140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski einhver skynsemi í þessu ef menn segðu sem svo: Nú ætlum við að setja eins mikil gjöld á bankana og við mögulega getum og knýja þannig fram leiðréttingu skulda. En það er ekki verið að gera það (Gripið fram í: Ekki einu sinni verið að gera það.) og þvert á móti er verið að hækka skatta á þessi skuldugu heimili. Reyndar breytti hv. efnahags- og viðskiptanefnd viðmiðuninni í lægsta skattþrepinu í 9,8% í staðinn fyrir 3,5% til að laga þetta aðeins. Og hér stóðu menn, (Gripið fram í.) virðulegi forseti, og töluðu eins og þeir væru að gera stórkostlega hluti. Ég lét reikna út hver yrði mesta hækkunin fyrir fólkið. Mesta hækkunin varð ef mánaðarlaun voru 230 þús. kr. Var þá hækkun ráðstöfunartekna þá 5% eða 6% eða 7% eða 10 eða 20 eða 30? Hún var mest 0,15%. Það eru bara nokkrar súkkulaðikúlur fyrir þetta fólk.

Virðulegi forseti. Við getum rætt það að mesti kostnaðurinn við Icesave fram til þessa er stofnun nýju bankanna því að í öllu havaríinu til að koma í veg fyrir þau stórslys rann það í gegnum þingið bara sisvona sem aukamál. Við hefðum betur gripið til varna þar. Ríkisstjórnin, hvað hefur hún gert? Við nefnum almenna leiðréttingu skulda. Það kom ein himnasending, það var himnasending að erlendu lánin voru dæmd ólögleg og það hefði átt að leysa vandann. En nei, ríkisstjórnin gekk inn með lagasetningu og einhverja reiknireglu sem aldrei hefur sést. Eini gallinn við þá reiknireglu er sá að hún kemur einstaklega illa út fyrir lántakendur. Ég hvet menn til að fara á (Forseti hringir.) heimasíðuna mína og skoða lánareikninn þar. Þar getur hver og einn séð hvað lagasetning ríkisstjórnarinnar snuðar fólk um.