140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns óttast ég það. Ég óttast að skattlagningin sé farin að hafa skaðleg áhrif og muni hafa slík áhrif á tekjustofnana að þeir vaxi ekki og í sumum tilfellum jafnvel rýrni þegar til lengri tíma er litið. Þetta er hættuleg skattstefna að mínu mati.

Varðandi annað atriði sem hv. þingmaður vék að í andsvörum sínum og lýtur að vinnubrögðum og aðferðum held ég að nýrrar ríkisstjórnar bíði mikið verkefni, ekki bara við að vinda ofan af skattahækkununum sem slíkum heldur líka við að laga lagasafnið, laga skattalagasafnið, einfalda það, gera það skiljanlegra og skýrara, gera það notendavænna, svo ég taki mér orð í munn sem mér líkar ekki alls kostar við en lýsir þessu ágætlega, það verði þægilegra fyrir skattborgarana hvort sem þeir eru einstaklingar eða ábyrgðarmenn fyrir fyrirtæki og að þeir eigi auðveldara með að fylgja skattalögunum, flækjurnar verði minni. En þetta frumvarp, eins og svo mörg frumvörp sem frá hæstv. ríkisstjórn hafa komið, er þvert á móti til þess fallið að flækja skattframkvæmdina, skattlagninguna, gera hana ógagnsærri og erfiðari viðureignar fyrir þá sem eftir henni þurfa að fara.