140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur unnið markvisst gegn almennri leiðréttingu skulda. Framsóknarflokkurinn lagði til að ráðist yrði í almenna leiðréttingu skulda við hrunið og þá var vissulega tækifæri til að gera það með auðveldum hætti en það verður æ flóknara og erfiðara eftir því sem lengra líður frá stofnun nýju bankanna.

Á sama tíma og ríkisstjórnin neitar að ráðast í almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna þrátt fyrir ítrekaðar kröfur til að mynda Hagsmunasamtaka heimilanna, leggur hún fram frumvarp undir heitinu Frumvarp til laga um fjársýsluskatt. Auðvitað getur enginn verið á móti því að skattleggja bankastofnanir, helsta óvin heimilanna í landinu eins og málin eru sett upp. Bankastofnanirnar eru með öll lánin, þær neita að ráðast í almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna, ríkisstjórnin gerir það ekki (Gripið fram í: … Íbúðalánasjóð.) og ekki Íbúðalánasjóður.

Nú liggur fyrir, eins og hv. þingmaður benti á, að þetta frumvarp dregur úr möguleikum bankanna til að ráðast í almennar skuldaleiðréttingar. Er þá ekki skýr og rétt krafa að þeir fjármunir sem teknir verða með þessum skatti verði notaðir til handa skuldugum heimilum og notaðir til almennra leiðréttinga, því að sú skattheimta sem hér er lögð til kemur í veg fyrir leiðréttingu lána? Hvers eiga heimilin að gjalda? Er ekki rétt að tryggt verði að þessir fjármunir renni til almennrar leiðréttingar ef þetta frumvarp næði fram að ganga (Forseti hringir.) og gerðar yrðu breytingar á því í þá átt?