140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um svokallaðan fjársýsluskatt sem er ein þeirra nýju skattbreytinga ríkisstjórnarinnar sem er til umræðu í dag. Það kom meðal annars fram í ræðum hv. þingmanna að frá því að ríkisstjórnin tók við væri búið að gera rúmlega 140 breytingar á skattkerfinu og með þeim sem stjórnin og stjórnarmeirihlutinn samþykkti í dag varðandi tekjuhlið fjárlaga og bandorminn svokallaða var talið af einhverjum að nú væru skattkerfisbreytingarnar komnar yfir 200. Er þá rétt að minna á orð hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta: You ain't seen nothing yet — eða: þið eruð rétt byrjuð að sjá breytingarnar, þegar hann fjallaði um þetta á fundi á skattadegi hjá Price Waterhouse Coopers fyrir tveimur árum. Það hefur greinilega verið laukrétt hjá hæstv. ráðherra.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að það væri skynsamlegra að vera með einfaldara og skilvirkara skattkerfi og höfum talið að hér væri gengið of langt og farið allt of geyst í að sækja tekjur til almennings í landinu og fyrirtækja sem eru nú þegar aðþrengd vegna stökkbreyttra skulda eftir hrunið en líka vegna þess að í landinu er enginn hagvöxtur og öll fyrirtæki landsins, fyrir utan þau sem stunda útflutning á auðlindum okkar eins og fiski og öðrum afurðum, búa við síminnkandi umsvif. Hér er enginn hagvöxtur heldur stöðnun og afturför í hagkerfinu.

Þessi fjársýsluskattur er eins og ég sagði áður einn af fjölmörgum nýjum sköttum sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefur lagt á. Fyrir nokkrum vikum komu fram hugmyndir hjá hæstv. fjármálaráðherra um að leggja svokallaðan kolefnisskatt á fast kolefni, þ.e. á hráefni iðnfyrirtækjanna í landinu, ekki kolefnisgjald á fljótandi eldsneyti heldur á hráefni fyrirtækjanna sem er algjörlega galin aðgerð, ekki síst í því ljósi að sá skattur átti að taka fyrst gildi á árinu 2013 og var kynntur til sögunnar hér vegna þess að ríkisstjórnin hafði gert samkomulag við stóriðjuna um fyrir fram greidda skatta út árið 2012, þ.e. 2010, 2011 og 2012. Á árinu 2013 átti svo að taka við evrópskt kerfi, svokallað ETS-kerfi, um losunarheimildir þar sem losun á kolefni yrði mæld og fyrirtækin, stóriðjan, mundu þurfa að kaupa sér kvóta sem yrði þá skatturinn. Aðrir sem ekki er hægt að mæla kolefnisútstreymið hjá og mengunina, eins og bílar og minni fyrirtæki, mundu greiða kolefnisskatt. Þetta kerfi er fyrirhugað að setja upp í Evrópu og hefur verið rætt um það á alþjóðlegum vettvangi um langa hríð.

Ríkisstjórninni og hæstv. fjármálaráðherra datt sem sagt í hug að leggja skatt á hráefni fyrirtækjanna. Þetta hefði í stuttu máli þýtt að járnblendið á Grundartanga hefði smátt og smátt gefist upp á rekstrarstarfsemi hér með tilheyrandi minnkandi hagvexti, auknu atvinnuleysi og minni útflutningstekjum. Auk þess voru þetta enn ein neikvæð skilaboð til fyrirtækja sem hugðust hefja starfsemi hér á landi, eins og kísilverið í Helguvík sem var komið með útboðsgögn í hendur og átti að bjóða út í sömu viku og þetta var kynnt. Það verk var komið á dagskrá, búið var að fjármagna það og semja við alla banka, en þá urðu menn einfaldlega að bakka og tefja þar af leiðandi verkefnið og sannfæra fjármögnunaraðila og alla þá sem tengdust verkefninu um að þetta hlyti að breytast, ríkisstjórnin hlyti að skipta um skoðun.

Þessi umræða kom auðvitað inn á þing og gat hæstv. fjármálaráðherra ekki í þessum ræðustól lýst því yfir án nokkurs vafa að þessi skattur yrði ekki lagður á og það kæmi ekki til greina heldur skildi hann málið eftir í þoku og óvissu. Málið var því tekið upp í atvinnuveganefnd þar sem við fengum öll fyrirtækin á okkar fund til að ræða það. Það verður að segjast eins og er að þau skilaboð sem komu úr fjármálaráðuneytinu voru eftir sem áður óskýr, en í því minnisblaði sem hæstv. fjármálaráðherra hafði sýnt á fundi með Samtökum atvinnulífsins stóð skýrum stöfum það sem síðan varð niðurstaðan í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar, ekki síst hjá minni hlutanum og meiri hlutinn gerði það að sínu, að afturkalla þennan skatt. Þetta er dæmi um eina af þeim mörgu skattbreytingum sem hefðu haft ótrúlega neikvæð áhrif í för með sér.

Ég verð líka að nefna skatt á eldsneyti. Í fjárlagafrumvarpinu í fyrra minnir mig að hafi verið gert ráð fyrir að umferð mundi aukast um 2% og þar með tekjur af eldsneyti. Staðreyndin er sú að umferð dróst saman um nærri 5%, eða 4,9%, vegna þess einfaldlega, frú forseti, að eldsneyti var orðið of dýrt, skattlagningin var orðin of mikil og fólk hreinlega dró við sig að fara á milli staða eða fara í heimsóknir og margir hverjir sem hafa þurft að keyra um langan veg til vinnu hafa þurft að velta því fyrir sér og jafnvel þurft að taka þá ákvörðun að skynsamlegra sé að gefast upp á þeirri vinnu eða flytja annað eins og svo margir hafa reyndar gert, því miður.

Ansi margir hafa valið að flytja til Noregs. Það kom fram fyrir nokkrum dögum að þetta ár — þrátt fyrir orð hæstv. forsætisráðherra sem taldi að sjö einstaklingar sem fara úr landi á dag væri bara eins og í venjulegu ári — er næstmesta fólksflóttaár héðan sem við höfum lifað. Flestir fara til Noregs og ég heyrði það í fréttum um daginn þegar verið var að tala við mann sem hafði búið þar í þrjú ár að tekjuskattsprósentan þar væri 36%. Hins vegar fara Norðmenn þá leið að vera með lægri prósentu fyrstu tvö árin fyrir þá sem flytja inn í landið, þ.e. 28% sem hækkar síðan í 32%, þannig að Norðmenn eru svo sannarlega að laða að öflugt og gott fólk til að viðhalda hagvexti hjá sér og tryggja að störf séu mönnuð. Margir Íslendingar hafa eðlilega stokkið á það.

Hér hefur ríkisstjórnin aftur á móti farið þá leið að hækka alla skatta, bæði nýja skatta eins og þann fjársýsluskatt sem hér er til umfjöllunar sem og aðra skatta. Það er rétt sem fram hefur komið og kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hér áðan og fleiri þingmanna sem hafa rætt að skattprósentan hér sé með því hæsta sem þekkist ef við leggjum lífeyrisiðgjöldin við. Við getum þá borið hana saman við til að mynda skattprósentuna sem ég nefndi í Noregi, en auðvitað vantar þar inn útsvar sveitarfélaga.

Þannig er ástandið, frú forseti, að þessar skattbreytingar hafa einfaldlega dregið allan mátt úr atvinnulífinu og seilst hefur verið ofan í vasa heimilanna í landinu sem voru illa stödd fyrir þótt ekki sé sífellt verið að auka álögur á þau, sem er svo sannarlega verið að gera í bandorminum sem við samþykktum hér í dag.

Um fjársýsluskattinn verður að segjast eins og er að þegar bæði umsagnir og nefndarálit sem liggja fyrir eru skoðuð virðast menn einfaldlega ekki, eins og því miður svo oft áður, allt of oft, hafa eytt nægilegum tíma og vinnu í það að athuga og skoða hver áhrif af samþykkt frumvarpsins kynnu að verða, sérstaklega á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja. Fram hefur komið að það muni koma sérstaklega hart niður á minni fyrirtækjum, sparisjóðunum ekki síst. Þá munum við halda áfram þeirri vegferð ríkisstjórnarinnar að segja fyrst og fremst upp konum eins og við þekkjum úr heilbrigðisgeiranum þar sem yfir 80% þeirra sem misst hafa störf vegna niðurskurðarins þar undanfarin þrjú ár voru konur. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þessi „kynjaða hagstjórn“ ríkisstjórnarinnar er ákaflega kynjuð. Ég hélt upphaflega að þessi kynjaða hagstjórn, sem er m.a. í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, mundi snúast um að auka hér bæði jafnrétti og ekki síst launajafnrétti, en þessi kynjaða hagstjórn virðist fyrst og fremst hafa beinst að því að fækka konum í störfum hjá hinu opinbera, sem er ákaflega sérkennilegt.

Ég nefndi sparisjóðina og svo að ég vitni hér í nefndarálit 2. minni hluta, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, fulltrúa framsóknarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd, þá segir hann, með leyfi forseta:

„Fyrirhugaður launaskattur mun hafa mikil áhrif á rekstur bankanna og skattlagning sem er ótengd afkomu kemur harðast niður á minnstu fyrirtækjunum, einkum litlum sparisjóðum. Sparisjóðirnir í landinu borga ekki nein ofurlaun og þessi skattur mun hugsanlega gera út af við sparisjóðina. Sparisjóðirnir eiga að vera hornsteinar í hverju byggðarlagi en með þessari skattlagningu er líklegt að starfsemi þeirra leggist af.“

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þegar hann spyr í sínu nefndaráliti:

„Hvað varð um loforð ríkisstjórnarinnar um endurreisn sparisjóðakerfisins?“

Voru það orðin tóm eins og svo margt annað sem menn tala um á fallegum dögum í ræðustólum hingað og þangað en engar eru efndirnar og jafnvel, eins og í þessu máli, akkúrat hið gagnstæða?

Framsóknarmenn hafa lýst því yfir að þeir vilji sjá fjölbreytni á fjármálamarkaði en ekki fábreytni og fákeppni þriggja stórra banka eins og allt stefnir í.

Svo að ég vísi aðeins í umsagnir aðila við hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra og meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar — t.d. umsögn Bankasýslu ríkisins sem var sett af ríkisstjórninni til að koma bönkunum armslengd frá stjórnvöldum. Það hefur reyndar margt gerst í því máli sem gerir það að verkum að menn hljóta að spyrja sig hvort það sé raunin því að þegar fjallað var um nýjan forstöðumann Bankasýslunnar virtist hlaupa veruleg pólitík í málið og þáverandi stjórn Bankasýslunnar varð á endanum að segja sig lausa frá starfinu og forstöðumaður eða forstjórinn sem þá var ráðinn gerði það einnig. Spurningin er hvort þeir sem voru ráðnir, frú forseti, í kjölfarið henti pólitískt betur núverandi stjórnvöldum og hvort það sé þá ekki lengur þessi armslengd á milli stjórnmálanna og umsýslu með bankastarfsemi í landinu, þ.e. Bankasýslunnar.

Bankasýslan taldi í umsögn sinni, svo að ég vitni til hennar, að skoða þyrfti af kostgæfni hvaða áhrif fyrirhuguð skattlagning hefði á afkomu fjármálafyrirtækja og sagði að skatturinn mundi leggjast þungt á sparisjóðina og mögulega framtíðarrekstrarhæfi þeirra.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er bent á að engin tilraun hafi verið gerð til að leggja mat á möguleg áhrif skattsins á fjármálamarkaðinn né heldur á neytendur og er skattlagningin talin varasöm. Þetta sannar það sem ég sagði fyrr í ræðunni að ekki hefði verið kannað nægilega hver áhrifin kynnu að verða af þessu frumvarpi.

Ríkisskattstjóri er heldur ekki hrifinn af þessu uppátæki hæstv. fjármálaráðherra og meiri hlutans og segir að nauðsynlegt sé að hafa samráð við aðila sem frumvarpið tekur til, en skortur hefur verið á því.

Það sem þó má segja meiri hlutanum til hróss er að í meðförum nefndarinnar, en minni hlutinn hefur auðvitað lagt sitt til þar og við framsóknarmenn sem höfum haldið sparisjóðunum hátt á lofti og þeirra rekstrarumhverfi, hafa verið lagðar fram breytingar sem eru sannarlega til bóta og lækka launaskattinn niður í 5,45% úr 10,5% og taka út það sem út af stendur eða það sem vantar upp á til að ná þeim tekjum sem fyrirhugaðar voru af þessum nýja skatti af umframhagnaði stóru bankanna, þ.e. hagnaði umfram 1 milljarð. Vonandi milda þessar aðgerðir fyrirhugaðar uppsagnir sem annars væru fram undan í sparisjóðakerfinu og hjá minni aðilum og fjármálafyrirtækjum. Þetta er nokkuð sem við hreinlega vitum ekki, frú forseti, vegna þess að það hefur einfaldlega ekki verið kannað nægilega vel.

Þegar þessar hugmyndir voru upphaflega lagðar fram var vísað til þess að skattheimtan væri að danskri fyrirmynd. En þegar frumvarpið var síðan skoðað af efnahags- og viðskiptanefnd og þingmönnum á Alþingi kom fljótlega í ljós að frumvarpið samrýmdist ekki hliðstæðri skattlagningu í Danmörku og byggði á allt öðrum forsendum. Frumvarpið samrýmist heldur ekki þeim áformum sem eru uppi á alþjóðavettvangi um skattlagningu fjármálageirans. Því hljótum við að spyrja hvort þarna sé um gönuhlaup fjármálaráðuneytisins og hæstv. fjármálaráðherra að ræða eða hvort tilgangurinn helgi meðalið, þ.e. „you ain't seen nothing yet“, þannig að ríkisstjórnin komist hreinlega ekki út úr þeim vítahring sem hún er í að leggja skatta á alla mögulega og ómögulega hluti og það sé einfaldlega heil deild í því að velta fyrir sér hvar sé hægt að bera niður næst til að finna nýjar matarholur. Það hefur komið fram hér í þinginu, frú forseti, í ræðum einstakra stjórnarþingmanna að eitt af því sem telja megi ríkisstjórninni til hróss sé hvað hún er dugleg að finna nýjar matarholur, þ.e. að finna nýjar leiðir til að skattleggja bæði heimili og fyrirtæki.

Varðandi þessa dönsku leið, svo að ég vitni enn og aftur til nefndarálits hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, fulltrúa framsóknarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd, þá segir hann, með leyfi forseta:

„Í upphafi vísaði fjármálaráðherra til þess að þessi skattheimta væri að danskri fyrirmynd. Við nánari skoðun kom í ljós að það var misskilningur hjá ráðherranum, frumvarpið er í grundvallaratriðum öðruvísi en hin meinta danska fyrirmynd. Í Danmörku er t.d. ekki lagt tryggingagjald á fjármálafyrirtæki en þar er skattur lagður á laun og hlunnindi auk þess sem skatturinn telst til rekstrarkostnaðar og er þess vegna frádráttarbær frá tekjuskatti. Í Danmörku greiða fyrirtæki ekki launaskatta en þau fyrirtæki sem ekki greiða virðisaukaskatt, t.d. af útgáfustarfsemi og heilbrigðisþjónusta, greiða þennan skatt auk fjármálafyrirtækja.“

Það er sem sagt allt annað kerfi, allt aðrar forsendur og hefur í raun og veru ekkert með þessa tillögu hæstv. fjármálaráðherra að gera. Hér er sem sagt farið rangt með og ekki tekur betra við eins og ég sagði áðan þegar vísað var til tillagna annarra alþjóðastofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.

Við framsóknarmenn höfum ítrekað það hér á þingi á undanförnum missirum að stefna ríkisstjórnarinnar sé röng, ekki sé hægt að komast út úr kreppunni með sífelldum niðurskurði og síauknum álögum á heimilin og fyrirtækin í landinu, skattahækkunum, þjónustugjöldum og gjaldskrárhækkunum, það sé ekki leiðin. Við höfum lagt fram tillögur sem við köllum plan B sem eru efnahagstillögur en einnig þingsályktunartillaga um sókn í atvinnumálum þar sem við leggjum til, frú forseti, að farin verði önnur leið, þ.e. að efla efnahag landsins, auka hér hagvöxt, fækka atvinnulausum með því að fjölga atvinnutækifærum og efla fyrirtækin sem fyrir eru í landinu því að aðeins þannig komumst við út úr (Forseti hringir.) kreppunni og aukum hér tekjur og útflutningstekjur ekki síst. (Forseti hringir.) Það er leiðin upp á við en ekki sú stefna sem hér er kynnt.