140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þess að allir flokkar í fjárlaganefnd féllust á það á síðasta ári að gerð yrði sérstök byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpi hvers árs, eins og hv. þingmaður kom inn á, þar sem m.a. yrðu skoðuð byggðaleg áhrif fjárlagafrumvarpsins á einstök byggðarlög, er ótrúlegt að sjá frumvarp eins og þetta koma fram þar sem beinlínis er ráðist, vil ég segja, mjög harkalega gegn undirstöðum sparisjóðakerfisins sem öllum er ljóst að er máttarstólpinn í mörgum dreifðum byggðum. Og þetta kemur ofan í niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, ofan í breytta forgangsröðun varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar sem harkalegast er vegið að litlum og meðalstórum sveitarfélögum á landsbyggðinni.

Hvaða aðferðir telur hv. þingmaður mögulegar til að breyta vinnulagi innan þingsins þegar þingnefnd á borð við fjárlaganefnd samþykkir að fram fari úttekt á byggðaáhrifum frumvarpa, þ.e. að sú úttekt fari fram? Hér er um að ræða frumvarp sem sannarlega hefði þurft að fara í gegnum slíka úttekt áður en það yrði samþykkt. Hvernig telur hv. þingmaður að hægt sé að koma því við að mál eins og þetta sem þingnefnd hefur samþykkt sé yfir höfuð unnið? Það er mjög alvarlegt þegar við horfum ítrekað upp á að menn slái einu fram í orði en öðru á borði. Hvernig náum við að snúa þessu við, hvernig getum við breytt um vinnubrögð hvað þetta snertir sérstaklega og hindrað að mál sem þessi komi fram í svona mynd?