140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður vék að því í lokaorðum sínum að hæstv. ríkisstjórn hneigðist til að nota framtíðartekjurnar núna og stíga síðan skref til baka í framtíðinni. Í því samhengi vil ég rifja upp umræður um fyrir fram greiddan skatt á stóriðjuna, hvernig hæstv. fjármálaráðherra var hrakinn til baka á sinni fyrstu vegferð með kolefnisgjöldin. Þá var samið við stóriðjufyrirtækin að greiða 1.200 millj. kr. á ári 2010, 2011 og 2012, 3,6 milljarða, og síðan átti að byrja að borga til baka 2013. Þá væri kjörtímabili ríkisstjórnarinnar nefnilega lokið.

Hv. þingmaður sagði líka í ræðu sinni að ekki væri alveg ljóst hvaða áhrif hann hefði, þessi fjársýsluskattur. En ég verð að benda á, eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan, þann mjög svo merkilega texta sem skrifaður er inn í frumvarpið. Þar kemur það nákvæmlega fram hver ætlunin er með þessum skatti. Ég vil, með leyfi forseta, lesa þessar línur sem skrifaðar eru í fjármálaráðuneytinu um tilgang og markmið með skattlagningunni:

„Loks er viðbúið að fjársýsluskattur hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.“

Það kemur skýrt fram í textanum í frumvarpinu hver tilgangur skattsins er: Lækka laun og fækka störfum. Allt það sem við höfum talað um í sambandi við skattahækkanirnar er í raun viðurkennt í þessum texta sem staðfestur er af fjármálaráðuneytinu og hæstv. fjármálaráðherra.