140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[18:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn eitt skattahækkunarfrumvarp og mætti segja, frú forseti, að þetta sé frumvarp um nýsköpun í skattahækkunum frá hæstv. ríkisstjórn. Fyrr í dag var atkvæðagreiðsla um hinn svokallaða bandorm þar sem fram komu ýmsir nýir skattar og hér er enn einn nýi skatturinn. Við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt þessa ríkisstjórn talsvert fyrir hugmyndaleysi og skort á frumkvæði en ég verð að segja að ekki vantar ríkisstjórnina hugmyndir þegar kemur að nýrri skattlagningu.

Hér er skattur sem heitir því frumlega nafni fjársýsluskattur. Við höfum rætt um auðlegðarskatt sem er náttúrlega ekkert annað en gamli eignarskatturinn sem var afnuminn vegna þess að hann þótti ósanngjarn og tvísköttun fólst í honum. Hann var endurvakinn undir heitinu auðlegðarskattur og svona mætti lengi telja, við erum með sturtuskatt og kolefnisgjald og kolefnisskatt og þar fram eftir götunum.

Það er með ólíkindum að horfa á þetta og upplifa þetta og það er líka með ólíkindum að sjá hvernig nafngiftum er beitt í þessari skattlagningu. Ríkisstjórnin talar ekki um skattahækkanir. Hæstv. fjármálaráðherra sver af sér allar skattahækkanir. Hér eru engar skattahækkanir nei, þetta kallast breytingar á tekjuhlið. Og núna síðast í bandormsumræðunum þegar hækkuð voru áfengisgjöld, tóbaksgjöld, bensíngjöld og olíugjöld hét það ekki skattahækkanir. Nei, þá var bara verið að láta skattstofnana halda sjó. Hvernig væri að kalla hlutina sínum réttu nöfnum? Hér er verið, með ótrúlegri hugmyndaauðgi, að búa til nýja skatta, hækka skatta sem fyrir eru og seilast æ dýpra í vasa íslenskra skattborgara, bæði heimila og fyrirtækja. Sú hefur verið mantran við þessa fjárlagagerð. Nú ræðum við tekjugrunn fjárlaganna sem samþykkt voru í síðustu viku. Mantran hefur verið sú að hér sé ekki verið að hækka skatta á venjulegt fólk, hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið því fram algerlega svellkaldur úr þessum ræðustól að ekki sé verið að hækka skatta á almenning.

Ég leyfi mér að halda því fram að skattur á fjármálafyrirtæki sem hefur ekkert með hagnað fjármálafyrirtækisins að gera eins og þessi skattur sem verið er að leggja á hér heldur er bara kostnaðarauki sem er algerlega óháður því hvernig til tekst í rekstrinum, sé ekkert annað en skattahækkun á almenning í landinu. Því hvernig mun fyrirtækið reyna að hafa upp í þennan aukna kostnað? Auðvitað með því að hækka þjónustugjöldin á fólkið, á viðskiptavini bankakerfisins, á mig og þig, á alla viðskiptavini hvort sem það eru stóru bankarnir, sparisjóðirnir sem voru til umræðu hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sem talaði á undan mér, tryggingafélög, lífeyrissjóðir og þar fram eftir götunum. Fólk er nefnilega í viðskiptum við þessi fyrirtæki. Það er algerlega óþolandi að heyra vinstri stjórnina og talsmenn hennar tala eins og það séu bara einhverjir hlutir úti í bæ sem skaffi tekjurnar og fólk komi ekki nálægt því. Þetta er alger vitleysa. Og skattkerfið undir stjórn þessa fólks er orðið svo flókið og illskiljanlegt að það er algert brjálæði að reyna að fylgjast með því hvaða breytingum það tekur frá degi til dags. Í umræðunni og við atkvæðagreiðsluna kom fram að með þeim breytingum sem voru samþykktar í dag væru skattbreytingar þessarar stjórnar að nálgast 200. Ein í viku var það fyrir daginn í dag, ætli þær séu þá ekki orðnar 1,5 í viku núna. En þetta skilar sér ekki í auknum tekjum vegna þess að það virkar ekki þannig. Það er ekki endalaust hægt að kreista skattstofninn vegna þess að hann er kvikur. Fólk breytir hegðun sinni, þegar útgjöld aukast á einum stað dregur fólk saman í útgjöldum annars staðar. Þetta er því ekki einföld jafna, það er ekki svo að með því að hækka skatta um 10% fái ríkissjóður auknar tekjur sem því nemur.

Það má margt um þennan nýja fjársýsluskatt segja og margt hefur þegar verið sagt í umræðunni. Þetta er stórt frumvarp og flókið og upphaflega var gert ráð fyrir að skatturinn skilaði hátt í 5 milljörðum í tekjum. Við lestur umsagna kemur algerlega gegnumsneitt fram að umsagnaraðilar eru mjög neikvæðir í garð þessa skatts. Ég ætla að grípa niður í nokkrar umsagnir. Hér segir í umsögn Fjármálaeftirlitsins sem er heilar fjórar línur, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið bendir á að engin tilraun er gerð til að leggja mat á möguleg áhrif fjársýsluskattsins á þau fyrirtæki sem um ræðir og fjármálamarkaðinn í heild sinni. Þá er heldur ekki lagt mat á möguleg neikvæð áhrif skattsins á neytendur. Fjármálaeftirlitið telur umrædda skattlagningu varasama af framangreindum ástæðum.“

Ég held að Fjármálaeftirlitið hefði ekki þurft meira en þessar fjórar línur til að sannfæra velflesta um að þessi skattlagning er ekki að gera sig, niðurstaða þess er að skattlagningin sé „varasöm“. Höfum við ekki hlustað á hæstv. ríkisstjórn tala um mikilvægi þess að styrkja Fjármálaeftirlitið, gera því kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu? Við höfum tekist á um fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins. Af hverju í ósköpunum hlustaði hæstv. ríkisstjórn ekki á varnaðarorð Fjármálaeftirlitsins sem eru meitluð í fjórar línur? Þetta eru ekki bölsýnisraddir frá stjórnarandstöðunni, þetta er Fjármálaeftirlitið.

Önnur umsögn vakti athygli mína, frá Bankasýslu ríkisins. Hún er heldur ekki hluti af stjórnarandstöðunni. Bankasýsla ríkisins er einmitt það apparat sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon setti á laggirnar til að halda rekstri bankanna í vissri fjarlægð frá ríkisstjórninni, vera faglegt apparat til að fara með eignarhlut ríkisins í fjármálastofnunum og undirbúa þær undir sölu og koma þeim í hendur einkaaðila á ný.

Í umsögn sinni byrjar Bankasýslan á að rekja fyrri hækkanir á álögum á fjármálastofnanir í tíð þessarar ríkisstjórnar og nefnir fyrst lög nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, þar sem gjaldstofninn var heildarskuldir fjármálafyrirtækja, síðan auknar álögur vegna aukinna inngreiðslna í Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Eftir að farið hefur verið í gegnum þennan aukna kostnað og erfitt rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja segir hér, með leyfi forseta:

„Af ofangreindu er ljóst að fjármálafyrirtæki eru misvel í stakk búin að takast á hendur greiðslur af skatti þeim sem lagður er til í frumvarpi til laga um fjársýsluskatt.“

Síðan er rætt í þessari sömu umsögn um afkomu sparisjóðanna. Því var gerð góð skil í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Hér kemur annar mikill aðdáandi sparisjóðanna í salinn, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Það er Bankasýslan sem talar í gegnum hv. ræðumann, ég er að lesa úr umsögn frá Bankasýslunni þar sem áhyggjur hennar af málefnum sparisjóðanna koma fram. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Afkoma margra sparisjóða er neikvæð. Skattur þar sem ekki er tekið tillit til hagnaðar fyrirtækisins samhliða launakostnaði mun leggjast þungt á sparisjóðina og því mögulega hafa áhrif á framtíðarrekstrarhæfi þeirra.“

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór vel yfir það áðan: Er markmiðið að drepa þá fáu sparisjóði sem eftir standa? Hér er að minnsta kosti enn einn naglinn í kistu þeirra. Síðan segir í lok umsagnar Bankasýslunnar og ég vek sérstaka athygli á þessu, þetta vakti athygli mína:

„Að mati Bankasýslunnar er mikilvægt að skoða af kostgæfni hvaða áhrif fyrirhuguð skattlagning hefur á afkomu fjármálafyrirtækja, sérstaklega þeirra sem ekki hafa tekið yfir eignasöfn hvers endurmat hefur jákvæð áhrif á afkomu tímabundið.“

Þarna segir Bankasýslan að ekki sé búið að skoða hver áhrif þessarar fyrirhuguðu skattlagningar eru eða bendir að minnsta kosti á að það þurfi að gera. Það er algerlega í samræmi við það sem fram kemur í umsögn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar er sérstaklega talað um að ekki liggi fyrir mat á því hver áhrif samþykkt þessa frumvarps kunni að vera á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja sérstaklega. Bankasýslan bendir hér á í umsögn sinni að afar mikilvægt sé að skoða af kostgæfni áhrif þess. En að sjálfsögðu er vaðið í þessa skattlagningu, vaðið af stað án þess að menn geri sér nokkra einustu grein fyrir hver áhrifin af henni geta orðið. Bankasýslan endar umsögn sína á að benda á ákveðna staðreynd sem henni er að sjálfsögðu eðlislægt að benda á vegna þess að hlutverk Bankasýslunnar er að fara með eignarhlut ríkisins eins og ég sagði áðan. Í lok umsagnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Á það skal bent að ríkissjóður er stór hluthafi í íslenskum fjármálafyrirtækjum og viðbótarskattlagning á þann flokk fyrirtækja kann að hafa neikvæð áhrif á seljanleika og verðmæti eignarhluta ríkissjóðs.“

Þarna er bent á að með þessari skattlagningu sé verið að rýra verðmæti eigna ríkisins. Ég mundi segja að þarna sé verið að færa úr einum vasa yfir í annan eða á skiljanlegra máli, það er einfaldlega verið að pissa í skóinn sinn vegna þess að þær tekjur sem gætu komið inn af þessum skatti eru fljótar að verða að engu þegar verðgildi þeirra eigna sem ríkissjóður hefur bundið mikið fjármagn í rýrnar. Mér finnst hreint með ólíkindum að ríkisstjórnin hlusti ekki á ráðleggingar frá þessum tveimur opinberu stofnunum, eftirlitsstofnunum. Maður skyldi ætla að ríkisstjórnin hlustaði á þær. En nei, þær eru algerlega hunsaðar og litið fram hjá varnaðarorðum þeirra.

Þær skattbreytingar sem orðið hafa í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa gert að verkum að skattkerfið er fullkomlega óskiljanlegt og við sjáum afleiðingarnar af því á hverjum einasta degi. Erlend fjárfesting er í algeru sögulegu lágmarki og það er ekki vegna þess að hér varð hrun, ekki vegna þess að við erum í efnahagslegum erfiðleikum. Nei, það er út af pólitískum óstöðugleika. Það er út af endalausum hringlandahætti, meðal annars með löggjöf um skattkerfið en líka vegna inngripa ríkisstjórnarinnar, ríkisvaldsins, stjórnvalda, í gerða samninga, vegna hótana um þjóðnýtingu og annarra slíkra atriða sem fæla erlenda jafnt sem innlenda fjárfesta frá því að veðja á íslenskt atvinnulíf sem hefur þó upp á svo gríðarlega mikið að bjóða. Við höfum endalausar auðlindir. Við höfum tækifæri, hér drjúpa tækifærin af hverju einasta strái. En með einbeittum vilja hefur ríkisstjórninni tekist að þrýsta fjárfestingarhlutfallinu niður í sögulegt lágmark.

Rétt í lokin langar mig að rifja upp, frú forseti, þegar ég flutti mína fyrstu ræðu á Alþingi, jómfrúrræðu mína. Ég tók þá þátt í umræðu um álverið í Straumsvík en það óskaði eftir því við íslensk stjórnvöld að vera leyst undan þeim fjárfestingarsamningi eða þeim skattasamningi innan hvers það hafið rekið starfsemi sína um áratugaskeið, í um fjóra áratugi. Árið 2007, ár sem menn hafa stundum í flimtingum og gantast með að hlutirnir séu svo mikið 2007 og það er skammaryrði, það ár var staðan þannig að álverinu í Straumsvík þótti staða sín betri innan íslenska skattkerfisins heldur en með sérsamningum sem gerðir höfðu verið fyrir áratugum síðan, uppfærðir reglulega og áttu að vera bestu kjör. Það var vegna þess að þáverandi stjórnvöld höfðu haft einbeittan vilja til að laga íslenskt umhverfi að því sem gerðist best í heiminum.

Vinstri stjórnin og stjórnarliðar nota hvert tækifæri til að koma hingað upp og tala af mikilli vandlætingu um að þetta hafi verið ástæða þess að bankarnir hrundu. En ég vil neita því og ég hef gert það áður í þessum ræðustól og geri það enn, það hafði ekkert með það að gera. Ég skal endurtaka það hvar sem er og hvenær sem er, að einfalt, skýrt, skiljanlegt og gegnsætt skattkerfi þar sem menn vita að hverju þeir ganga og ekki er verið að hringla með er margfalt betra til árangurs fallið en þetta óskiljanlega, þrepaskipta, ömurlega kerfi sem ríkisstjórninni hefur því miður tekist að byggja upp á ekki lengri tíma. Það er í rauninni sorglegt að sjá hversu mikið er hægt að skemma á stuttum tíma. Það er afrakstur þessarar vinstri stjórnar og þessi nýi fjársýsluskattur á ekki eftir að gera neitt annað en að fækka störfum, hrekja starfsemi úr landi sem við höfum svo auðveldlega tækifæri til að sinna og inna af hendi sjálf. Við höfum fólkið, við höfum þekkinguna. Eina vandamálið er að stjórnvöld vilja ekki þessa starfsemi í landinu, það er greinilegt því eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði áðan er markmiðið með þessu frumvarpi beinlínis að fækka störfum. Markmiðið hlýtur þá líka að vera, með kynjuðu hagstjórninni, að fækka kvennastörfum vegna þess að það eru ekki bankastjórarnir sem munu missa vinnuna út af þessu frumvarpi, það verða gjaldkerarnir, (Forseti hringir.) það verða þjónustufulltrúarnir, það verða konurnar í bönkunum.