140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er hægt að bregðast við þessum orðum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar öðruvísi en að taka undir þau. Hann setur þetta fram í spurningarformi og það er vissulega hægt að gera þá spurningu að fullyrðingu og segja: Áhrif skattheimtu og skattlagningar af þessu tagi eru auðvitað víðtækari en beinlínis kveðið er á um í því frumvarpi sem hér um ræðir. Það er hárrétt. Það er alveg hárrétt að hér er um að ræða mjög vond skilaboð út í samfélagið, út í atvinnulífið. Þetta eru skilaboð um það, eins og hv. þingmaður nefndi, þótt í spurnarformi væri, að menn geta átt von á því að forsendum reksturs sé breytt í verulegum atriðum án fyrirvara og án samráðs. Það eru ekki góð skilaboð.

En það er líka vert að hafa í huga að svona skattlagning hefur náttúrlega áhrif á fleiri en bara þá sem þurfa að standa skil á skattinum og greiða hann. Það er ekki þannig að fjármálafyrirtækin sitji endilega uppi með álögurnar, við getum orðað það svo, sem eru lagðar á þau. Það er ekki endilega svo því að hættan er auðvitað sú, eins og alltaf þegar atvinnurekstur er skattlagður, að skattlagningin muni leiða til hærra verðlags, kannski verri þjónustu á einhverjum sviðum, að minnsta kosti er sú hætta raunhæf. Það er raunhæf hætta á því að skattlagningu af þessu tagi verði með einum eða öðrum hætti velt út í verðlagið. Ég óttast því að á endanum verði það íslenskur almenningur sem þurfi að borga brúsann.