140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var mjög góð. Hann fór vel yfir málið og þá óvissuþætti sem eru í því og almennt um vinnubrögðin og heildarstefnu ríkisstjórnarinnar í þessu og fleiri málum. Hv. þingmaður byrjaði að fjalla um hve ótrúlegt það væri í rauninni hvernig við verðum ítrekað vitni að því — sem er alveg hárrétt — að farið er gegn öllum vinnubrögðum við vinnslu lagafrumvarpa og vitnaði hann til bókarinnar Handbók um vinnslu og frágang lagafrumvarpa. Í umsögnum um þetta mál er það mjög gagnrýnt.

Við sjáum það ítrekað hér, og sáum það ekki síður í bandorminum svokallaða sem var afgreiddur í morgun og hefur verið ræddur hér undanfarna daga, þessi handahófskenndu vinnubrögð sem hv. þingmaður fór svo vel inn á í ræðu sinni. Við sáum það til að mynda í kolefnisskattinum þegar ætlunin var að tvískatta fyrirtæki sem skipta gríðarlega miklu máli. Það birtist í frumvarpi án þess að fólk vissi af því, stjórnarþingmenn virtust ekki vita af þessu. Ekkert samráð var haft við umrædd fyrirtæki eða þá aðila sem þetta snerti. Það lá ljóst fyrir þegar farið var að kafa ofan í málið að þetta stóðst enga skoðun og um tvísköttun væri að ræða sem hefði stórlega skert samkeppnishæfni þessara fyrirtækja og í rauninni sett hundruð starfa í uppnám með beinum hætti og þúsundir með óbeinum hætti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann teldi mögulegt við þær aðstæður sem nú eru — það er erfitt að koma ríkisstjórninni frá, við höfum séð það — að koma því við að breyta þeim vinnubrögðum sem hér hafa ríkt (Forseti hringir.) og hversu langan tíma hann telji að þessi áhrif vari þegar verið er að setja fram svona handahófskennd vinnubrögð. Hversu langan tíma hefur þetta áhrif (Forseti hringir.) á fjárfestingar í atvinnulífinu eftir að svona lagað kemur fram?