140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég er með þessa hluti á hreinu er hugmyndin sú að lífeyrissjóðirnir greiði ekki þennan fjársýsluskatt. Hins vegar er tillaga um að leggja sérstakan skatt á lífeyrissjóðina enn þá í fullu gildi. Það sem mér finnst einna alvarlegast í því er að það virðist vera gert í algjöru ósætti við lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir hafa, að mínu mati, verið að mörgu leyti mjög stífir þegar kemur að því að semja um hluti, gert miklar kröfur og verið ósveigjanlegir þegar kemur að því til dæmis að leiðrétta lán heimila og þess háttar.

Þetta er vitanlega hugsað sem hluti af því að reyna að fá þá til að taka þátt í því með því að greiða niður vexti eða vaxtabætur eða hvað þetta kallast nú. En það er svo skrýtið að ríkisstjórnin virðist vera einkar lagin við að setja hlutina í hnút, að ná ekki að gera þá í sátt við þá sem í hlut eiga. Nú ætla ég ekkert að segja til um það, það getur vel verið að fram hafi farið mjög ítarlegar og miklar umræður milli ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna um hvernig hægt væri að gera þetta en ekki náðst samkomulag.

Það er hins vegar ljóst að lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin og aðrir í atvinnulífinu eru að miklu leyti búnir að fá nóg af ríkisstjórninni.

Það er vitanlega líka afar slæmt að við skulum ekki geta horft til framtíðar og sagt að samkeppni verði á fjármálamarkaði á Íslandi, þ.e. að mjög fjölbreytt val verði úti á landi og annars staðar. Við þekkjum það mætavel, margir þingmenn, (Forseti hringir.) að svigrúm, sérstaklega úti á landi, er afar takmarkað til þess að fá lán. Þetta eykur ekki möguleikana.