140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þingmanni og setti um margt svolítið annan vinkil á málið en verið hefur í umræðunni í kvöld. Hv. þingmaður benti réttilega á að þetta frumvarp ynni í raun og veru gegn leiðréttingu á skuldum heimilanna. Þetta er grafalvarlegt og er náttúrlega með ólíkindum að slíkt skuli sett fram á sama tíma og mörg þessara heimila þurfa svo sannarlega á skuldaleiðréttingu að halda. Það var líka rétt hjá hv. þingmanni þegar hann fór yfir tölurnar sem fara í umboðsmann skuldara, 2,5 milljarðar. Það væri nær að eyða þeim fjármunum til leiðréttingar á skuldum heimilanna.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort það sé ekki sérstakt að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð leggi fram frumvörp sem þessi sem beinlínis vinna gegn hagsmunum almennings í landinu, eins og hv. þingmaður lýsti svo vel. 500 heimili gætu fengið 5 millj. kr. skuldaleiðréttingu með þeim fjármunum sem renna nú til umboðsmanns. Hversu mörg heimili gætu fengið leiðréttingu af þeim fjármunum sem þetta frumvarp tekur í formi skattheimtu? Væri ekki rétt (Forseti hringir.) úr því að hæstv. ríkisstjórn leggur til þennan skatt, að þessir fjármunir mundu renna beint til skuldaleiðréttinga fyrir heimilin (Forseti hringir.) í landinu?