140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það eru orð að sönnu, eins og hv. þingmaður kemst að orði, að þetta sé vægast sagt handahófskennd skattapólitík sem er ríkjandi hér. Það veit bókstaflega ekki nokkur maður á hverju hann á von, hvort heldur það eru einstaklingar eða fyrirtæki. Menn vita aldrei á hverju þeir eiga von, bara í næstu viku. Þetta birtist okkur ítrekað í lagafrumvörpum og virðist vera laumað inn á síðustu metrunum.

Frú forseti. Það er gengið svo langt að meira að segja hagfræðingar sem alla jafna hafa haldið málstað ríkisstjórnarinnar á lofti og hafa ekki verið gagnrýnir á hana — t.d. lét Guðmundur Ólafsson eftir sér hafa ummæli nú í vikunni sem vart eru hafandi eftir í þingsal Alþingis í lýsingum sínum á skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Því er ekki með nokkru móti hægt að segja að hér sé um einhvers konar gagnrýni að ræða sem ekki er málefnaleg. Meira að segja menn úr röðum stjórnarflokkanna hafa verið að gagnrýna þetta.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og kom fram meðal annars í máli þess ágæta hagfræðings, Guðmundar Ólafssonar, í útvarpinu í vikunni þar sem hann gagnrýndi þetta mjög og sagði að vandi ríkisstjórnarinnar og félaga hans í ríkisstjórn væri sá að búið væri að skattleggja svo mikið að tekjurnar lækkuðu samfellt og þetta leiddi bara til þess að hækka yrði skattana meira á næsta ári. Erum við ekki löngu búin að ná þeim mörkum sem mögulegt er að fara yfir? Er ekki trúlegt að allar þær skattahækkanir sem verið er að leggja til núna muni einfaldlega hafa þau áhrif, eins og umræddur hagfræðingur sem hefur verið svo gjarn á að verja ríkisstjórnina bendir á, að við erum farin að elta skottið á okkur fyrir löngu síðan?