140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni um málsmeðferð og undirbúning þessa frumvarps um fjársýsluskatt. Miklu skiptir við alla löggjöf er snýr að sköttum og öðrum íþyngjandi gjöldum á borgarana að vel sé vandað til verka, fyrir liggi greining á afleiðingum gjaldtökunnar og skattheimtunnar, að menn geri sér ljósa grein fyrir því hvernig til hennar eigi að stofna, hver skattstofninn sé og áhrifum slíkrar gjaldtöku.

Augljóst má vera að þegar skoðuð eru nefndarálit, bæði meiri hluta og 1. og 2. minni hluta í málinu, að í meðförum nefndarinnar hefur komið fram mjög alvarleg og rökstudd gagnrýni á frumvarpið. Ég ætla að nota tækifærið og hrósa meiri hluta nefndarinnar fyrir að hafa hlustað á og tekið til greina athugasemdir frá minni hlutanum og þeim umsagnaraðilum sem kallaðir voru til til að veita umsögn um frumvarpið. Þess má sjá stað í nefndaráliti meiri hlutans en þar eru tíundaðar tillögur til breytinga og ábendingar sem samþykktar voru og eru í sjö liðum. Þó að við tökumst oft á á vettvangi þingsins um mál sem hér koma inn má alveg hrósa því sem vel er gert, að mark sé tekið á málefnalegum og rökstuddum athugasemdum og þeim síðan fundinn búningur í lagasetningunni.

Hættan er sú þegar um er að ræða slík handarbakavinnubrögð eins og við svo augljóslega urðum vitni að við framlagningu þessa frumvarps, að áhrifin, þó að þau séu leiðrétt síðar meir, séu til hins verra. Þetta sáum við til dæmis, frú forseti, þegar hér voru lagðar fram hugmyndir um skattlagningu á kolefni og koksi. Þær höfðu mjög alvarlegar afleiðingar og grófu undan og drógu úr trausti þeirra sem fjárfesta á Íslandi, drógu úr trausti á Alþingi og á ríkisstjórn og fyrirætlunum sem uppi eru í stjórn efnahagsmála. Augljóslega skiptir miklu að þeir sem fjárfesta á Íslandi geti treyst því að sérstaklega sé skattstefnan vönduð og menn fari fram með hófsemd og hafi lagt nákvæmlega niður fyrir sér tilgang skattheimtunnar og eðli hennar.

Við sem hér tölum og erum í minni hluta höfum svo oft rætt það í þessum sal og er ein helsta gagnrýni okkar á ríkisstjórnina, að henni hefur ekki tekist að búa þannig um hnútana eða stýra málflutningi sínum og tillögugerð þannig að hvatt sé til fjárfestingar í íslensku efnahagslífi. Enn og aftur sé ég ástæðu til að minna á að atvinnuvegafjárfestingin á árinu 2010 var í sögulegu lágmarki og á fyrstu níu mánuðum þess árs var atvinnuvegafjárfestingin sem hlutfall af landsframleiðslu 7,7%. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs var atvinnuvegafjárfestingin 8,4%. Augljóslega hefði þurft að verða myndarleg aukning í atvinnuvegafjárfestingunni og að heildarfjárfesting kæmist sem fyrst upp að að minnsta kosti 20% af landsframleiðslu. Meðan það gerist ekki, frú forseti, er sá hagvöxtur sem við höfum orðið vitni að það sem af er þessu ári, einkum og sér í lagi drifinn áfram af vaxandi einkaneyslu einhverra skuldugustu heimila í veröldinni, einkaneyslu sem til er komin vegna þess að heimilin í landinu eru að ganga á sparnað sinn, einkaneyslu sem til er komin vegna þess að lán hafa verið fryst, vegna þess að vextir hafa verið endurgreiddir og vaxtabætur auknar.

Hagvöxtur sem byggir á slíku er auðvitað stórlega varhugaverður og ætti að vera öllum mikið umhugsunarefni. Fjárfestingin snýr jú mjög að því að aðstæður sé réttar og að skattstefnan endurspegli þær áherslur ríkisvaldsins að hvetja atvinnulífið til fjárfestinga. Það er áhugavert, frú forseti, að líta til athugasemda í greinargerð um svokallaðan bandorm sem varð að lögum í dag. Ég ætla, með leyfi frú forseta, að lesa upp úr þeim en þar stendur:

„Lækkun tryggingagjaldsins ætti hins vegar að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna þar sem hún leiðir til lækkunar á tilkostnaði fyrirtækja sem gerir þau betur í stakk búin að greiða hærri laun, lengja vinnutíma eða fjölga starfsmönnum.“

Með öðrum orðum, lægri álögur á fyrirtækin hafa þessar afleiðingar: Hærri laun, lengri vinnutími, fleiri starfsmenn. Það er mikilvægt við þær aðstæður sem við búum við, nú þegar meira en 11 þúsund manns eru án atvinnu og 6 þúsund manns hafa flutt frá landinu á síðustu þremur árum. Þess vegna skiptir svo miklu máli að efnahagsstefnan og sérstaklega skattstefnan endurspegli þá áherslu sem ég gerði að umtalsefni, þ.e. að allt sé gert til að hvetja til fjárfestinga. Fjárfesting dagsins í dag er atvinna morgundagsins, eru laun morgundagsins og lífskjör morgundagsins. Ef svo fram heldur sem horfir og fjárfesting atvinnuveganna verður jafnlítil og raun ber vitni — og kannski rétt að nefna að á þriðja ársfjórðungi þessa árs, þó að menn eigi að fara varlega í að draga um of ályktanir af einstökum ársfjórðungum, dróst atvinnuvegafjárfestingin saman um ein 7,7% frá fyrri ársfjórðungi. Ekki má draga of miklar ályktanir af slíku en þetta er þó enn eitt viðvörunarmerkið sem nauðsynlegt er að horfa til. Þess vegna, frú forseti, er auðvitað áhyggjuefni þegar lagt er fram frumvarp sem er eins gallað og fram hefur komið. Það er staðfest með því að breytingarnar sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til eru eins viðamiklar og raun ber vitni.

Nú vil ég, frú forseti, víkja að einstökum efnisatriðum frumvarpsins og kennir þar ýmissa grasa, svo sem skattlagningu á fjármálafyrirtæki. Það er rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson benti á, að þau eru auðvitað ekki vinsæl fyrirtæki á Íslandi og má gefa sér að fyrra bragði að fáir verði til að mæla gegn slíkri skattheimtu. Það er þó nauðsynlegt að hafa í huga að eftir því sem við aukum skattana á slík fyrirtæki minnkar svigrúm þeirra til að skrifa niður skuldir. Það minnkar möguleika þeirra til að bjóða hagstæð lán og þróa starfsemi sína sem er svo mikilvæg vegna þess að hún er grunnurinn að allri annarri efnahagsstarfsemi í landinu. Öflugt og heilbrigt fjármálalíf er auðvitað mikilvægt fyrir hverja þjóð. Það er því rétt að hafa í huga að þó að skatturinn skili sér vissulega í ríkissjóð verður svigrúm bankafyrirtækjanna minna en áður til að standa að aukinni niðurfærslu skulda.

[Kliður í þingsal.] Reyndar er einnig nauðsynlegt að hafa í huga, frú forseti, að okkur hefur ekki miðað nægilega hratt í þeim efnum, við höfum ekki tekið nægilega fast á skuldavanda heimilanna. Það er augljóst að skuldastaða íslenskra heimila er alvarlegt efnahagslegt vandamál. Það er ekki bara vandamál þeirra heimila sem mestar hafa skuldirnar, þetta er vandamál allra heimila í landinu, þetta er vandamál þjóðarinnar allrar, því að skuldug heimili sem varla eiga fyrir afborgunum og hvað þá öðru munu ekki taka þátt í því, ekki á neinum heilbrigðum forsendum, að auka eftirspurn í hagkerfinu. Við höfum séð að undanförnu að þau heimili hafa gengið á sparnað sinn til að geta staðið undir eðlilegri neyslu. — Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að loka dyrunum þannig að sæmilegt hljóð gefist í salnum til að halda áfram ræðuhöldum.

Af hálfu minni hlutans er að réttu varað við öðru atriði í þessum tillögum en það er að með gjaldi af þessu tagi er hætta á að minni sveigjanleiki verði í fjármálastarfseminni og erfiðara verði að standa fyrir nýsköpun í þessari atvinnugrein. Á það hefur verið bent að stórum aðilum er hyglað umfram minni aðilana og þar með er innkoma á þennan markað gerð jafnvel erfiðari.

Það er mjög mikilvægt eins og ég gat um áðan, frú forseti, að við höldum áfram að þróa fjármálamarkað okkar af því að þrátt fyrir hið hörmulega hrun á fjármálamarkaði þarf enginn að efast um mikilvægi þess fyrir atvinnulífið í landinu að það sé stutt og lagður grunnur að því með öflugum og heilbrigðum fjármálamarkaði. Sú tegund af gjaldheimtu sem hér er lagt upp með kann að hafa þær afleiðingar, eins og bent er á í áliti minni hlutans, að nýsköpun verði erfiðari. Enn og aftur, frú forseti, það sem vantar í þetta frumvarp er að skynsamlegt mat hafi verið lagt á afleiðingar þessarar skattheimtu.

Jafnframt kann að vera að ein af afleiðingum þessa skatts verði sú að aukinn hvati myndist til að útvista starfsemi úr bönkunum og fjármálastofnunum. Geta menn þá velt fyrir sér hversu heppilegt það er eða óheppilegt, það fer eftir ýmsu. Á það hefur verið bent að með því hvernig skatturinn er lagður upp gæti hann haft þau áhrif að starfsmönnum fjármálastofnananna fækki og miðað við samsetningu vinnuaflsins þar geta konur frekar átt von á að lenda í uppsögnum eða niðurskurði og um leið verði þeirri starfsemi sem þarf að vinna ýtt út úr stofnunum. Þá er undir hælinn lagt hvers kyns þeir starfsmenn eru sem taka við þeirri starfsemi, en það er ekki víst að skynsamlegt sé að útvista stórum hluta af starfsemi bankanna til annarra aðila. Gjaldtaka eins og þessi kann hins vegar að ýta undir slíkt. Enn og aftur, skoða hefði þurft þessa hluti mjög nákvæmlega áður en haldið var áfram með þessa skattlagningu.

Reyndar er rétt að taka fram og ég vil endurtaka þakkir mínar og hrós til meiri hlutans, að þær breytingar sem voru gerðar og samþykktar af hálfu meiri hlutans, meðal annars þær að lækka prósentuhlutfallið, draga úr þessum vanda. Það er auðvitað skynsamlegra að skattleggja hagnað en kostnað eins og laun, það er mun skynsamlegra.

Úr því að ég nefndi vinnubrögðin og undirbúninginn er allt að því neyðarlegt, frú forseti, að í frumvarpinu er gert mikið úr því að þessi skattheimta eigi sér fyrirmynd í Danmörku og þetta sé því eðlileg þróun á fjármálamarkaði hér. Það kemur síðan fram í meðförum nefndarinnar að þetta sé í besta falli ofmælt og virðist vera misskilningur af hálfu þeirra sem smíðuðu frumvarpið. Þeir hafi annaðhvort ekki skilið danska fyrirkomulagið nægilega vel eða kynnt sér það nægilega vel en ekki hikað við að fullyrða í umsögnum og umfjöllunum um frumvarpið að svo væri í pottinn búið. Það er auðvitað, frú forseti, ámælisvert.

Annað þessu tengt er auðvitað það samráð sem þarf að vera um frumvörp eins og það sem við ræðum hér. Það er svo mikilvægt og það á að vera hægt í okkar fámenna landi, ekki stærra hagkerfi en raun ber vitni, að standa að svona lagabreytingum í góðri sátt og góðri samvinnu. Það á að vera hægt að gera það þannig að lagafrumvörp, þegar þau koma til þingsins, standist skoðun og séu þannig úr garði gerð að við getum treyst því ágætlega að þau muni virka. Framkvæmdarvaldið hefur satt best að segja mun betri tæki, meiri fjármuni og mun fleiri úrræði til að undirbúa lagafrumvörp en við í þinginu og á auðveldara með að kalla til og kaupa sér þjónustu til að skoða slíkt o.s.frv. Við eigum því að gera kröfu til þess að fá betur unnin frumvörp en þetta, þetta er eiginlega ekki boðlegt.

Það er reyndar svo að þegar kemur að samráði er saga ríkisstjórnarinnar ekki allt of góð, eins og við höfum séð í allt of mörgum málum. Þau stærstu hafa meðal annars snúið að hinum svokallaða stöðugleikasáttmála sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins lýstu margoft yfir að hefði verið brotinn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Forsendur kjarasamninga hafa verið mjög til umræðu. Skemmst er að minnast yfirlýsinga forustumanna Alþýðusambandsins um afgreiðslu á fjárlögum og áhrif þeirra á kjarasamninga. Fyrir liggur að í forsendum kjarasamninga var gert ráð fyrir að heildarfjárfestingin næði 20% á samningstímabilinu og augljóst má vera að við erum langan veg frá því að ná því markmiði því að á fyrstu níu mánuðum þessa árs var fjárfestingin í kringum 12% af landsframleiðslu. Samráðið þarf að vera miklu meira og traust á stjórnvöldum þarf að vera miklu meira, stjórnvöld verða að standa við yfirlýsingar sínar og áform sem aðilum vinnumarkaðarins eru kynnt og eru grundvöllur að ákvarðanatöku á þeim vettvangi.

Ég tel, frú forseti, að hér sé um að ræða frumvarp sem er því miður eins og mörg önnur frumvörp frá hæstv. ríkisstjórn sem hafa snúið að því að hækka álögur og gjöld á atvinnulífið, það gengur þvert gegn þeim orðum sem komu fram í athugasemdum um bandorminn, sem nú er orðinn að lögum. Þar kemur nefnilega fram sá ágæti skilningur á áhrifum þess ef til dæmis gjald eins og tryggingagjald er lækkað, þá verða fyrirtækin betur í stakk búin til að greiða hærri laun, auka vinnuframboðið, lengja vinnutímann og fjölga störfunum. Frú forseti, þetta á ekki bara við um tryggingagjaldið, þetta á við um alla aðra skatta,. það er ekkert sérstakt með tryggingagjaldið.

Það er svo skrýtið að sjá úr ranni hæstv. ríkisstjórnar þennan skilning í því máli og verða síðan vitni að stefnumótuninni í þessu frumvarpi um fjársýsluskatt, sem gengur þvert gegn því sem við þurfum að gera, sem er, enn og aftur, frú forseti, ég þreytist ekki á því að segja þetta, að auka fjárfestingu atvinnuveganna á Íslandi. Það er svo mikil hætta sem vofir yfir okkur ef við náum þeirri fjárfestingu ekki upp í hærra hlutfall af landsframleiðslu, það er svo gríðarleg hætta sem vofir yfir. Ábyrgð þeirra sem leggja fram þá efnahagsstefnu sem nú er fylgt er mikil því að hún mun draga úr möguleikum okkar Íslendinga til að bjóða þjóðinni þau lífskjör sem svo sannarlega er möguleiki á að séu í boði vegna þess að næg eru tækifærin sem þjóðin býr að.