140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og hann taldi hér upp mál sem maður var hálfpartinn búinn að gleyma. Það eru alltaf að koma ný mál, í næstu viku verður fólk örugglega farið að ræða eitthvað annað og við hérna ef við verðum hér áfram. Ég veit það því að flest málin sem við ræðum hér, a.m.k. stærstu málin sem varða fjármál ríkissjóðs, koma úr hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þar erum við því miður ekki búin að tæma listann yfir mál sem ekki hafa verið unnin nógu vel. Þau mál sem hv. þingmaður vísaði til eru engin smámál, t.d. Icesave-málið. Ég minni á það, ef einhver var búinn að gleyma því, að hv. þingmenn áttu ekki að fá að sjá Icesave-samkomulagið. Það kom fram á internetinu áður en hv. þingmenn fengu að kynna sér það, hv. þingmenn áttu að samþykkja samkomulagið fyrir hönd þjóðarinnar án þess að hafa skoðað það. (Gripið fram í: … ráðherrar.) Hæstv. ráðherrar áttu sömuleiðis að samþykkja það og skrifað var undir þetta gríðarstóra mál án þess að búið væri að samþykkja það í ríkisstjórn. Þetta er bara eitt dæmi. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki af hverju menn læra aldrei af reynslunni þrátt fyrir öll þessi mál, Icesave, ESB, stjórnarráðsbreytingarnar og alla þessa þætti. Af hverju? Nú er það svo að flestar ef ekki allar lifandi skepnur læra af reynslunni. Hæstv. ríkisstjórn gerir það ekki og þess vegna erum við alltaf að taka sömu umræðuna hvað það varðar að við erum að reyna að komast að hinu sanna í hverju máli fyrir sig og eðli málsins samkvæmt að velta okkur upp úr því (Forseti hringir.) af hverju í ósköpunum er unnið jafnilla að málum og raun ber vitni.