140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 9. þm. Norðvest. fyrir prýðilega ræðu. Hann staldraði nokkuð við stöðu minni fjármálafyrirtækja, ekki síst fjármálafyrirtækja á landsbyggðinni, og vísaði þar meðal annars til sparisjóðanna.

Við vitum að bankar sem eru starfandi úti um landið sinna margir hverjir hlutverki sínu ágætlega. Við sáum það til dæmis þegar Landsbankinn tók yfir SpKef, hann stóð ágætlega að málum, til að mynda á Vestfjörðum þar sem ég þekki vel til. Sumir hafa haldið því fram að það sé svo sem ekkert að óttast, við eigum ekki að þrástagast á mikilvægi sparisjóðanna, þeir geti bara komið og farið. Ég varð til dæmis var við það að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafði uppi nokkurn veginn þessi sjónarmið þegar við ræddum þessi mál í umræðu utan dagskrár eins og það hét þá, í sérstakri umræðu þar sem ég hafði frumkvæði að því að ræða um stöðu sparisjóðanna og framtíð þeirra. Eins og ég skildi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þá var það einfaldlega þannig að ef sparisjóðirnir gætu ekki spjarað sig við þær aðstæður sem þeim væru búnar núna mættu þeir bara sigla sinn sjó og þá væri allt eins gott að bankarnir tækju þá yfir.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að núna er verið að setja fram skattálögur sem greinilega bitna harðast á sparisjóðunum og líklegt að þessi skattlagning, þessi stefnumótun ríkisstjórnarinnar, hraði þeirri þróun sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var að ræða um. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum með mér að stefnumótun af þessu tagi sé í raun og veru ekki hlutlaus, að það sé ekki verið að skapa þá stöðu að sparisjóðirnir geti keppt á jafnréttisgrundvelli. Það geta þeir auðvitað ekki vegna þess að stóru bankarnir fengu svo mikla meðgjöf. Síðan kemur hitt til viðbótar að verið er að gera breytingar á rekstrarumhverfi sparisjóðanna sem gerir þeim erfiðara fyrir og því er tómt mál að tala um (Forseti hringir.) að þeir geti keppt á jafnréttisgrundvelli við stóru bankana.