140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á það að menn hefðu haft áhyggjur af stöðu sparisjóðanna í landinu, sérstaklega þeirra minni sem eru hornsteinn í héraði, eins og oft er sagt.

Því langar mig að bera það undir hv. þingmann hver skoðun hans sé, vegna þess að nú eru sparisjóðirnir með lítil útibú dreifð víðs vegar um landið, hvort hv. þingmaður hafi áhyggjur af því, sem ég hef reyndar sjálfur persónulega, að þetta gæti orðið til þess að mörgum litlum útibúum sparisjóðanna á litlum stöðum úti á landsbyggðinni verði lokað. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hvaða áhrif það hefði á samfélögin og uppbygginguna og samfélagssamsetninguna.

Það er líka mikilvægt að rifja upp að margir sem hafa farið til stóru bankanna og óskað eftir að fá þar fyrirgreiðslu til að hefja atvinnurekstur og skapa þar með störf og byggja upp samfélögin sem þeir búa í úti á landsbyggðinni hafa oft og tíðum fengið neitun. En þekkingin á heimahögunum hefur einmitt verið mikil í þessum litlu útibúum þar sem menn hafa haft trú á einstaklingsframtakinu og getu einstaklinganna til að fara í ákveðnar framkvæmdir og hafa þess vegna lánað þeim að hluta til út á það, ábyrgum mönnum. Það hefur nefnilega oft gerst að þeir einstaklingar sem hafa fengið liðsinni til að mynda hjá sparisjóðunum en fengið höfnun í stóru bönkunum hafa oft á tíðum verið stólpar eða undirstaðan í atvinnuuppbyggingu á viðkomandi svæðum.

Spurningin er því þessi: Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að hugsanlega muni lítil útibú sparisjóðanna á landsbyggðinni leggjast af?