skýrara. Markmiðið með fjársýsluskattinum eins og hann var kynntur í frumvarpinu er í fyrsta lagi að draga úr nýráðningum, sem þýðir hvað? Fækka störfum. Við vitum að í þessari atvinnugrein er starfsmannavelta eins og öllum öðrum greinum og það að draga úr eða koma í veg fyrir nýráðningar leiðir til þess að störfum fækkar. Með öðrum orðum, það liggur fyrir að markmið frumvarpsins er að fækka störfum í landinu.

Í öðru lagi er sagt að skatturinn sé til þess fallinn að draga úr launahækkunum. Með öðrum orðum, það sem frumvarpið segir okkur er þetta: Við viljum reyna að koma í veg fyrir að launin í fjármálastarfseminni hækki eða hækki að minnsta kosti minna en ella. Hér má því segja að maður geti vitnað í fræga barnagælu þar sem segir að litli putti spilamann hafi kjaftað frá. Hér er nefnilega kjaftað frá. Hér er okkur sagt purkunarlaust og umbúðalaust að markmiðið með frumvarpinu sé nákvæmlega það að fækka störfum og lækka laun.

Nú þurfum við ekki lengur að rífast um það hvort ríkisstjórnin hafi að markmiði sínu að bæta kjör. Það hefur hún ekki samkvæmt þessu. Við þurfum heldur ekki að rífast um hvort ríkisstjórnin vilji fjölga störfum, það vill hún ekki samkvæmt því sem segir í athugasemdum við frumvarp sem ríkisstjórnin stendur öll að og stjórnarflokkarnir hafa skrifað upp á. Nú þarf ekki frekari vitnanna við. Vitnið hefur verið leitt fram. Það er ríkisstjórnin. Hún hefur sagt okkur frá því að tilgangurinn sé að lækka laun og fækka störfum og þá bara vitum við það. Þá þurfum við ekki að fabúlera um það lengur. Þá opnast auðvitað fyrir manni ákveðin sýn. Þá fer maður að gera sér grein fyrir því til hvers refirnir voru skornir, af hverju ríkisstjórnin fylgir atvinnustefnu af því taginu sem við stjórnarandstæðingar og almenningur almennt í landinu höfum gagnrýnt. Við sjáum að þetta er allt saman hluti af víðtækri stefnumótun sem hefur þetta að markmiði. Þessa gætir auðvitað víðar. Verið er að leggja á sérstakan skatt í sjávarútvegi sem allir vita að mun hafa í för með sér að fyrirtækjum fækkar, þau munu sameinast, störfum mun fækka sem hefur þau áhrif að launin í fyrirtækjunum munu lækka því fyrirtækin verða að freista þess að draga úr öllum kostnaði sínum og þar fram eftir götunum.

Það vekur athygli mína nú þegar við ræðum þetta frumvarp að það lýtur að þriðju fjárlagagerð núverandi ríkisstjórnar. Það verður því ekki sagt að ríkisstjórnin hafi þurft að vaða fram í óðagoti án þess að hafa haft tóm eða tækifæri til að skoða afleiðingar þess sem boðað er í frumvarpinu. Ríkisstjórnin hefur haft nægan tíma til að íhuga það. Hún hafði það kannski ekki haustið 2009 en hún hefur sannarlega haft það fyrir haustið 2011. Þegar maður skoðar hins vegar í fyrsta lagi meginatriði umsagnanna sem meiri hluti hv. nefndar dregur fram og mat hans á þeim, blasir við að það er eins og menn hafi flaustrað mjög að undirbúningi þessa máls. Það verður enn þá betur ljóst þegar við förum yfir breytingartillögur meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þær segja okkur það og sýna að nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu, sem er hyggileg, að draga verulega úr ýmsum af þeim neikvæðu áhrifum sem frumvarpið í raun og veru boðaði.

Ég ætla aðeins að fara yfir hvernig meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar dregur fram meginatriði þessara neikvæðu áhrifa og byggir þar á umsögnum sem bárust nefndinni. Í fyrsta lagi er sagt að frumvarpið muni auka vaxtamuninn, þ.e. vextir á útlánum þurfa væntanlega annaðhvort að hækka eða innlánsvextirnir að lækka. Hvort tveggja hefur sömu áhrif, að auka vaxtamun. Bankarnir þurfi sem sagt að taka meira til sín af viðskiptum við einstaklinga og fyrirtæki. Þeir sem taka lán þurfa þá að búa við hærra vaxtastig og þeir sem leggja inn peninga til ávöxtunar þurfa að sæta lægri ávöxtun. Nú vitum við að eins og sakir standa eru vextir á innlánum afar lágir, og áhrif annarrar skattheimtu eins og t.d. fjármagnstekjuskatts sem nú hefur verið hækkaður eins og allir vita, tvöfaldaður frá því sem hann var, og jafnframt áhrif af auðlegðarskatti, eignarsköttum, og fleiru sem við getum nefnt, valda því að ávöxtun á innlánum er í mörgum tilvikum, sennilega jafnvel flestum, neikvæð. Þeir sem leggja inn peninga geta ekki lengur sagt: Græddur er geymdur eyrir, heldur þvert á móti.

Við heyrðum líka frá Alþýðusambandi Íslands að vandinn á Íslandi væri að hér væri vaxtastig of hátt. Hljóta menn þá ekki í skattalegri stefnumótun að reyna að minnsta kosti að tryggja að sú stefnumótun hafi þær afleiðingar í för með sér að vextir lækki fremur en hækki?

Það er líka sagt í samantekt meiri hlutans að frumvarpið muni leiða til minni hagræðingar og stuðla að verra samkeppnisumhverfi fjármálageirans. Það muni síðan hafa áhrif á fjárfestingarnar í landinu og auka á atvinnuleysið. Jafnframt til viðbótar er vakin athygli á því í greinargerð meiri hlutans að samkvæmt því sem umsagnaraðilar hafa bent á muni frumvarpið ekki samrýmast áformum sem uppi hafa verið um skattlagningu fjármálageirans á alþjóðlegum vettvangi. Þar hafa menn líka horft til þess að reyna að ná auknum tekjum af fjármálageiranum með tilteknum hætti en hér er bent á að það muni ekki takast vegna þess að við séum að fara allt aðrar leiðir en stefnt er að í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar áttar sig auðvitað á því að sitthvað er rotið í ríki Dana í þessum efnum og ýmislegt í frumvarpinu er þannig að ekki er hægt að búa við það. Þess vegna hefur meiri hlutinn sett fram tillögur til að reyna að koma í veg fyrir ýmislegt af þeim neikvæðu áhrifum sem óbreytt frumvarp hefði sannarlega haft í för með sér.

Nú skulum við fara yfir hvað meiri hlutinn leggur til. Í fyrsta lagi var ætlast til að þessi nýi fjársýsluskattur næði til lífeyrissjóðanna. Það var auðvitað bent á neikvæðar afleiðingar þessa fyrir lífeyrissjóðina og jafnframt bent á að hugsunin á bak við frumvarpið samrýmdist ekki því að láta skattinn ná til lífeyrissjóðanna. Meiri hlutinn leggur sem sagt til að horfið verði frá því að hann nái til lífeyrissjóðanna. Einhverjir bakþankar hafa greinilega komið upp varðandi skattprósentuna sem lagt var af stað með. Í upphafi var lagt til að skatthlutfall fjársýsluskattsins yrði 10,5% en meiri hlutinn leggur til að hann lækki hér um bil um helming og verði 5,45%. Hér munar ekki neinu smáræði. Það vekur auðvitað athygli í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur haft þrjú ár til að undirbúa þessa hugsun sína en eitthvað hafa heilasellurnar gengið hægt við undirbúning málsins því að þegar hinir vísu menn í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar skoða þessi mál komast þeir að því að ekki sé vit í því að hafa 10,5% skatthlutfall heldur 5,45% og munar nú dálitlu. Það segir manni þá sögu að farið hafi verið af stað í fullkomnu óðagoti og hugsunarleysi. Afleiðing þessa er síðan sú að skattheimtan sem átti að gefa ríkissjóði 4,5 milljarða mun gefa 2,25 milljarða; helmingi minni tekjur en menn höfðu áætlað í upphafi.

Nú má auðvitað segja sem svo að það sé bara jákvætt að Alþingi vinni með sjálfstæðum hætti, skoði mál af þessu taginu og ég ætla ekki að gagnrýna það út frá þeirri forsendu. En fyrst og fremst eru breytingartillögur meiri hlutans áfellisdómur um allt þetta verklag, undirbúning og hugsun, ef hugsun skyldi kalla, í frumvarpinu eins og það var þegar það fyrst leit dagsins ljós.

Það er líka gríðarleg hugsanavilla í frumvarpinu almennt. Ég veit að á bak við lá sú hugsun og hún hefur oft komið fram, að hægt væri að ná í meiri peninga frá fjármálastofnunum okkar, bönkunum okkar, í ljósi þess að þeir hafa verið að sýna glæsilegar uppgjörstölur. Stóru bankarnir þrír sem nú eru algerlega ráðandi á markaði, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, ráða ekki helftinni heldur nánast öllu í bankaþjónustu hér á landi og hlutur þeirra fer vaxandi í viku hverri, liggur mér við að segja. Þegar þeir voru stofnaðir var vel gefið á garðann, eins og við munum. Þá var tekin sú ákvörðun að færa lánasafn úr gömlu, föllnu bönkunum yfir til nýrra banka sem var verið að stofna. Það var gert þannig að fyrst voru eignirnar færðar myndarlega niður í bókum bankans og síðan kemur smám saman á daginn að eignirnar eru meira virði en þær höfðu verið bókfærðar í upphafi. Þegar það kemur í ljós verður til tekjufærsla í rekstrarreikningi bankans sem skilar sér núna í þessum margra milljarða hagnaði hjá hverjum banka fyrir sig í hverjum einasta ársfjórðungi. Þetta voru menn að horfa á en menn gættu ekki að einu. Þetta átti bara við risabankana þrjá. Þetta átti ekki við um litlu fjármálastofnanirnar okkar eins og t.d. sparisjóðina úti um landið. Þeir hrundu líka og voru endurreistir en fengu ekki veðgjöf af þessu taginu þar sem hægt var að vænta þess að eignirnar hefðu verið færðar á svo lágu, bókfærðu verði að það gæti skilað sér í stórkostlegum ávinningi í rekstrarreikningi bankans og síðar auðvitað á efnahagshliðinni líka. Sparisjóðirnir þurfa einfaldlega að slást í þessu erfiða umhverfi án þess að hafa fengið þessa meðgjöf, enda sjáum við núna hvert stefnir, hvað er að gerast.

Sparisjóðirnir sem einu sinni voru öflugar þjónustueiningar, staðbundnar fjármálastofnanir út um allt land, eru að týna tölunni. Þjónustustöðvum sparisjóða á Íslandi hefur fækkað um rúmlega helming á einu ári, þær voru 47 árið 2010 en eru núna orðnar rúmlega 20 og fer fækkandi. Tveir sparisjóðir að minnsta kosti eru í sölumeðferð núna og hverjir halda menn að séu líklegustu kaupendurnir? Hverjir hafa burði til að bjóða í þessa sparisjóði? Hverjir hafa fengið forskot til að bjóða í þá? Það eru auðvitað stóru viðskiptabankarnir þrír. Þeir einir eiga þennan góða séns. Aðrir munu örugglega freista þess en það kæmi mér ekki á óvart að það yrðu stóru viðskiptabankarnir þrír sem kæmu höndum yfir þá tvo sparisjóði sem nú eru í sölumeðferð. Það væri svo sem fróðlegt, virðulegi forseti, að inna eftir því t.d. hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvað væri að frétta af sölu þessara sjóða. Það er alllangt um liðið síðan tilboðsfrestur í þá, annars vegar í Eyjafirði og hins vegar á Austurlandi, rann út en enn þá hefur ekkert spurst til þess hvað hafi síðan gerst.

Við vitum líka að fleiri sparisjóðir eru í sigtinu, ef við getum orðað það þannig, og allt virðist þetta kerfi mala á einn og sama veginn, að mylja undir sig sparisjóðina, fækka þeim, draga úr þeirri fjölbreytni sem var í fjármálalífi okkar, draga úr þeirri samkeppni sem hefði verið svo nauðsynleg að veita stóru bönkunum á þeim sviðum sem sparisjóðirnir hafa sérstaklega sérhæft sig í, þ.e. á sviðum sem lúta að þjónustu við einstaklinga, þjónustu í nærumhverfinu, þjónustu við einstök fyrirtæki, ekki síst minni fyrirtæki, þar sem menn hefðu getað nýtt sér þessa viðskiptalegu staðarþekkingu til að þjónusta atvinnulífið og almenning á þeim svæðum sem sparisjóðirnir hafa starfað. Því verður sennilega ekki að heilsa. Ég óttast mjög að þessi þróun muni halda áfram og enginn vafi er á því að þetta frumvarp mun leggja þeirri þróun lið. Það ber auðvitað að játa að svona hættulegustu vígtennurnar að sumu leyti hafa verið dregnar úr frumvarpinu með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til en engu að síður mun þessi skattur, þegar til lengri tíma er litið, veikja þessar fjármálastofnanir.

Ég ætla að vekja athygli á því sem ég hef áður minnt á að frá árinu 2008 og miðað við óbreytt frumvarp eins og það hefði virkað á næsta ári má segja að það hefði í raun og veru leitt til þess að óbreyttu að gjaldtaka ríkisins, skattheimta ríkisins af hvaða toga sem væri, hefði fjórfaldast frá árinu 2008. Var stefnt að því? Er hugsunin sú að leggja sérstaklega gildrur fyrir litlu sparisjóðina þannig að þeir ættu sér ekki viðreisnar von? Ég sé reyndar af tillögu meiri hlutans að á menn hafa runnið tvær grímur og skal nú engan undra en hugsunin, ef hugsun skyldi kalla, var greinileg, stefnan var greinilega mörkuð. (Forseti hringir.) Það átti ekki bara að fækka störfum, það átti ekki bara að lækka launin, það átti líka að reyna að útrýma litlu fjármálastofnununum.