140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég komst ekki hjá því að heyra andsvör og svör þeirra þingmanna sem voru að ræða saman núna rétt í þessu. Þar veltu menn því upp, meðal annars vegna þessarar skattaáráttu ríkisstjórnarinnar, vinstri stjórnar, hvort hin fyrsta hreina vinstri stjórn mundi endast kjörtímabilið. Ég hef sagt það nokkuð lengi að mjög mikilvægt er að stjórnin sitji út kjörtímabilið þannig að Íslendingar, þjóðin, fái að kynnast því á eigin skinni hvernig hrein vinstri stjórn starfar.

Við sjáum það á því máli sem við höfum fjallað um í dag, um fjársýsluskattinn. Fjársýsluskatturinn er vitanlega bara ein af þeim breytingum sem gerðar hafa verið. Ég velti því upp í framhaldi af þeirri umræðu sem var hér áðan að þegar settur er á nýr skattur sem þessi, þó að í orði kveðnu sé hann tímabundinn, hvort nýr fjársýsluskattur sem ætlaður er fjármálakerfinu kunni að hafa neikvæð áhrif víðar út fyrir fjármálaheiminn, fjármálaumhverfið. Þegar fyrirtæki, hugsanlega í nýsköpun eða iðnaði eða hvoru tveggja, sjá að settur er á skattur með mjög stuttum fyrirvara má velta því fyrir sér hvort umhverfið sem boðið er upp á, eins og rætt var um áðan, sé traustvekjandi þó svo að þeim skatti sé beint á mjög á sértækan geira, ef ég má orða það þannig. Hver eru þá skilaboðin? Vegna þess að við höfum svo oft fengið þær upplýsingar að þau skilaboð sem Alþingi, eða ríkisstjórnin réttara sagt — Alþingi ber náttúrlega ekki ábyrgð á þessu sem heild — er að senda séu mjög bagaleg.