140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að svara þessari spurningu mjög afdráttarlaust. Jú, það er augljóst að þetta frumvarp mun draga úr möguleikum fjármálastofnana til að bregðast við aðstæðum hjá fólki sem þarf á skuldalækkun að halda. Ég hef kynnst því af biturri reynslu þegar maður hefur verið blankur í gegnum tíðina að ekki er hægt að nota sömu krónuna tvisvar. Oft hefur maður óskað þess að það væri hægt en ég held að í þessu frumvarpi felist pínulítil óskhyggja um að hægt sé að nota sömu krónuna tvisvar og kannski þrisvar.

Það er nefnilega þannig eins og ég hef bent á að afkoma stærri bankanna hefur byggst mjög mikið á því að þeir fengu eignasafn úr gömlu bönkunum fært yfir í nýju bankana á tiltölulega lágu verði. Síðan hefur komið í ljós að þetta hefur gefið bönkunum bæði aukinn rekstrarhagnað og batnandi efnahagsreikning. Nú er hugmyndin sú að reyna að nálgast þessa peninga og skattleggja þá og þá verða þeir auðvitað ekki notaðir til að lækka skuldir heimilanna.

Þetta er þó ekki nema hluti af sögunni og kannski ekki það allra alvarlegasta. Það allra alvarlegasta er að hluti af fjármálakerfi okkar býr ekki við þessar aðstæður og mun þurfa að taka á sig aukna skattbyrði sem hefur ekkert með afkomu þeirra að gera heldur er tekjustofninn til dæmis launin. Eftir því sem launaþátturinn er hærri af ýmsum ástæðum, sérstaklega í minni fyrirtækjunum, mun afkoma þeirra versna enn, samkeppnisstaðan versna og möguleikarnir til að koma til móts við fólk í greiðsluvanda og fyrirtæki í vanda verða minni fyrir vikið. Fólk sem og fyrirtæki geta lent í því að vera hreinlega svo óheppin að vera í viðskiptum við einhver slík fyrirtæki og fá þess vegna verri úrlausn mála sinna (Forseti hringir.) en þeir sem eru í viðskiptum við öflugri og ríkari fjármálafyrirtæki sem kunna að hafa fengið meðgjöf af einhverju tagi.