140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum og höfum rætt í dag frumvarp til laga um sérstakan fjársýsluskatt. Miklar umræður hafa verið um málið og í það heila hafa þær verið mjög góðar og efnislegar, um áhrif þess, um vinnubrögðin við hvernig það var unnið, hvernig það var kynnt, hvernig komið var fram með málið. Og almennar umræður hafa verið um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þegar kemur að skattahækkunum sem þessum.

Það sem hefur verið gagnrýnt mjög í meðförum málsins er hversu harkalega það kemur niður á sparisjóðakerfinu. Það er gagnrýnt hvernig þessi fyrirhugaða skattlagning er uppbyggð og að hún muni koma mjög illa niður á einmitt þessum litlu fjármálastofnunum, sparisjóðakerfinu. Það er, frú forseti, með ólíkindum hversu mikið sparisjóðirnir eiga að þola.

Öllum er ljóst mikilvægi sparisjóðanna, mikilvægi sparisjóðakerfisins í byggðarlegu tilliti. Í sparisjóðunum er gríðarlega mikil staðbundin þekking á stöðu viðkomandi byggðarlaga sem sjóðirnir starfa í. Þessi þekking er óðum að glatast vegna þeirra erfiðleika sem sparisjóðakerfið hefur þurft að glíma við og þeirrar litlu viðleitni og áhuga sem hefur verið hjá sitjandi ríkisstjórn að bjarga því kerfi.

Frú forseti. Þetta mál var gagnrýnt mjög af sparisjóðakerfinu, m.a. í umsögn sem var send inn um málið þar sem því er beinlínis haldið fram að þetta sé aðför að sparisjóðakerfinu, ósanngjörn skattlagning sem geti ógnað mjög rekstrargrunni lítilla fjármálastofnana eins og sparisjóðakerfisins.

Nú er það svo að sparisjóðirnir falla kannski ekki alveg undir það sama og hinar stóru fjármálastofnanir gera, þessar stóru fjármálastofnanir þrjár sem eru að verða gríðarstórar á nýjan leik. Umgjörðin öll og hugsunarhátturinn í þeim lagafrumvörpum sem koma fram virðast eiga lítinn skilning hjá ríkisstjórninni. Sparisjóðirnir glíma við mjög krefjandi umhverfi og það er eiginlega ekki á það bætandi. Þeim hefur fækkað mikið og í rauninni er ekki útséð með að þeim fækki jafnvel enn frekar.

Frú forseti. Í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða er lýst þungum áhyggjum af stöðu þessa máls. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Í dag standa eftir MP banki og 10 sparisjóðir sem allir eru litlir og með staðbundna starfsemi úti á landi. Sum þessara fyrirtækja hafa farið í gegnum frjálsa samninga um niðurfærslu skulda en önnur starfa án nokkurs stuðnings. Aukinn fastur kostnaður sem þessi fyrirtæki hafa deilt með sér í gegnum árin er nú borinn uppi af færri aðilum. Starfandi sparisjóðir eiga fullt í fangi með að aðlaga sig að þessari stöðu og tryggja starfs- og samkeppnishæfi sína. Því eru áform um aukna skattlagningu með þeim hætti sem lagt er til mjög íþyngjandi og í sumum tilvikum getur skatturinn orðið algerlega ráðandi um það hvort þessi fyrirtæki standa upprétt eða ekki.“

Ekki er hægt að túlka frumvarpið öðruvísi, eins og gert hefur verið í umræðunni, en sem algjöra aðför að sparisjóðakerfinu. Vissulega hafa ákveðin atriði verið löguð í frumvarpinu milli umræðna. En engu að síður er mjög gagnrýnisvert hvernig á málinu hefur verið haldið frá fyrsta degi og raunar varðandi tekjuöflunina alla, hvernig haldið er á málum sem þessu tengjast. Ég hef gagnrýnt það mjög, bæði í þessari umræðu og eins í umræðum um aðrar skattahækkanir sem voru afgreiddar fyrr í dag, hversu handahófskennd vinnubrögðin eru og þá alvarlegu staðreynd að fyrirtæki og einstaklingar geta ekki með nokkru móti gert einar eða neinar áætlanir vegna þess að það veit aldrei neinn hvað er handan við hornið hjá sitjandi ríkisstjórn. Þetta birtist okkur glögglega núna í þessu frumvarpi og birtist okkur jafnvel enn skýrar í bandorminum sem var afgreiddur fyrr í dag, þar sem laumað var inn ýmsum sköttum og tvísköttunaráformum á atvinnufyrirtæki í landinu sem gengur þvert á fyrri samkomulög sem gerð hafa verið, og hefði skert samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja gríðarlega. Jafnvel þó þeim áformum hafi verið kippt til baka er enn gríðarleg óvissa vegna þess að rekstraraðilar þessara fyrirtækja og fleiri fyrirtækja sem hefðu hug á því að byggja upp eða sækja fram, bæði lítil og meðalstór fyrirtæki, vita engan veginn hvort þessi áform hafa verið lögð til hliðar. Er von á fleiri slíkum handahófskenndum skattahækkunum á næstunni?

Frú forseti. Þær breytingar sem við tölum um, og það hefur komið fram í umræðunni, munu fyrst og fremst koma niður á kvennastörfum. Í ljósi þess hvernig skatturinn mun koma niður á sparisjóðunum mun hann koma sérstaklega illa niður á kvennastörfum einmitt á landsbyggðinni. Sé þetta sett í samhengi við sparisjóðina, við fjárlagagerðina og aðrar skattahækkanir þá er raunar með ólíkindum hvað landsbyggðin má þola hjá sitjandi ríkisstjórn. Íbúar á landsbyggðinni hafa mátt horfa upp á hvernig heilbrigðiskerfið er sett í fullkomna upplausn á hverju einasta ári í tíð sitjandi ríkisstjórnar.

Lítill sem enginn skilningur virðist vera á rekstrarstöðu sveitarfélaga margra hverra og afhjúpaðist það þegar sú ákvörðun var tekin að taka aukaframlag Jöfnunarsjóðs sem alla jafna hefur verið nýtt í þeim tilgangi að greiða til sveitarfélaga, sem hafa mátt glíma við fólksfækkun, og hafa þar af leiðandi ekki átt mjög erfitt með að ná endum saman. Þessu var kippt út með einu pennastriki, helmingnum af þessu framlagi sem hafði gríðarlega mikið að segja fyrir 20–25 sveitarfélög vítt og breitt um landið í þeim tilgangi að bjarga einu sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Nú er það ekki svo að sá sem hér stendur geri sér ekki grein fyrir að þurft hafi að hlaupa þar undir bagga en það hefði átt að gera með því að öll sveitarfélög legðu þar inn í púkkið en ekki eingöngu þau sveitarfélög sem hafa mátt glíma við fólksfækkun á undanförnum árum.

Þegar þetta allt er skoðað og sett í samhengi við frumvarpið og fyrirhugaðar skattahækkanir er ekki nema von að margir séu uggandi yfir þeirri stöðu sem mörg byggðarlög eru í. Sparisjóðakerfið, velferðarþjónustan, tekjugrunnur sveitarfélaganna, þar undir er menntakerfið, það er ekki nema von að menn hafi áhyggjur og velti þessu fyrir sér. Menn spyrja sig í vaxandi mæli að því hvort það sé markmið ríkisstjórnarinnar að fara þannig með landsbyggðina að nær ógjörningur verði að snúa þróuninni við. Ja, þá vil ég segja, frú forseti, að þegar svo verður um búið að ríkisstjórnin og aðgerðir hennar hafi gengið þannig fram af landsbyggðinni er mikilvægt að þeir sem eftir eru kunni að bjarga sér og kunni að draga björg í bú. Því að það verður líklega svo að þetta muni enda með því að ríkisstjórnin geri kröfu til sjálfsþurftarbúskapar á landsbyggðinni og þá er ekki úr vegi að geta reykt sitt hangikjöt og étið.