140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, auðvitað er þetta mótsagnakennt. En það sem er kannski hvað alvarlegustu skilaboðin í þessu öllu saman er sú rammsósíalíska hugsun, ég get nú varla sagt þetta orð einu sinni, sem skín þarna í gegn, að reyna að fletja út kerfið eða vinnumarkaðinn. Skilaboðin eru: Við skulum bara hafa ein laun. Ekki eigi að vera hægt að vinna sér inn hærri laun með dugnaði eða einhverju öðru heldur eiga þau að vera þau sömu, og færa eigi laun fjármálakerfisins, eða hvað þetta kallast nú, til samræmis við aðrar greinar. Þetta eru mjög sérstök skilaboð.

Það kann að vera að sjónarmið þeirra er stjórna Íslandi séu þau að allir eigi að hafa 450 þús. kr. í laun, sama hvað þeir vinna mikið og lengi, hvort þeir eru búnir að mennta sig eða ekki, hvort þeir eru búnir að læra viðskiptafræði, fjármálafræði eða eitthvað slíkt þá eiga þeir allir að vera á sömu launum. Þetta er afar kommúnísk hugsun sem er mjög sérstakt að bera á borð árið 2011 á Íslandi, í hinum vestræna heimi.

Það er kannski til marks um öfgarnar. Ef þetta er sú hugsun sem verið er að bera á borð erum við klárlega að sveiflast úr einum öfgum í aðrar — ég get alveg tekið undir það að býsna miklar öfgar voru í átt til óhefts frelsis og slíks sem voru kannski einum of miklar. En að fara alveg yfir á hinn kantinn í einhvers konar ríkisskilaboð í launum og öðru er algjörlega út í hött.