140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um það þegar Landsbankinn tók yfir SpKef að um margt hefur farið ágætt orð af því sem þar hefur gerst og starfsfólk og íbúar hafa almennt verið ánægðir með þjónustuna það sem af er. Engu að síður er þar ekki um sparisjóðakerfi að ræða. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að staða sparisjóðanna og framtíð þeirra er mjög óljós um þessar mundir. Það er raunar með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli koma fram og segja það í öðru orðinu að hún vilji bjarga sparisjóðakerfinu en segi síðan í hinu orðinu að sparisjóðirnir verði bara að spjara sig við þessar aðstæður, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur sagt, og aðstæðurnar eru síðan gerðar með það fyrir augum að það er vonlaust fyrir sparisjóðina að spjara sig. Þetta er eins og segja einhverjum að synda til Viðeyjar í kafi en það vita allir að það getur enginn synt til Viðeyjar í kafi, og segja svo við fólk: Það er ekkert mál, þér er frjálst að synda til Viðeyjar en þú verður bara að gera það í kafi. Það vita allir að þetta gengur ekki upp. Það er þetta sem er svo gagnrýnivert þegar menn eru að slá sér upp á því á tyllidögum að það sé vilji til að bjarga sparisjóðakerfinu á sama tíma og frumvörp sem þetta ganga í rauninni þvert gegn því og gera það ómögulegt að sparisjóðakerfið geti starfað. Það er þetta sem er svo gagnrýnt, að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri er að gera. Ég held að það sé raunverulega þannig, að hægri höndin viti ekki nokkurn skapaðan hlut hvað sú vinstri er að gera.