140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höfum rætt í dag frumvarp til laga um svonefndan fjársýsluskatt og eins og fram kom fyrr í dag, m.a. í máli fulltrúa okkar sjálfstæðismanna í efnahags- og viðskiptanefnd, að þar höfum við farið yfir 142 skattkerfisbreytingar. Við skulum ekki draga dul á það að þetta eru allt saman skattkerfisbreytingar sem eru annars vegar til þess fallnar að flækja kerfið og hins vegar til að auka álögur á fólk, fjölskyldur og atvinnufyrirtæki.

Það liggur ljóst fyrir að þetta er náttúrlega bara ein birtingarmynd þeirra mála sem skilja mjög á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þá á ég við að það er skýr stefna okkar sjálfstæðismanna að öllu máli skiptir að lækka skatta og gera skattkerfið einfaldara, eins og segir meðal annars í ályktunum okkar frá síðasta landsfundi, en ekki síður hitt að koma fólki til vinnu. Þetta er enn eitt dæmið um mál af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem hún gerir þveröfugt, þ.e. eykur skattálögur á fólk og fyrirtæki. Þegar menn fara yfir frumvarpið er alveg skýrt að það mun hafa í för með sér fækkun starfa, og þá aðallega starfa kvenna, hversu kúnstugt sem það kann nú að vera frá ríkisstjórn sem hefur lýst sér sem ríkisstjórn hinnar kynjuðu hagstjórnar. Við sjáum það í hverju málinu á fætur öðru, frú forseti, að farið er þvert gegn þeirri yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar. Allt tal um jafnrétti er hjóm eitt þegar kemur í reynd að stefnu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

Margítrekað hefur verið hér að breyta þurfi verklagi og það er náttúrlega svolítið merkilegt að ekki síst var mikið talað um það eftir að skipt var um ríkisstjórn. Ég get tekið undir að margt þyrfti að breytast, það er ekki málið. Einkum átti vinnulagið í kringum fjárlagagerðina að breytast en ef eitthvað er hefur sú breyting ekki orðið til hins betra heldur til hins verra. Af hverju segi ég það? Jú, af því að það liggur alveg skýrt fyrir að þegar við samþykkjum fjárlög var tekjuhlið frumvarpsins enn og aftur algjörlega órædd. Þess vegna segi ég að þetta undirstriki hugmyndafræðilegan ágreining á milli stjórnarflokkanna og Sjálfstæðisflokksins, við teljum að einfalda þurfi skattkerfið allt saman, einfalda kerfið, og koma styrkari höndum á vinnulagið og verklagið varðandi fjárlagagerðina alla. Til að mynda hefur verið bent á að við erum ekki að afgreiða ríkisreikning fyrir árið 2010 fyrr en seint og um síðir, núna á þessu ári, og sérstaklega hefur verið rætt um að það verklag þurfi að taka til endurskoðunar, fjárlaganefnd þingsins hefur ályktað um það. Það er ágætt en þá þarf að koma því í verk, ekki síst innan dyra hjá fjármálaráðuneytinu, í samræmi við vilja og anda þingsins.

Þess hefur verið getið að ríkisstjórnin hafði ekki vegið og metið áhrifin af þessu frumvarpi. Mér segir svo hugur um að ríkisstjórnin hafi metið það svo að það væri fínt að koma með frumvarp til laga um fjársýsluskatt á þessi vondu fjársýslu- og fjárumsýslufyrirtæki, það megi, eins og ágætur norðanmaður orðar svo fallega, pönkast á þeim og fólk muni taka undir það. Að mínu mati er það ekkert annað en ákveðið áróðursbragð hvernig menn hækka skatta og álögur á fjármálafyrirtæki. Það hefur í raun í för með sér, eins og ég gat um áðan, fækkun starfa. Menn skulu ekki halda að auknar álögur á fjármálafyrirtækin þýði ekki að vextir til viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna muni hækka. Þeir munu einfaldlega hækka. Og hverjir eru viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna? Það eru fólk og fyrirtæki í bænum og það sem fólk og fyrirtæki þurfa síst af öllu í dag eru auknar álögur. Tel ég skýrt að þetta mun þýða hærri vexti og aukin þjónustugjöld fyrir viðskiptavini bankanna.

Ríkisstjórnin treystir sér einfaldlega ekki til að segja blákalt: Jú, við erum að leggja fram enn eitt dæmið um skattahækkunarfrumvarp — eins og nefnt var eru skattkerfisbreytingarnar orðnar 142 — og þetta frumvarp hefur í fyrsta lagi í för með sér að störfum mun fækka, það verður aðallega sagt upp konum og vextir og þjónustugjöld viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna hækka. Þetta mun líka þýða færri nýráðningar innan fjármálafyrirtækjanna og minni sveigjanleiki verður til skuldaleiðréttinga hjá fólki og fyrirtækjum.

En þetta segir hæstv. ríkisstjórn náttúrlega ekki þegar hún kynnir þessi frumvörp heldur reynir að fela sig á bak við auknar álögur á þessi hræðilegu fjármálafyrirtæki sem eiga að vera starfandi hér á landi. Annars vegar reynir hún að réttlæta þetta og fá fólkið með sér á þeim grundvelli og hins vegar setur hún þetta fram undir merkjum norrænnar velferðarstjórnar. Ríkisstjórnin reynir að skýla sér á bak við hvernig málum hefur verið háttað í Danmörku. En margoft hefur verið sýnt fram á að við nánari skoðun kemur í ljós að það sem fjármálaráðherra vísaði til í upphafi, að þessi skattheimta væri að danskri fyrirmynd, var algjör misskilningur hjá ráðherranum. Hann hafið sem sagt ekki unnið heimavinnuna sína, hann sá einhvern skatt úti í Danmörku sem hann taldi sig hugsanlega geta notfært sér en vann síðan ekki eftir þeirri raunverulegu dönsku fyrirmynd sem er til staðar.

Í Danmörku er til dæmis ekki lagt tryggingagjald á fjármálafyrirtæki en þar er skattur lagður á laun og hlunnindi auk þess sem skatturinn telst þar til rekstrarkostnaðar og er þess vegna frádráttarbær frá tekjuskatti. Þetta er auðvitað mikilvægt. Í Danmörku greiða fyrirtæki ekki launaskatta en þau fyrirtæki sem ekki greiða virðisaukaskatt, t.d. í útgáfustarfsemi og heilbrigðisþjónustu, greiða þennan skatt auk fjármálafyrirtækja. Ríkisstjórnin fer því rangt með þegar hún segir að þetta sé að danskri fyrirmynd.

Allt ber að sama brunni. Ríkisstjórnin telur að hún geti ekki farið aðra leið en að hækka skatta, hún treystir sér ekki til að leiðrétta útgjöld þannig að sómi sé að heldur beitir sér frekar fyrir flötum niðurskurði. Mér finnst þetta oft vera spurning um hvort kemur á undan, eggið eða hænan. Við sjálfstæðismenn höfum margoft ítrekað að nýta þarf fjármunina betur og við höfum meðal annars sýnt það í efnahagstillögum okkar sem komu fram fyrr í vetur, við gerðum það á síðastliðnum vetri og þar áður líka. Við höfum lagt fram tillögur um hvað hægt er að gera til að draga úr ríkisútgjöldum annars vegar og hins vegar til að mæta þeim tímabundnu erfiðleikum sem við eigum í í efnahagsmálum. Þá þýðir ekki að fara í þær stórfelldu skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir.

Í því samhengi langar mig, með leyfi forseta, að draga fram ummæli Magnúsar Þórs Ásgeirssonar, fráfarandi framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, í viðtali við vikublaðið Akureyri sem kom út í vikunni. Mér finnst hann draga fram nákvæmlega það sem forsvarsmenn fyrirtækja hafa undirstrikað og ASÍ, Samtök atvinnulífsins og aðilar vinnumarkaðarins en ríkisstjórnin virðist akkúrat ekkert hlusta á. Miklu frekar að forustumenn ríkisstjórnarinnar fari einfaldlega í vont skap ef þessir aðilar leyfa sér að gagnrýna áætlanir ríkisstjórnarinnar og benda vinsamlega á að þær geti meðal annars hleypt kjarasamningum í uppnám. Á þessar gagnrýnis- og efasemdarraddir er einfaldlega ekki hlustað. Hvað sagði Magnús Þór Ásgeirsson? Hann sagði meðal annars þetta, með leyfi forseta:

„Ég hef séð í hælana á fjárfestum sem voru tilbúnir að koma hingað með fjárfestingar og atvinnustarfsemi, vegna umræðu ríkisstjórnarflokkanna um þjóðnýtingu fyrirtækja og eigna.“

Hann hefur sem sagt séð á eftir einstaklingum og fyrirtækjum, fjárfestum sem hafa hætt við að fjárfesta hér á Íslandi vegna þjóðnýtingarumræðu forsætisráðherra.

Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Geðþóttaákvarðanir, lögbrot ráðherra og endalausar og yfirvofandi breytingar á skattalögum gera það að verkum“ — þetta er mikilvægt — „að fyrirtæki treysta sér ekki til að fjárfesta á Íslandi í dag. Nýjasta upphlaupið vegna kolefnisskatts segir allt sem segja þarf.“

Þetta sagði Magnús Þór Ásgeirsson og reyndar margt fleira. Hann kom inn á athyglisverða þætti í tengslum við Grímsstaðamálið, sem taka má undir, með leyfi forseta:

„Ég hef bara séð vanþekkingu, útlendingahræðslu og uppblásinn þjóðernissósíalisma.“

Þetta er náttúrlega efni í aðra umræðu sem ég ætla ekki að taka undir þessum lið. Engu að síður dregur Magnús Þór fram í fyrri hluta viðtalsins að þessi skattstefna, þessi skattapólitík sem ríkisstjórn Íslands rekur, vinstri stjórnin, fælir erlenda fjárfesta frá því að fjárfesta hér með öflugum hætti og innlenda fjárfesta líka vel að merkja. Innlendir fjárfestar halda að sér höndum, erlendu fjárfestarnir koma ekki hingað. Enda er samkeppnin við Ísland næg. Við skulum ekki halda að þó að við séum raunverulegt eyland séum við það á hinum alþjóðlega grundvelli. En það er með það eins og svo margt annað, það er eins og ríkisstjórnin undirbúi það markvisst að gera Ísland að eylandi þegar kemur að fjárfestingartækifærum í uppbyggingarmálum varðandi fyrirtæki og fjölgun atvinnutækifæra. Þar er hægt að taka mörg dæmi, til dæmis eins og af hverju í ósköpunum er ekki hægt að taka þá ákvörðun að fara einfaldlega af stað með Helguvíkurframkvæmdina. Þrátt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir séu ósammála um þá mikilvægu framkvæmd verði farið af stað í hana því að það mundi skapa ótal störf og spara ríkissjóði um leið útgjöld og tekjur ríkissjóðs vegna beinna og óbeinna skatta mundu aukast verulega. Í þessu efni sem öðru vantar ákvarðanir og ýmislegt í þessum efnum humma menn fram af sér til stórkostlegs kostnaðar fyrir íslenskt atvinnulíf.

Hér í dag samþykktum við líka fleiri skatta og ég held að ekki séu ekki liðnir nema fimm, sex tímar síðan samþykkt var af hálfu meiri hluta þingsins, stjórnarflokkanna og ýmissa fleiri, að hækka álögur á tóbak, bensín o.fl. Það þýðir um 3–4 milljarða í auknar álögur á heimilin í landinu. Þetta er bara gert sisvona og ekki má einu sinni ræða þetta. Það má ekki undirstrika hvaða áhrif þetta hefur á verðlag og vísitölu og um leið áhrif á lán einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja.

Eina takmark ríkisstjórnarinnar virðist vera að koma með eins fjölbreytta skattstofna og hægt er, gera kerfið eins ógegnsætt og hægt er þannig að enginn átti sig á út á hvað þetta gangi annað en að koma sem mestu fjármagni í ríkissjóð og síðan verði útgjöldin löguð að tekjunum í staðinn fyrir að menn átti sig betur á hvernig útgjöld ríkisins eigi að vera.

Eins og ég gat um áðan höfum við sjálfstæðismenn ítrekað lagt fram tillögur um hvernig markvisst megi takmarka útgjöld ríkissjóðs. Á þær tillögur hefur ekki verið hlustað og okkur hefur verið klappað vinsamlega á kollinn og síðan veður ríkisstjórnin bara áfram og ekkert er látið reyna á samvinnu. Það þarf nefnilega að þora að fara í uppstokkun á kerfinu til að um raunverulegan sparnað sé að ræða. Þess í stað þarf ríkisstjórnin náttúrlega að fjármagna ýmis gæluverkefni sem hún hefur beitt sér fyrir og nú síðast fjölgun aðstoðarmanna. Þó að þar séu ekki um háar fjárhæðir að ræða eru það engu að síður 40 millj. kr. á ársgrundvelli. Það má nefna fjölmiðlanefnd og ýmis verkefni sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir útgjaldamegin, að mínu mati verkefni sem eru á engan hátt í forgangi. Stjórnmálamenn dagsins í dag verða að þora að segja hvernig þeir vilja forgangsraða. Það höfum við sjálfstæðismenn meðal annars viljað gera.

Í ályktun okkar um efnahags- og skattamál, og reyndar er komið inn á það í ályktunum okkar um menntamál, er meðal annars sagt að ekki þurfi eingöngu heildstæða stefnumótun í skóla- og heilbrigðismálum og fjölga rekstrarformum heldur beri einmitt að skoða gaumgæfilega kosti þess að stytta námstíma til stúdentsprófs með því að endurskoða framhalds- og grunnskólanám. Þetta hefur að sjálfsögðu verið gert og við vitum að Ísland, sem er innan OECD, útskrifar stúdenta miklu eldri en allar aðrar þjóðir. Það eitt að þora að segja: Já, við ætlum að taka það skref að fjölga stúdentum á skemmri námstíma en nú er, mun hafa stórkostlegan sparnað í för með sér fyrir ríkissjóð, um leið og ég fullyrði að ef þess er vandlega gætt að farið verði að þeim lögum sem nú eru í gildi mun menntunarstig á engan hátt versna við það. Við verðum að vera samkeppnishæf á öllum sviðum og þetta er meðal annars það sem við höfum bent á að muni skila raunverulegum fjárhæðum í sparnað í ríkisrekstri til lengri tíma.

Við sjálfstæðismenn höfum líka lagt mikla áherslu á að útgjöld hins opinbera skuli miðuð við skýr, mælanleg markmið og um leið verði til staðar ákveðinn hvati til árangurs. Við höfum líka bent á, en fjármálaráðherra hefur reynt að tala í kringum, að skatttekjur ríkisins og sveitarfélaga í hlutfalli við landsframleiðslu, og ég vil sérstaklega taka fram að það er að meðteknum lögbundnum iðgjöldum í lífeyrissjóði, eru með þeim allra, allra hæstu innan landa OECD. Fjármálaráðherra vill helst ekki taka með þessi lögbundnu iðgjöld í lífeyrissjóð af því að þá værum við neðar á því þrepi. En auðvitað verðum við að taka iðgjöldin með og það sem við greiðum og þetta leiðir til þess að skatttekjur hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu eru með þeim allra hæstu innan landa OECD.

Það er óumdeilt, hvað sem menn segja og telja, að skattar breyta hegðun og hafa áhrif á ákvarðanatöku einstaklinga, fjölskyldna, fjárfesta, stjórnenda og launafólks almennt. Þess vegna segjum við sjálfstæðismenn að ofurskattar, tekjutengingar og flókið skattkerfi eins og felst í þessu máli í dag, flækja kerfið. Það þýðir ekkert að segja, eins og um auðlegðarskattinn, að þetta sé hugsanlega bara tímabundið af því að ekki er hægt að treysta því. Það er ekki treysta því þegar vinstri stjórn er við völd og þess vegna þarf að kjósa.

Ofurskattar, tekjutengingar og flókið skattkerfi bitna nefnilega helst á þeim sem minna mega sín og eins og við vitum festir það fjölda fólks í fátæktargildru og hvetur ekki síður til svartrar atvinnustarfsemi. Við sjáum enn skýrari teikn á lofti um að þessi svarta atvinnustarfsemi sé að aukast, við erum að breyta hegðun í þessum efnum og fara 20 til 30 ár aftur í tímann. Er það það sem við viljum? Við sjálfstæðismenn höfum margoft sýnt fram á að með einföldu skattkerfi verður hvatinn til að stunda svarta atvinnustarfsemi nánast enginn. Einfalt skattkerfi leiðir til aukinna umsvifa fyrirtækja, svo eitthvað sé nefnt, sem leiðir síðan til aukinna tekna í ríkissjóð og ríkissjóður vex frekar en hitt.

Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað þá skoðun okkar að breyta beri þeirri skattstefnu sem nú ríkir, fyrst og fremst með það að leiðarljósi að auka samkeppnishæfni Íslands og framleiðni efnahagslífsins. Þetta er stóra myndin að mínu mati. Þetta frumvarp, eins og ég segi enn og aftur, er birtingarmynd hreint ömurlegrar skatt- og efnahagsstefnu sem ríkisstjórn Íslands hefur beitt sér fyrir á þeim tæpu þremur árum sem hún hefur verið við völd. Þetta er stefna sem við þurfum að berjast gegn af öllu afli og það gerum við sjálfstæðismenn.