140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason spyr mikilvægra spurninga, í raun og veru þyrfti ég aðra ræðu til að svara þeim. Ef ég ætlaði að reyna að svara af einhverri dýpt eða einhverju viti því sem hann spyr um þyrfti ég töluvert lengri ræðutíma.

Ég get tekið undir þau sjónarmið sem birtast í andsvari hans, þær áhyggjur sem birtast meðal annars af því hvaða áhrif skattstefna eða handahófskennd skattapólitík af því tagi sem við höfum upplifað núna undanfarin missiri hefur haft á fjárfestingu og atvinnulífið. Það er eitt af þeim atriðum, auðvitað ekki það eina, en eitt af þeim atriðum sem fjárfestar bæði innlendir og erlendir horfa til, hvort þeir geta vænst þess að skattumhverfið sé hagstætt og stöðugt en hvorugt skilyrðið er fyrir hendi á Íslandi í dag. Það mun taka okkur nokkurn tíma að endurvinna traust að því leyti.

Við Íslendingar og íslenskt atvinnulíf þurfum að hafa mikið fyrir því að ávinna okkur traust að nýju eftir hrunið haustið 2008, við skulum horfast í augu við það. En skattapólitík af því tagi sem rekin hefur verið núna í nærfellt þrjú ár er allra síst til þess fallin að auka það traust sem nauðsynlegt er að stjórnvöld og löggjafi í landinu njóti þegar kemur að skattamálum, alls ekki. Þetta er alls ekki til þess fallið að auka traustið heldur þvert á móti.