140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[18:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu þar sem hann fór vel ofan í helstu þætti þessa máls og það sem er gagnrýnivert við það.

Hv. þingmaður fór vel ofan í málefni sem tengjast sparisjóðunum og mikilvægi þeirra fyrir mörg hinna dreifðu byggðarlaga. Eins og hann kom réttilega inn á eru sparisjóðirnir og hafa verið í gegnum tíðina hornsteinn í héraði og hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki og miklu fjölþættara hlutverki en hefðbundnar fjármálastofnanir almennt gera, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu. Hjá þeim er oft mikil tenging inn til samfélagsins og samfélagsleg vitund sparisjóðanna er mun, mun meiri, þeir koma alla jafna fremur að verkefnum í samfélaginu og starfa á allt öðrum grunni.

Hv. þingmaður talaði um að hættulegustu vígtennurnar hefðu verið dregnar úr frumvarpinu, en frumvarpið er gagnrýnt mjög í minnihlutaáliti, bæði frá þingflokki sjálfstæðismanna og frá þingflokki framsóknarmanna. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvernig hann telur að sparisjóðakerfinu muni vegna almennt nái þetta frumvarp fram að ganga. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því mikla skilningsleysi sem ríkir á mikilvægi sparisjóðanna og heildarumgjörð í kringum þá eins og hefur ítrekað komið fram í tíð núverandi ríkisstjórnar?