140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[18:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn gætu kannski ályktað sem svo að eitt og sér mundi frumvarp af þessu taginu ekki velta stærsta steininum varðandi landsbyggðina. En þegar við setjum þetta í þetta samhengi eins og hv. þingmaður gerði sjáum við heildarmyndina, þá sjáum við mósaíkið allt. Þá sjáum við hvernig þetta birtist. Það er verið að veikja landsbyggðina á svo mörgum sviðum og hér er vegið að þessari atvinnugrein sem skiptir miklu máli.

Auðvitað má segja sem svo að sparisjóðir eins og aðrar bankastofnanir hafi fyrst og fremst það hlutverk að vera þjónustueining á fjármálasviði fyrir einstaklinga og fyrir fyrirtæki. Það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur að hafa slíka staðbundna þjónustu þar sem menn þekkja til aðstæðna og geta metið hlutina með allt öðrum hætti.

Til viðbótar hafa sparisjóðirnir gegnt samfélagslegu hlutverki, þeir hafa komið til skjalanna við margs konar uppbyggingu bæði á sviði heilbrigðismála, velferðar, menningar o.s.frv. og haft þar mikla þýðingu. Síðast en ekki síst er þetta atvinnustarfsemi. Við vitum að í gegnum tíðina byggðist upp heilmikil starfsemi á fjármálasviði og þá er ég ekki að tala um miklu bóluna sem varð í kringum útrásina heldur almennt í gegnum árin, og landsbyggðin sat mjög eftir í þeirri uppbyggingu. Bankastarfsemin byggðist að langmestu leyti upp á höfuðborgarsvæðinu. Ef við vegum að stoðum þessara litlu stofnana okkar á landsbyggðinni á fjármálasviðinu hefur það auðvitað þau áhrif að slíkt atvinnuframboð verður ekki til staðar og fólkið sem áður vann þarna getur ekki fundið vinnu við sitt hæfi og einfaldlega fer.

Það sem er svo alvarlegt í þessu frumvarpi er að hér er verið að stórauka skattheimtu sem ekki er afkomutengd. Ég ætla að taka dæmi. Sparisjóður Þingeyinga borgaði í heildarálögur árið 2008 13 millj. kr. Ef þetta frumvarp hefði náð fram að ganga væru það 57 millj. kr. Það er sem sagt fjórföldun, rúmlega fjórföldun, á skattlagningu þessa sparisjóðs (Forseti hringir.) sem hefur staðið af sér alla ágjöf og starfar núna algjörlega án stuðnings frá ríkinu. Þessi sparisjóður á sem sagt að taka á sig fjórföldun á skattlagningu í nafni réttlætis ríkisstjórnarinnar.