140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson endaði síðara svar sitt hér áðan með tilvísun til vinnubragðanna sem átt hafa sér stað í sambandi við afgreiðslu á tekjugrein fjárlaga og þeim frumvörpum sem eru lögð fram til að byggja undir hana. Ég tek undir gagnrýni hans í þessum efnum. Það er ljóst að þó að margt hafi í sjálfu sér verið gagnrýnisvert á undanförnum árum og að lengi hafi verið þörf á því að bæta vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, skattalagafrumvarpa, hér í þinginu held ég að ástandið hafi aldrei verið jafnfurðulegt og á þessum desemberdögum, fjárlögin afgreidd í síðustu viku, gert ráð fyrir tilteknum tekjum frá tilteknum gjöldum, sem síðan koma fram í frumvörpum sem meira og minna komu ekki fram fyrr en um síðustu mánaðamót, mælt fyrir þeim í síðustu viku og nú er verið að afgreiða þau í snarhasti.

Eins og ég gat um í umræðum um bandorminn svokallaða, frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, í gær er þetta frumvarp þó skárra en mörg af þeim frumvörpum sem við fjöllum um þessa dagana að því leyti að það kom þó fram fyrir mánuði, það kom fram um mánaðamótin október/nóvember. Til að gæta sanngirni er rétt að geta þess að hæstv. fjármálaráðherra stóð sig betur en hann hefur stundum gert áður í sambandi við skattafrumvörpin, hann kom með þau nokkrum vikum fyrr inn í þingið en hann gerði 2010 og 2009; og ástæða til að hrósa honum fyrir það. Þar með er hrósinu eiginlega lokið því að flest annað í sambandi við þetta mál og aðdraganda þess er gagnrýnisvert.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða það en mér finnst hins vegar óhjákvæmilegt að geta þess að þetta frumvarp, eins og reyndar mörg önnur frumvörp sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á síðustu missirum, stenst engan veginn þær kröfur varðandi undirbúning og aðdraganda sem á yfirborðinu, í orði kveðnu að minnsta kosti, er samkomulag um að eigi að ríkja varðandi frumvörp frá ríkisstjórn. Eins og bent var á í umræðum um bandorminn í gær uppfyllti það frumvarp eiginlega ekki nein af þeim skilyrðum sem er að finna í gátlista í ágætri handbók um undirbúning og framsetningu lagafrumvarpa frá 2007 — og það sama má segja um þetta frumvarp.

Nú er það ekki svo að þegar handbókin var gefin út fyrir fjórum árum hafi hún verið sérstaklega umdeild, það fögnuðu henni allir. Hún var gefin út í samstarfi forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og skrifstofu Alþingis og allir fögnuðu, bæði stjórnarþingmenn þáverandi og stjórnarandstöðuþingmenn. (Gripið fram í.) Allir voru sammála um að það væri til mikilla bóta ef farið væri eftir þeim leiðbeiningum sem þar er að finna um það hvernig eigi að undirbúa mál.

Ríkisstjórnin sem nú situr hefur reyndar sett sér sínar eigin verklagsreglur í þessu sambandi sem að einhverju leyti eru byggðar á handbókinni en eru léttari eða einfaldari útgáfa af þeim viðmiðunum sem þar koma fram. Þetta var gert í september 2009, ef ég man rétt. Þau frumvörp sem við erum að ræða hér, skattafrumvörpin, þau uppfylla heldur ekkert þessi skilyrði sem ríkisstjórnin sjálf setti sér varðandi samráð, undirbúning, mat á áhrifum o.s.frv. Þetta er nauðsynlegt að taka fram.

Gagnrýnin á þessi frumvörp hlýtur að verða harðari en ella þegar þannig er staðið að málum. Enda, eins og getið hefur verið um í þessari umræðu, var nánast samhljóða gagnrýni frá öllum þeim aðilum sem um þetta frumvarp fjölluðu og sendu umsagnir til þingnefndarinnar. Gagnrýnin var margvísleg, hörð og vel rökstudd og hefur leitt til þess að meiri hlutinn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur séð sig knúinn til að breyta frumvarpinu í veigamiklum atriðum.

Ég er hins vegar ekki endilega farinn að átta mig á því hvort það er svo mikil breyting til bóta þó að um breytingu sé að ræða. Við fyrstu sýn er auðvitað skárra að horfið sé frá þeirri gríðarlega háu prósentu sem var í upphaflegu frumvarpi, 10,5% í skatt, sem átti að leggjast ofan á launagreiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja. Sú leið var geysilega slæm, geysilega hættuleg og hafði fyrirsjáanlega þau áhrif fyrst og fremst að leiða til þess að fjármálafyrirtæki leituðu leiða til að losa sig við starfsfólk og varla hefur það verið markmiðið. Auðvitað er skárra að sjá töluna 5,45% skattur í staðinn fyrir 10,5%. Engu að síður er um að ræða álögur sem bætast ofan á launakostnað fyrirtækja þannig að þó að hvatinn fyrir fjármálafyrirtæki til að segja upp starfsfólki sé ekki jafnmikill og var í upphaflegu frumvarpi er hann engu að síður enn fyrir hendi. Þetta er býsna þungt þegar horft er til allra annarra álaga sem fjármálafyrirtæki og raunar önnur fyrirtæki í landinu þurfa að standa undir. Þarna er viðbót sem leggst sérstaklega á launakostnað starfsmanna. Með þessu móti eru starfsmennirnir gerðir dýrari en ella og hvatinn til að fækka starfsmönnum er aukinn.

Það má raunar velta því fyrir sér hvort það er yfir höfuð eitthvert samhengi, einhver skynsemi, í því að binda skattlagningu af þessu tagi eitthvað sérstaklega við starfsmenn eða laun þeirra. Ég held að það sé atriði sem eigi að varast. En þarna hefur verið stigið skref til baka, þ.e. meiri hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd bakkar að þessu leyti og það er ágætt svo langt sem það nær. Í staðinn á reyndar að bæta við 6% skatti á hagnað fjármálafyrirtækja umfram tiltekin mörk eins og þar segir. Þar er á margan hátt um að ræða eðlilegri skattstofn, þ.e. það er á margan hátt eðlilegra að horfa til hagnaðar þessara fyrirtækja eins og fyrirtækja almennt þegar verið er að velta fyrir sér skattlagningu frekar en að horfa til þess hvað þau borga starfsmönnum sínum í laun.

Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því að sú hugmynd sem kemur hér inn á síðustu stigum málsins í þinginu sé ekki alveg skoðuð, þ.e. hvernig samspil þessara þátta verður og samspil við aðra skatta sem þessi fyrirtæki þurfa að standa skil á. Ég hef því áhyggjur af því að menn séu hér að taka ákvarðanir, verði þetta niðurstaðan, án þess að sjá fyrir hver áhrifin verða, hver áhrifin á þessi fyrirtæki verða, hver áhrifin á starfsfólkið verða, hver áhrifin á viðskiptavini þessara fyrirtækja verða, því að auðvitað leiða álögur á atvinnulífið afar oft til þess að verð á vöru og þjónustu gagnvart viðskiptavinum hækkar. Það er afar oft þannig. Þó að fyrirtækin standi skil á skattinum, greiði skattinn, eru það oft viðskiptavinirnir sem raunverulega bera skattinn. Skatturinn hefur þegar upp er staðið fyrst og fremst áhrif á viðskiptavinina.

Þetta eru atriði sem ég tel að þurft hefði að skoða gaumgæfilega. Það má í raun og veru velta því fyrir sér, eins og gert hefur verið í þessari umræðu hér í dag, hvernig á því stendur að þessi leið er farin í skattheimtu. Þeirri kenningu hefur verið haldið á lofti að ríkisstjórnarflokkarnir hafi kannski fyrst og fremst sett í skotlínuna skattgreiðendur sem telja mætti að ættu sér fáa vini í opinberri umræðu, stæðu illa gagnvart almenningsálitinu og væru þess vegna ólíklegri til að geta unnið stuðning eða samúð við sín sjónarmið. Menn hafa nefnt að skotmörkin í skattahrinunni sem nú stendur yfir, í þessum mánuði, séu í þessi tilviki fjármálafyrirtækin, í öðru tilviki stóriðja, í þriðja tilvikinu einstaklingar með sterka eignastöðu og í fjórða lagi sjávarútvegurinn. Það má vera að þetta sé leiðin hjá hæstv. ríkisstjórn, að reyna að finna hópa sem ekki njóta vinsælda í skoðanakönnunum, hjóla í þá og reyna að kreista sem mesta peninga út úr þeim óháð því hvaða efnahagslegu áhrif skattlagningin hefur.

Ég ætla svo sem ekki að staldra lengur við þann þátt en ég verð þó að segja að þó að ríkisstjórnin sem nú situr hafi sætt gagnrýni fyrir ýmsa hluti, aðgerðaleysi á ýmsum sviðum, hugmyndaskort og skort á frumkvæði og framtaki, þá er ekki hægt að ásaka hana fyrir slíkt á sviði skattamála. Hugmyndaauðgin á sviði skattamála hefur verið gríðarlega mikil eins og birtist í þessum skatti og fleiri sköttum sem hafa verið fundir upp, ef svo má segja, alla vega í íslensku samhengi, hér á síðustu missirum. Menn hafa búið til nýja skatta, í þessu tilviki er reyndar sagt að fyrirmyndin sé erlend, fyrirmyndin að frumvarpinu hafi verið danskur skattur, en bent hefur verið á það í meðferð málsins að töluverður munur er á. Þó að skatturinn hafi yfir sér sama yfirbragð og skattur með svipuðu nafni í Danmörku er hér um heimasmíð að ræða og sama má raunar segja um ýmsa aðra af þeim sköttum sem hæstv. ríkisstjórn hefur fundið upp á nú á síðustu missirum.

Við höfum verið að leika okkur að því, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að skjóta á hversu margar skattbreytingar hafi verið gerðar í tíð núverandi ríkisstjórnar og talningin var komin vel á annað hundrað. Ég læt það liggja milli hluta, ég hef ekki talið þetta nýlega saman sjálfur. Ég held hins vegar að sú fullyrðing standi sem ég hef áður haft á orði að um er að ræða afar mikinn fjölda skattbreytinga. Varla er til sá skattur í landinu sem ekki hefur verið hækkaður á undanförnu tveimur og hálfu ári og að auki hafa verið fundnir upp nýir skattar með nýjum nöfnum sem ekki voru til áður og eru notaðir til að auka álögur á einstakar greinar, á atvinnulífið eða á einstaklinga, og hafa þó nokkur hugmyndaauðgi, framtak og ákveðin klókindi birst í því.

Afleiðingarnar af þessari skattstefnu eru hins vegar þess eðlis sem við þekkjum, hv. þingmenn, að atvinnulífið í landinu er því miður enn þá í hægum snúningi. Það má segja að við séum kannski hætt að síga niður á við, við erum hætt að fara niður brekkuna, en hvenær getum við farið að spyrna við og spyrna okkur upp aftur? Nýjustu hagtölur sem menn hafa bent á og byggja annars vegar á nánast einskiptisútflutningstekjum af makríl og einhverju slíku og hins vegar af aukinni einkaneyslu eru ekki varanleg forsenda hagvaxtar hérna. Það er ekki varanleg forsenda þess að atvinnulífið skapi meiri verðmæti. Það er ekki varanleg forsenda þess að hér verði meira til skiptanna fyrir alla, fyrir einstaklingana, borgarana, heimilin, fyrirtækin og þá á endanum líka hið opinbera, ríkissjóð. Kakan er eiginlega ekkert að stækka, það er ekki verið að bæta í, það er ekki verið að auka verðmætasköpunina, það er ekki verið að leggja grunninn að verðmætasköpun sem getur gert það að verkum að við Íslendingar náum okkur upp úr öldudalnum á næstu árum, því miður.

Þó að sá skattur sem hér er á ferðinni sé ekki stór í heildarsamhenginu er hann enn einn bagginn, enn einn böggullinn, ef við getum orðað það svo, sem lagður er á skattgreiðendur í landinu og þar af leiðandi enn eitt skrefið í ranga átt, hæstv. forseti. Þó að breytingar sem hv. meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur gert séu trúlega til bóta þegar upp er staðið, að einhverju leyti til að flækja þetta en að einhverju leyti til bóta skulum við segja, eru menn með því að samþykkja þessa skattheimtu, þennan nýja skatt, að tefja fyrir, nánast með opin augun, uppbyggingu íslensks atvinnulífs sem við þurfum svo sárlega á að halda. Þetta er atriði sem tefur og truflar uppbygginguna í landinu en hjálpar ekki til, svo mikið er víst.

Sama á við um svo marga af þeim sköttum sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir að væru samþykktir í þinginu á tveimur og hálfu ári. Ég hef nefnt að skattahækkunarhrinurnar af völdum núverandi ríkisstjórnar hafi verið fjórar, þetta er fjórða hrinan. Við upplifðum skattahækkunarhrinu í júní 2009, desember 2009, desember 2010 og svo núna. Og þó að þetta skref, eða sá pakki sem við erum að takast á við þessa dagana, sé ekki stór í samhenginu, kannski heildartekjuöflun fyrir ríkið upp á 9 eða 10 milljarða, er engu að síður um að ræða álögur sem bætast við þær skattahækkanir sem hafa verið á undanförnum árum. Þetta er ekki í staðinn fyrir þær, þetta er ekki í staðinn fyrir neitt, þetta er viðbót. Það er búið að hlaða upp skattahækkunum á síðustu árum og hættan er sú að ef við höldum áfram á sömu braut náum við okkur ekki upp úr öldudalnum, við náum okkur ekki á strik, við náum ekki að búa til þá viðspyrnu sem íslensk þjóð, íslenskt efnahagslíf, þarf á að halda til þess að bæta hér lífskjörin, bæta starfsskilyrði atvinnulífsins, bæta kjör heimilanna og þegar upp er staðið bæta stöðu ríkissjóðs með varanlegum hætti til framtíðar.

Staðreyndin er sú að ríkissjóður getur ekki lifað góðu lífi til langs tíma nema skattstofnarnir séu traustir, nema skattgreiðendur hafi það gott, svo að við tölum mannamál, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fjölskyldur eða fyrirtæki. Ef einstaklingarnir, fyrirtækin og heimilin hafa það gott nýtur ríkissjóður þess þegar upp er staðið, en ef ríkissjóður gengur of hart fram í því að skattleggja heimilin og fyrirtækin í landinu er hann að vissu leyti að eyðileggja forsendurnar fyrir velferð sinni og hagsæld til framtíðar. Til þess að stuðla að varanlegri velferð, til að stuðla að varanlega sterkum stoðum fyrir þá þjónustu sem við viljum greiða úr sameiginlegum sjóðum verðum við að gæta hófs í skattlagningu. Það hefur núverandi ríkisstjórn, núverandi ríkisstjórnarmeirihluti hér í þinginu, alls ekki gert.