140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég heyrði reyndar ekki fyrri ræðu hans í þessari umræðu en hv. þingmaður talaði um að þetta frumvarp og raunar fleiri en þó sérstaklega þetta, væri aðför að sparisjóðakerfinu, sem rétt er, og að Samband íslenskra sparisjóða hafi látið þau orð falla. Enda kemur efni frumvarpsins einna harðast niður á litlu fjármálastofnunum.

Við hv. þingmaður sátum saman í fjárlaganefnd á síðasta ári þar sem rætt var um að láta fara fram sérstaka úttekt á byggðaáhrifum fjárlagafrumvarpa. Nú er það svo að ríkisstjórnin hefur mikinn áhuga á kynjuðum fjárlögum en engum dylst, eins og hv. þingmaður fór inn á, að þetta frumvarp gengur þvert gegn þeirri stefnu. Auk þess hefur ríkisstjórnin talað um mikilvægi þess að styrkja og efla byggðir landsins, en það verða einkum kvennastörf á landsbyggðinni sem munu gjalda fyrir efni þessa frumvarps og með því er sparisjóðakerfið sett í uppnám og þetta verður enn einn naglinn í líkkistu sparisjóðakerfisins ef ríkisstjórnin fær að halda áfram þessari vegferð.

Mig langaði að velta upp við hv. þingmann, þar sem ekki liggja neinar niðurstöður fyrir í þeirri byggðaúttekt sem fjárlaganefnd óskaði eftir á síðasta ári, á fjárlögum yfirstandandi árs, hvort hann telji ekki að ef fram færi byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpinu væri jafnvel hægt að koma í veg fyrir frumvörp sem þetta, og hvort hann telji ekki að slík úttekt mundi leiða í ljós neikvæð byggðaáhrif af þessu frumvarpi.